— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 1/11/04
Enn frekari bílatengdar raunir

Ég skrifaði þennan pistling á einkasvæði mínu í netheimum, og ákvað síðan vegna fjölda áskorana að birta hann einnig á þessum vettvangi. Honum er þó lítillega breytt á einum stað til samræmis við framrás tímans.

Í gærkvöld held ég að mér hafi tekist hið ómögulega: Að fara fram úr sjálfum mér í tengslaleysi við umheiminn og almennum einkennilegheitum.

Þetta hófst allt saman nokkuð eðlilega. Ég lagði Benzanum fyrir utan Bónusverslun þá sem ég sæki reglulega, strunsaði þangað inn, henti matvælum í körfu, borgaði fyrir þær, og arkaði út úr versluninni með vörurnar góðu í poka. Það var á þeim tímapunkti sem að atburðarásin tók uggvænlega stefnu.

Ég skimaði í kring um mig og kom auga á brúnleita Benzbifreið nokkra sem mér sýndist vera mín. Almennt séð er ég alveg hreint ótrúlega lélegur í að þekkja bílategundir í sundur, þannig að það er nokkuð heppilegt að ég skuli eiga bíl sem sker sig nokkuð mikið úr í hinni stóru bílaflóru landsmanna. Af þessum sökum taldi ég nánast öruggt að þetta væri í raun Benzinn minn. Ég snaraði mér því inn í hann og henti innkaupapokanum í farþegasætið. Allt var nokkurn veginn eins og það átti að sér að vera enn sem komið var. Að vísu fannst mér sætið mitt dálítið þrengra en venjulega, en ég ákvað engu að síður að setja bílinn í gang, eins og mér er eðlislægt að gera nokkuð umhugsunarlaust um leið og ég sest í bílinn. Þetta gekk hins vegar ekki jafn snuðrulaust fyrir sig og venjulega - raunar gekk það alls ekki yfir höfuð. Ég neyddist því til að endurskoða stöðu mína eilítið. Fyrsta skrefið í því ferli var að líta almennilega í kringum mig - og viti menn: Bíllinn var alls ekki eins að innan og hann átti að sér að vera. Liturinn á áklæðningunni var ekki sá sami, og það var einhver stærðarinnar kassi í aftursætinu sem ég kannaðist engan veginn við.

Hér kom eiginlega eingöngu tvennt til greina: Annað hvort hafði einhver óprúttinn einstaklingur eða einstaklingar skipt út innvolsi bílsins míns og skilið eftir þennan kassa, eða ég hafði sest inn í rangan bíl. Ég beitti rakhnífi Occams á aðstæðurnar og ályktaði að síðari kosturinn væri líklegri. Ég hundskaðist því út úr bílnum og mundi í svipaðri andrá eftir því að ég hafði lagt mínum eigin Benz hinum megin bílastæðisins. Ég leit þangað og sá réttan bíl blasa við mér. Sneyptur gekk ég að honum og hraðaði mér af vettvangi, logandi hræddur um að einhver myndi reyna að bendla mig við ólöglegt athæfi vegna þessa atviks. Ég hafði alls ekki tíma fyrir slíkt, þar sem ég var svangur og vildi komast heim til að elda mat. Sem betur fer slapp ég frá þessu öllu saman nokkurn veginn heill, en mér segir svo hugur að ég muni gæta mig betur á þessu tiltekna atriði í framtíðinni.

   (35 af 49)  
1/11/04 01:01

Heiðglyrnir

Þessi var góður þarfi minn, einstaklega skemmtileg saga. Hafðu þökk fyrir hana.

1/11/04 01:01

Sæmi Fróði

Já varst það þú sem afstilltir sætið mitt! [Hlær hrossahlátri] Góð saga!

1/11/04 01:01

Offari

Men hafa jafnvel ekið lögreglubílnum með blikkandi ljósum og parkerað heim í hlaði þetta kemur greinilega líka fyrir besta fólk

1/11/04 01:01

Isak Dinesen

Skemmtileg og góð frásögn.

1/11/04 01:01

B. Ewing

Gleymdirðu nokkuð vörunum í ranga bílnum ?[Hlær eins og vilteysingur]

1/11/04 01:01

Litla Laufblaðið

[Fliss]

1/11/04 01:01

Nafni

Þú gleymdir innkaupapokanum, álfur!!

1/11/04 01:01

Vladimir Fuckov

Þjer getið huggað yður við að fleiri eru utan við sig en þjer. Einhver gleymdi greinilega að læsa bílnum sínum (nema þjer hafið óvart brotist inn í hann). Mjög skemmtileg frásögn.

1/11/04 01:01

Litli Múi

Þetta er ömurlegt. Ég lenti einu sinni í því að opna hurðina á bíl sem ég hélt að væri bíllinn minn, en þegar ég ætlaði að fara að setjast inn tók ég eftir því að þar sat manneskja sem ég kannaðist ekkert við.

1/11/04 01:01

Tigra

Hah.. það settist einhvertíman einhver kall inn í bíl til mín og byrjaði að blaðra heil ósköp.
Ég sat bara og horfði á hann... þangað til hann leit svo á mig og roðnaði alveg svakalega og muldraði einhver afsökunar orð um leið og hann forðaði sér út.

1/11/04 01:02

Nermal

Það er bara einn svona eins og minn í bænum... get ekki ruglast. Hann blikkar mig líka þegar ég opna hann

1/11/04 01:02

Skoffín

Já seisei. Þetta verður að teljast ansi tímamótaárangur.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.