— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 1/11/07
Jakkaföt

Viðvörun: Félagsrit þetta er langt, persónulegt og væmið á köflum.

Einhvers staðar rámar mig í að hafa lesið frekar skáldlega setningu þess efnis að ekkert væri jafn einmanalegt og einmana maður í jakkafötum. Ekki hefur mér þó tekist að finna téð orð á gagnvarpinu, og því get ég ekki nefnt neina heimild fyrir þessari staðhæfingu - en það er líklegast aukaatriði. Orðin eru jafn sönn fyrir því.

Í enskri tungu er síðan til orðatiltæki, sem lýsir hinu sama. All dressed up, but nowhere to go.

Einmanaleikinn felst í því að það að klæða sig upp sýnir töluverða viðleitni til félagslegra samskipta. Maður klæðir sig jú ekki upp fyrir sjálfan sig, heldur fyrir aðra. Að slíkt fari forgörðum er vitaskuld ekkert annað en argasta sóun. Andstæðurnar eru æpandi.

Sem stálpaður krakki var ég merkilega áhugasamur um jakkaföt. Vel má vera að það hafi tengst órjúfandi böndum þeim mikla áhuga sem ég hafði á töfrabrögðum, þar sem jakkaföt tilheyra auðvitað alvöru töframanni - það segir sig sjálft. Hins vegar má líka vel vera að fleira hafi legið að baki. Kannski hin undirliggjandi hvöt hafi verið sú hugsun að félagsleg samskipti væru einungis viðráðanleg ef þau væru formleg. Að aðeins með því að læra reglur og fara eftir þeim mætti ná tengslum við annað fólk.

Ég var góður töframaður. Ég æfði stíft og kom nokkrum sinnum fram á sviði. Ég var rólegur og yfirvegaður, og fipaðist aldrei. Í þessu, líkt og í flestu sem ég hef tekið mér fyrir hendur, hafði ég fullkomna stjórn á aðstæðum.

Samt sem áður var ég lítið annað en einmana drengur í jakkafötum, innst inni.

Jakkafötin spiluðu sitt hlutverk oftar. Fyrsta daginn í menntaskóla mætti ég í jakkafötum. Ég taldi það við hæfi; að í svo virðulegri menntastofnun gæti varla verið búist við öðru en að piltar mættu í jakkafötum við skólasetninguna.

Eftir því sem ég best man var ég hins vegar sá eini sem mætti uppstrílaður. Með sanni má segja að þessi fyrsti dagur hafi lagt nokkuð línuna hvað næstu þrjú árin varðaði. Án þess að farið sé út í smáatriði þá var ég alltaf álíka utanveltu öll árin og ég var þennan fyrsta dag. Ég lærði aldrei reglurnar. Þessar gríðarmikilvægu reglur sem ég taldi að fara yrði eftir til að öðlast viðurkenningu. Heimurinn, sem var svo stór og áhugaverður í æsku minni, var jú, áfram stór - en einum of stór, og ógnvekjandi (svo maður grípi aftur til enskunnar, þá orðaði meistari Waits það víst svona: The world just keeps getting bigger once you get out on your own). Ég óx aldrei almennilega til að passa inn í hann.

Ég var áfram einmana drengur í jakkafötum, innst inni.

Það hjálpaði örlítið til að skipta loksins um skóla. Þar voru reglurnar ekki jafn stífar, og það eitt að fá nýtt tækifæri til að læra reglurnar var í raun nóg í sjálfu sér. Ekki það að ég hafi lært þær gríðarvel, en þó ögn betur en áður.

Á þessum nýja vettvangi tók ég eitt sinn upp á því að mæta í jakkafötum. Ekki man ég svo glöggt nú í dag hver ástæðan fyrir því var - líklega var ég einfaldlega að horfast, á einn eða annan hátt, í augu við gamla djöfla. Vitaskuld vakti þetta viðbrögð. Meðal annars voru tveir guttar sem störðu alltaf mikið á mig á göngunum og flissuðu að mér. Einn daginn sýndi ég þeim puttann - bókstaflega. Mér var sama um þeirra álit. Það var fjári góð tilfinning.

