— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 3/11/05
Nokkrar undarlegar endurgerðir

Enn eitt kvabbið

Endurgerðir kvikmynda eru venjulega frekar misheppnaðar. Það er einungis í undartekningartilfellum sem að slíkt lukkast vel. Þessi pistlingur er ekki um slík tilfelli, heldur þvert á móti um nokkur tilfelli þar sem endurgerð hefur tekist einstaklega illa, í flestum tilfellum þar sem lítill eða enginn grundvöllur var fyrir endurgerðinni. Hér kemur listinn:

The Italian Job (1969 /2003)

Hið upphaflega Ítalska djobb var glettileg og hressandi bresk gamanmynd með mestu stjörnu Breta þá, honum Michael Caine, í aðalhlutverki. Hún var óttalega fíflaleg og mjög svo í anda hins breska sjöunda áratugar; Benny Hill var meira að segja þarna í hlutverki tölvunjarðar sem fenginn er til að 'hakka' rafkerfi og umferðarljós í hugvitsamlegu og skemmtilegu ráni sem gerði Austin Mini bíla svala.

Í endurgerðinni nota Mark Wahlberg og félagar Austin Mini bíla og 'hakka' umferðarljós til að fremja rán. Geisp.

The Planet of the Apes (1968 /2001)

Noh, viti menn. Önnur klassísk mynd frá öndverðum sjöunda áratugnum sem er endurgerð rúmlega þrjátíu árum síðar með Mark fokking Wahlberg. Hið versta við þennan óskapnað er þó að Tim Burton bar ábyrgð á honum, sér til ævarandi skammar.

Ocean's Eleven (1960 /2001)

Aftur sjást hér líkindi með fyrsta myndaparinu. Klassísk og tískusetjandi mynd með stjörnum þess tíma um hugvitsamlegt rán er endurgerð töluvert síðar með nýjum stjörnum. Þessi endurgerð er þó eftirminnilegri og betri í flesta staði. Það sem er þó sérlega bjánalegt er að í kjölfarið var gerð aumingjaleg tilraun til að gera nýtt 'Rottugengi' úr leikaraliði nýju myndarinnar. Lítill rökstuðningur var gefinn fyrir því að téð lið verðskuldaði þann titil, annar en sá að það hafi leikið í þessari endurgerð. Þarna þótti sum sé ekki nóg að endurgera myndina, heldur líka allt fjárans leikaraliðið og anda þess tíma er hún var gerð á. Kræst.

Get Carter (1971 /2000)

Viti menn. Enn eru hliðstæður við verkið ítalska. Michael Caine lék einnig í költklassíkinni Get Carter, sem braut blað í kvikmyndasögunni. Mörgum þótti Caine taka afskaplega mikla áhættu með því að leika jafn ljótan kall og andhetjan Jack Carter sannarlega er. Þessi mynd fangar einstaklega vel hinar groddalegu hliðar mannlífsins í Norður-Englandi á hippatímanum, og er stútfull af svölum og æsilegum atriðum. Myndin öll er í raun gegnumgangandi svalleiki, og Carter er einn flottasti fýr sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Hún er í töluverðu uppáhaldi hjá mér.

Því miður gerði ég þau mistök að horfa á slátrun Sly Stallone á þessu meistarastykki. Ég vissi fyrirfram að þarna yrði um ömurleika að ræða, en hann varð eiginlega meiri en ég átti von á þegar upp var staðið. Það eina sem endurgerðin heldur eftir er grunnþráður myndarinnar. Allt ógeðið og skepnuskapurinn hefur verið síað út eins og vínandi úr góðu viskíi, og eftir stendur ekkert annað en ókennileg brún leðja. Endurgerðin endar meira að segja vel, fjárinn hafi það. Tilgangurinn er minni en enginn.

-

Ég ætla að láta staðar numið hér. Ég verð bara niðurdreginn af þessum skrifum.

   (22 af 49)  
3/11/05 04:01

B. Ewing

Hef bara séð upphaflegu Oceans myndina og fannst endirinn á henni frábær. Hinar verð ég að sjá hinar eftir þennan pistil.

3/11/05 04:01

Vladimir Fuckov

Ekki má síðan gleyma mynd á borð við The Ladykillers, upphaflega myndin er frábær klassík með Sir Alec Guinness, Peter Sellers o.fl. í fararbroddi. Það var nokkuð ljóst að ekki væri hægt að gera betur enda mistókst endurgerðin herfilega.

