— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 6/12/11
Töl og dul

Besta námskeiðið á skólaferli mínum

Á fjórðu önn minni í tölvunarfræðinni við Háskóla Íslands sótti ég námskeið sem hét Tölvuöryggi og dulmálskóðun. Umrætt námskeið var þekkt fyrir að vera mjög misjafnt á milli ára, enda kenndi sjaldan sami kennarinn það tvö ár í röð. Árið sem ég tók námskeiðið var engin undantekning; á því ári tók amerískur gestakennari þetta námskeið að sér, og þrátt fyrir að (eftir því sem mér skildist) hann hafi sýnt því áhuga að halda áfram kennslu þess, ákvöðu yfirboðarnir að framlengja ekki setu hans í menntastofnunni gömlu.

Ástæður þessarar ákvörðunar get ég frekar hæglega giskað á. Maðurinn var stórskrýtinn - pínulítill naggur og af illkvittnum nemendum kallaður 'hobbitinn'. Kennsluaðferðir hans voru jafnframt mjög strangar og agaðar, og staðlarnir voru háir - miklu hærri en sem nam í raun þeim þremur einingum sem fengust fyrir námskeiðið. Efnistökin voru háfræðileg; hreinræktuð dulmálskóðunarfræði og ekkert annað. Tölvuöryggið var látið sitja algjörlega á hakanum. Maðurinn var því alls ekki allra.

Ég hins vegar dýrkaði manninn og námsefnið hans. Þetta námskeið var það eina í háskólagöngunni sem ég mætti óaðfinnanlega í, og var það töluvert afrek í ljósi þess að ég hafði (og hef enn) einstaklega gaman af því að sofa út (annar tíminn af þeim tveimur sem voru í hverri viku var klukkan 8 á mánudögum).

Verkefnin sem stubburinn setti fyrir voru hreinlega æðisleg. Þau snerust um að liggja yfir kóðum og brjóta þá, rökstyðja kosti og galla dulmálskóðunarkerfa, og svo reikna, þar sem auðvitað var þetta lítið annað en hreinasta stærðfræði.

Nú verð ég að viðurkenna að ég er engan veginn manna bestur í stærðfærði, né hef ég sérstaklega mikinn áhuga á henni almennt séð, en dulmálskóðunartengd stærðfræði er hins vegar einstaklega skemmtileg í mínum huga. Ég held að þetta tengist því að ég virðist vera fatlaður á rauntölur - stærðfræði henni tengd, svosem stærðfræðigreining, finnst mér leiðinleg og torvelt. Heiltölur eru hins vegar allt annað mál. Talnafræði og talningafræði þykja mér hins vegar hin frábærustu fræði.

Ég stóð mig, þó ég segi sjálfur frá, mjög vel í þessu námskeiði, og hafði brenglaða unun af því að horfa upp á hvern samnemandann hrökklast úr því vegna áhuga- og/eða getuleysis. Hápunktinum náði ég hins vegar þegar ég náði (svo gott sem) einn míns liðs að brjóta hinn fornfræga Enigma-kóða ... en frásögnin af því bíður næsta félagsrits.

   (32 af 49)  
2/11/04 20:01

bauv

Skál! Hvað varsti lengi að brjóta Enigma kóða?

2/11/04 20:01

Offari

Þú ert ráðinn í leyniþjónustuna. Þín bíða nokkur verkefni hér. Númerið 003 er laust vegna skyndilegs andláts.

2/11/04 20:01

dordingull

Það er semsagt nauðsynlegt að koma fyrir Þarfagildru í tölvunni.

2/11/04 20:02

Furðuvera

Á Gestapó eru margir snillingar, hver á sínu sviði. Þú ert án efa einn af þeim!

2/11/04 20:02

Hvæsi

X8IX8 Er nú eini kóðinn sem ég kann á. Skál fyrir því.

2/11/04 20:02

Jóakim Aðalönd

Skál! Alveg er ég sammála þér. Mér fannst greiningin ekkert skemmtileg, en Línan og Talningafræðin miklu skemmtilegri. Því miður var ekkert dulkóðunarnámskeið í boði hjá mér, en við fengum þjöppun í staðinn. Það var talsvert áhugavert.

2/11/04 21:01

Skabbi skrumari

Áhugavert... hlakka til að lesa um Enigma kóðan, en geturðu sett það fram þannig að þeir sem þekkja lítt til dulkóðunar geti skilið það?

2/11/04 21:01

Günther Zimmermann

4688 452 84371

(Þetta er nú góður kóði...)

2/11/04 22:01

Þarfagreinir

X8IX8 ... hér vantar samhverfu. X8I8X er mun betra.

4688 452 84371 lítur helst út eins og erlent símanúmer.

Og já, ég mun setja fram frásögnina af Enigma á aðgengilegan hátt. Það rit mun birtast fljótlega eftir að þetta hverfur af forsíðunni.

2/11/04 22:02

Günther Zimmermann

Þetta tengist símanúmerum vissulega, þetta er nefninlega hinn óbrjótanlegi s m s - kóði svokallaði.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.