Við tóku hins vegar aðrar öfgar. Nú skyldu engar reglur gilda - eða þá í mesta lagi bara þær reglur sem ég hafði tök á að læra. Fyrst ég gat ekki lært allar reglurnar og öðlast viðurkenningu með því var ekki annað eftir en að prófa að gefa skít í reglurnar, og öðlast viðurkenningu þeirra sem ekki fara eftir þeim heldur.

Þversagnakennt nokk þá er regluleysið hins vegar bara enn ein jakkafötin. Form sem maður heldur sig við, og kemst aldrei út úr. Í staðinn fyrir hinar venjubundnu reglur læðast síðan inn aðrar reglur hvort eð er. Reglur formfestu og rökhyggju. Svo lengi sem ekki er farið út fyrir þann ramma er aldrei hægt að verða sér til skammar. Aldrei hægt að verða særður. Aldrei hægt að særa neinn. Aldrei hægt að finna fyrir miklu yfir höfuð, reyndar ... en það er máske önnur og lengri saga. Saga sem enn er í skrifun.

Það er þetta með jakkafötin. Þau eru svo fjári hentug til að forðast að horfast í augu við það sem skiptir mann mestu máli, en það er eitt einfalt orð: Ég. Meira að segja orðið finnst mér vandræðalegt.

Næstu síður í sögunni? Líklega mun þar einna helst verða sagt frá viðleitni til að reyna að verða eins og 'allir aðrir'. Að fara eftir reglunum án þess að vera sífellt að hugsa um þær. Að njóta núsins. Að viðurkenna tilvist og rétt þessa undarlega fyrirbæris; ég.

Það veit ég vel að ein reglan segir hugsanlega að ekki sé heppilegt að sýna veikleika með þeim hætti sem ég hef gert núna; að þessu eigi að halda inni, og ekki bera á torg. En ég sagði jú að ég kann ekki reglurnar almennilega, ekki satt?

Ég þakka gott hljóð.

   (12 af 49)  
1/11/07 03:01

GerviSlembir

Flott félagsrit.

1/11/07 03:01

Bismark XI

Já og þakka þér sömuleiðist fyrir góðan lestur.

1/11/07 03:01

Andþór

Feikigóð lesning og takk fyrir að deila þessu með okkur.

,,Ekkert er jafneinmannalegt og einmann maður í jakkafötum" hljómar eins og setning úr ljóði eftir Einar Má.
Þetta gæti þó einnig verið heilt ljóð eftir hann, svona svipað eins og ljóðið hans sem ég man ekki hvað heitir en var svona:
,,Einhvernveginn finnst mér að allir skrifstofumenn hljóti að heita Snorri".
Er samt ekki alveg viss.

1/11/07 03:01

Jarmi

Og því er auðveldast að vera 'plebbi'.

1/11/07 03:01

Regína

Og svo hafa þessar reglur tilhneigingu til að breytast ef maður áttar sig á þeim, eða heldur sig hafa áttað sig á einni þeirra ...

1/11/07 03:01

Billi bilaði

Er ekki framhald?

1/11/07 03:01

Hvæsi

Merkileg lesning.
Maður í jakkafötum hefur samt alltaf eitt framyfir hina.
Hann er betur klæddur.
Mundu að Djeims Bond er alltaf í jakkafötum, og hann er jú mun flottari en heimskir menntskælingar í hettupeysum.

1/11/07 03:01

Upprifinn

Skítt með kerfið. Hæfævar Þarfa.

1/11/07 03:01

Dula

Þarfi minn, þú ert að finna "ÉG" sem er hið besta mál og gangi þér vel[knús]

1/11/07 03:01

krossgata

Sérdeilis athyglisverð frásögn.

Jakkföt eru ofmetin, það kostar átök að fá hópinn til að samþykkja jogginggallann þegar það kemur að því að maður vill ekki vera í þessum jakkafötum. Svo saknar maður þeirra kannski stundum og þau ekki við höndina lengur.
[Dæsir mæðulega]

1/11/07 03:01

Kiddi Finni

Takk fyrir söguna. Það er alveg viðeigandi að deila svona lífsreynslu hér.

1/11/07 03:01

Grágrímur

Flott rit.