Nú bíðum vjer bara eftir að einhverjum jólasveininum detti í hug að endurgera Star Wars [Fær hroll].

3/11/05 04:01

Ívar Sívertsen

Ég vil einnig benda á meistarastykki Luc Besson - Le famme Nikita sem á enskunni var kallað The Assasin.

3/11/05 04:01

Þarfagreinir

Fyrst Vladimir minnist á Peter Sellers, þá sé ég að ég hef gleymt endurgerðinni á Bleika pardusnum. Að láta sér detta í hug að einhver annar en Sellers geti leikið Clouseau er algjör firra.

3/11/05 04:01

Jóakim Aðalönd

Nú, eða ,,Luck" sem Frakkar gerðu svo miklu betur en Kaninn.

Annars hef ég tvær athugasemdir við pistlinginn: Planet of the apes var endurgerð rúmlega 30 árum síðar; ekki 40 og ,,tilgangsleysið er minna en ekkert" er furðuleg setning og ætti líklega að vera ,,tilgangurinn er minni en enginn" eða ,,tilgangsleysið er meira en algjört".

Annars ert þú sykurpúði Þarfi minn og er ég algerlega sammála þessum pistlingi í alla staði.

Sjáumst annað kvöld.

Skál!

3/11/05 04:01

Þarfagreinir

Já, heyrðu. Þessar athugasemdir eru báðar réttmætar og ég ætla að leiðrétta það sem þú bendir á. Skál!

3/11/05 04:01

Heiðglyrnir

Verð að bæta við þinn góða lista Þarfi minn...„Lolita” og „Sabrina"...Þvílíkt og annað eins!.....Góður pistill...Skál.

3/11/05 04:01

Ívar Sívertsen

Næst tekur Þarfi endurgerðir á byggingum... [glottir eins og fífl]

3/11/05 04:01

Nermal

Svo þrufti kaninn endilega að endurgera dönsku myndina Nattevagten........ Danska útgáfan var mikklu meira spennandi

3/11/05 04:02

Hakuchi

Sammála þessu. Skil ekki af hverju verið er að endurgera bestu myndir Caine. Hann fullkomnaði hlutverkin og því óþarfi að bæta nokkru við.

3/11/05 05:00

Blástakkur

Hvað er næst? Mun Kaninn endurgera Dalalíf?

3/11/05 05:00

Ívar Sívertsen

Ég held að fyrr endurgeri kanninn Með Allt Á Hreinu og kalli hana Band on the run. Þar verður þessu breytt í svona boyzone gegn atomic kitten og Sigurjón Digri verður Big Bubba. Frímann Flygenring verður Justin Timberlake og Lars Himmelbjerg verður Robbie Williams...

3/11/05 05:00

Jóakim Aðalönd

Nei, S. D. verður J.A.

3/11/05 05:00

Jóakim Aðalönd

Vér erum endur sem gerum og erum jafnvel nokkrar undarlegar. Erum vér þá nokkrar undarlegar endurgerðir?

3/11/05 05:01

J. Stalín

Ek er hjartanlega sammála þér, Þarfagreinir.

3/11/05 05:01

Tina St.Sebastian

Fyndnast þótti mér að hlýða á táningsstúlku nokkra eftir að hún sá War of the Worlds. Hún óskapaðist lengi yfir því hvað leikstjórar væru hugmyndalausir, og ég tók undir, enda orðin leið á endalausum endurgerðum. Kom þá í ljós að stúlkan hafði ekki hugmynd um söguna á bak við WotW, en var að býsnast yfir "hugmyndaleysinu, skilurðu, eins og geimverurnar gætu eitthvað dáið úr kvefi!" Hún hélt sumsé að myndin væri orginall, skrifaður af einhverjum nútíma-skrínræter í henni Hollívúdd. Mikið langaði mig að slá hana.

3/11/05 05:02

Grágrímur

Hehe, mnnir mig á þegar ég ákvað að lesa Lord of the Rings aftur áður en myndirnar kæmu, svo ég gæti dæmt um hve mikið þeim hafði verið slátrað (sem betur fer voru þær alveg ágætar), ég sit inná kaffistofu í vinnunni að lesa og stúlka á... já táningsaldri kemur inn og spyr mig hvað ég sé að lesa, ég segi henni það, hún horfir lengi a mig og spyr svo "Afhverju að lesa bókina þegar myndin er að koma?"

Annars horfi ég aldrei á endurgerðar myndir, finnst að álíka mikið vit og að glápa á flugur ríða...

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.