Ég hef aldrei verið hrifinn af jakkafötum, aðeins átt 3 svoleiðis held ég um ævina... mætti meira segja einu sinni í stuttermabol í fermingarveislu... enda stoppaði ég bara stutt.

1/11/07 03:01

Anna Panna

Fötin skapa ekki manninn, maðurinn skapar föt.
Gott rit, ég vona að það sem er að brjótast um í þér nái að brjótast út á endanum...

1/11/07 03:01

Finngálkn

Þetta var nú með því betra sem ég hef lesið hérna inni. Það er ekki auðvelt að bera sjálfan sig því smásálirnar þola það ekki. Gakktu bara í jakkafötum og skeindu þér á skoðunum fávitann min gamle ven!
Mig hefur sviðið það síðustu ár að hafa látið samfélagið og fjölskyldu stjörna því alltof mikið í hvaða persónuleika ég hef gengið.
Það er heiður að eiga þig sem vin!

P.s. þú ert samt hálviti og ég er miklu betur gefinn en þú!

1/11/07 03:02

Tigra

Hahaha. Þarfi. Þessi setning er úr félagsriti eftir mig. Ég samdi ljóð sem þessi setning var í sjá:

http://baggalutur.is/gestapo/profile.php?mode=viewprofile&u=318& amp;n=6101

Hvað ritið varðar er það vel skrifað og vekur til umhugsunar. Margir verða utanveltu í samfélagi með svo strangar reglur.
En þú stendur þig kall!

P.S. Andþór, takk fyrir að líkja mér við Einar Má
[Ljómar upp]

1/11/07 03:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Mjóg fallegt og frábært

1/11/07 03:02

Skabbi skrumari

Vá... ég mundi eftir þessari setningu, en mundi ekki hvaðan... flott Tigra...

... tek undir það sem Finngálkn segir á aðeins jakkafatalegri hátt...

1/11/07 03:02

Bleiki ostaskerinn

Það er hægt að vera kynþokkafullur og dularfullur á sama tíma í jakkafötum. Gallabuxur og hettupeysa gera menn bara fyrirsjáanlega og hversdagslega.

1/11/07 03:02

Tigra

Gaman að sjá hvað margir muna eftir þessu úr ljóðinu mínu.
[Roðnar óstjórnlega og ljómar upp um leið]

1/11/07 03:02

Hexia de Trix

Ég ætlaði að segja það sama og Anna, um að fötin skapi ekki manninn heldur öfugt.
Annars verð ég að segja að ég kannast of mikið við frásögn þína, Þarfi minn. Hún gæti næstum verið orðrétt upp úr óútkominni ævisögu minni. [Glottir]

Mín kenning er sú að það taki mann allt lífið að fatta hver maður er og sætta sig við niðurstöðuna. Jah, allavega næstum allt lífið. Þeir sem ná níræðisaldri hafa góðan möguleika á að ná nokkrum árum í algerri sátt við sjálfan sig. En þá kemur það á móti, að það er ekki endastöðin sem er aðalmálið í þessu samhengi, heldur ferðalagið sjálft. Og eins og með öll ferðalög, þá er ekki sjálfgefið að maður fatti að njóta smáatriðanna fyrren eftirá.... [Sekkur í heimspekilegar pælingar]

1/11/07 03:02

hvurslags

Ég hef þann tendens að klæða mig oft í jakkaföt við hin ómerkilegustu tilefni, og er oft slétt sama um hvort fólk horfi á mig eða ekki í kjölfarið því, rétt eins og Hvæsi segir, er maður fyrir vikið aðeins betur klæddur og það er alltaf betra en að vera of óformlega klæddur. Þannig að ég hæfæva þig bara líka. Flott jakkaföt rúla!

1/11/07 03:02

Wayne Gretzky

Já Hvurslags og Þarfagreinir,ég fer oft í jakkaföt af ómerkilegustu tilefnum... Hef bara einhverja tilfinningu fyrir því að maður verði að vera með bindi..veit ekki af hverju..ég er eins og þið í þessu.

1/11/07 03:02

Nermal

Ég er nottlega kynþokkafullur í hverju sem er. Líka hettupeysu og gallabuxum.

1/11/07 03:02

Ívar Sívertsen

Frábær lesning og hverjum hollt að lesa. Ákveðin myndlíking spratt fram í huga mér við að lesa um jakkafötin. Myndlíkingin er sú að maður sem mætir í þeim er á skjön við alla, finnst hann vera kjáni en í raun er hann betri og virðulegri en allir hinir. Þetta fær maður óneitanlega á tilfinningu með höfundinn, að honum finnist hann vera kjánalegur en að í raun sé hér (sem við og vitum) snillingur á ferð. Haltu þínu striki kappi og laun erfiðisins held ég að verði ríkulegri en þú getur ímyndað þér.

1/11/07 03:02

Golíat

Takk fyrir þennan pistilinn Þarfi. Það er skaði skólafélaga þinna að hafa verið á skjön við þig. Ekki öfugt, þó auðvitað sé maður alltaf manns gaman.

1/11/07 03:02

Garbo

Gott rit. Allir eru einstakir. Sérstaklega sumir.

1/11/07 03:02

Þarfagreinir

Noh. Ég hefði nú átt að muna að það var Tigra sem átti þessa línu. Þetta sýnir nú bara hvurslags gáfumannasamfélag þrífst hér. [Setur nefið upp í loft]

Annars þakka ég kærlega viðbrögðin - þau eru framar vonum.

1/11/07 03:02

Þarfagreinir

Eitt annars um það sem Hexia segir - ég ætla rétt að vona að hún hafi ekki gengið mikið í jakkafötum sem krakki. [Glottir eins og fífl]

1/11/07 03:02

Huxi

Jakkaföt eða ekki jakkaföt, þar er efinn... Þegar ég var ungur og ekki búinn að finna fjölina mína, þá var það heljarinnar mikið mál hvernig klæði maður valdi sér. Það er ekki fyrr en ég eltist að það rann upp fyrir mér að ég er ekki að skrýða mig einhverjum skrúða fyrir aðra, heldur sjálfan mig. Ef mér líður vel í eigin skinni þá líður mér einnig vel í þeim fötum sem ég vel til að hylja það sama skinn, sama hvað aðrir segja.
Og þú Þarfi, ert alveg einfær um að búa þér til þínar eigin reglur og þarft ekki, frekar en aðrir snillingar, að láta segja þér fyrir verkum. Hvorki í fatavali né öðru.

1/11/07 03:02

Hexia de Trix

Nei Þarfi... enda sagði ég NÆSTUM orðrétt. [Glottir meira]

1/11/07 04:00

Jóakim Aðalönd

Takk fyrir meðdeilinguna.

Nú er ég einn af þeim sem er mjööööög spes. Ég mætti m.a. í jakkafötum í skóla þegar ég var 10 ára gamall og var alvel slétt sama þegar krakkarnir hlógu (og reyndar kennararnir líka). Mér fannst þetta flott og álit hinna skipti mig engu máli. Eftir á að hyggja var ég í skóla með mjög þröngsýnu og í sumum tilfellum slæmu fólki og það hefur ekkert breyzt í dag. Einn af strákunum sem hló hefur ítrekað verið staðinn að framhjáhaldi, annar er fjárglæframaður, annar kláraði ekki gagnfræðapróf, ein stelpan er lauslát drusla sem lætur vonda menn misnota sig og kennaraliðið er allt í sorglegri stöðu sem ég öfunda það ekki af.

Lærdómurinn er: Ekki láta þig neinu varða álit annarra á þér. Það eina sem raunverulega skiptir máli er að þú sért sáttur við sjálfan þig. Aðrir geta farið fjandans til.

1/11/07 04:00

Jóakim Aðalönd

,,alveg slétt sama" á að standa þarna...

1/11/07 04:00

Vladimir Fuckov

Afar gott og áhugavert fjelagsrit. Sumt er kunnuglegt.

Vjer rákum augun í orð Huxa, þ.e. "Ef mér líður vel í eigin skinni þá líður mér einnig vel í þeim fötum sem ég vel til að hylja það sama skinn, sama hvað aðrir segja". Þetta tengist orðum Þarfa, "Líklega mun þar einna helst verða sagt frá viðleitni til að reyna að verða eins og 'allir aðrir'". Viðbrögð annarra geta nefnilega haft þarna mjög mikil áhrif og leitt af sjer allskyns 'heimatilbúnar' reglur þannig að það eru ekki bara 'utanaðkomandi' reglur sem valda vandræðum. Að lokum kemur svo sá tími að áðurnefndar 'heimatilbúnu' reglur eiga ekki lengur, við, t.d. vegna hærri aldurs eða breyttra aðstæðna. Þá getur hinsvegar verið alveg ótrúlega erfitt að mölbrjóta niður svona 'reglur' sem eru orðnar óþarfar og 'úreltar' en uppskeran er ríkuleg og hvetjandi. Óvissa um nákvæmlega hverskonar fyrirbæri þetta jeg er getur hinsvegar flækt málið.

Skemmtilegt annars að 'jakkafatatilvitnunin' skyldi vera komin frá Tigru. Oss fannst hún líka kunnugleg en datt ekki í hug að það hefði verið á Gestapóinu sem vjer sáum þetta - höfðum frekar á tilfinningunni að hún væri komin úr sk. 'virðulegum bókmenntum' e.þ.h. Tengingin í fjelagsritið sem Tigra birti var hinsvegar brengluð því Gestapóið 'skemmir' stundum svona nokkuð; fjarlægja þarf " amp;" svo þetta virki.

Þess ber svo að geta að vjer erum alltaf í grænum jakkafötum á Gestapó [Ljómar upp].

1/11/07 04:00

Vladimir Fuckov

Þetta var nú meiri langlokan hjá oss, næstum því á við fjelagsrit [Klórar sjer í höfðinu].

1/11/07 04:00

blóðugt

Stórgott rit Þarfi - væri ég með hatt, tæki ég hann ofan.

Ég kannast við margt þarna, ófáum árunum hef ég eytt í að reyna að verða eins og allir aðrir, og þó ég sé orðin nokkuð sátt við sjálfa mig, þá læðist þetta samt sem áður að mér annað slagið. Þó, eins og þú segir, maður eigi ekki að bera slíka veikleika á torg. [glottir]

En þegar ég hugsa til baka (og merkilegt nokk þá var ég í slíkri íhugun mjög nýlega), þá eru allar stærstu og bestu ákvarðanirnar teknar í samræmi við reglur sem ég setti, og enginn annar. Í nokkur afdrífarík skipti ákvað ég að gefa skít í normið og gera það sem mér þótti réttast.

Í allri þessari fjárans ólukku sem lífið hefur verið - þá er ég hrikalega þakklát fyrir þessi skipti sem mér tókst að gera það sem mér var fyrir bestu.

Ég veit hins vegar ekki hvort eitthvað vit er í því sem ég segi.

1/11/07 04:00

GerviSlembir

Flott lýsing hjá Jóakim á skólafélögum sýnum. [Glottir]

1/11/07 04:01

Offari

Ég á engin jakkaföt.

1/11/07 04:02

gregory maggots

Maðurinn er ekki frjáls fyrr en hann gefur skít í uppstrílað samskiptamynstur þeirra sem lítinn persónuleika hafa.

1/11/07 04:02

gregory maggots

... og Queen of Norm biður að heilsa og segir að ekki skuli afneita norminu, heldur endurskilgreina það eftir hentugleika hverju sinni.

1/11/07 05:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Gagnmerkt rit & góð umræða.

1/11/07 05:01

Ríkisarfinn

Jakkaföt eða ekki jakkaföt, það er efinn.

1/11/07 05:01

Wayne Gretzky

Fyrsta daginn minn í menntaskóla
mætti ég í svörtum jakkafötum.

1/11/07 05:02

Offari

Gretzky þú ert bara bráðgreindur 13 ára unglingur fyrst þú ert kominn í mentaskóla.

1/11/07 06:02

Heiðglyrnir

Skál vinur og Riddarakveðja.

2/11/14 17:01

Texi Everto

Alltaf held ég áfram að finna gæðarit hérna - jakkaföt eða ekki, lífið er vestri og þú ert allt í senn: góður betri og bestri!!1

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.