— GESTAPÓ —
Meistarinn
Nýgræðingur.
Saga - 4/12/08
Sendiboðinn

Hann var ungur, svangur, fátækur og grannur og hafði lent í hremmingum í lífinu er hann hringdi í hið sviksama auðvald til að biðja um bein að naga af allsgnægðar borðunum þeirra. Sá sem var í forsvari fyrir auðvaldið svaraði engu en hlustaði á ungan drenginn biðjast bónar sinnar og hummaði inn á milli orða hans og þegar hann bjóst við gæsku sagði bara það ekki neitt! Í fyrstu hugleiddi hann hvort þögnin þýddi ekki já, hann fengi bein að naga og örlitla hjálp í lífinu! En enga gæsku var að finna í langri þögn raddarinnar. Svo að hann hugsaði hvort það væri ekki bara þannig að viðmælandi hans passaði sig á að segja ekki neitt, því að það er víst svo að menn segja, að fá orð beri litla ábyrgð. En auðvaldið spurði loks hvort eitt bein kallaði ekki á annað! Drengur svaraði og sagði: Eins og dagur kallar á nótt.

Tók hann því til þess ráðs að biðja til Guðs í hljóði um svar, hvað skyldi gera vegna þess að hann hafði heyrt að Almættið væri algott og væri auðvaldinu æðra. Ekki stóð á svari. Samt hafði drengurinn verið trúlaus yfir bernsku sína. Guð sagði, er hann blés svarið í anda: Þú átt mikið erfiði framundan, en munt áorka miklu í mínu nafni. Hjá mér verður þú ekki hlunnfarinn andlega sem veraldlega. Fyrirmæli hans voru svo þessi:

Farðu og dreptu fugl og farðu til helvítis, hittu þar Skrattann fyrir og semdu við hann um matseldina á fuglinum, sagði hin almáttugi meistari. Það gerir þú með því að blóta hann. Þú munt hólpinn verða vegna þess að þú fæddist saklaus sál og þú hefur verið skírður og fermdur í mínu nafni og hefur játast mér eftir það leynt og ljóst og sál þín er því mín löglega eign á jörðu sem á himnum. Er þú gerir það mun allur vindur úr Skratta fara er þú kemur til dyngju hans. Þér verður ekki meint af þó að sársaukinn verði mikill er ég læt þig falla úr náð minni. Og þótt þú gleymir Guði, þá gleymi ég ekki þér.

Arkaði strákur því niðrað síldarplani og fór yfir varnargarð þar niðri við höfnina og tók sér stein í hönd og kastaði í átt að múkka sem flögraði þar við útrennsli frystihússins, í leit að æti. Hann hitti hann strax í höfuðs stað og dauður hann féll til jarðar. Drengur tók hann upp og sagði: Nú hef ég þetta hræ, Guð minn góður, og löng er leiðin til vítis, og vart verð ég samur eftir þá ferð, en lífslöngun mín er mikil og því hlýði ég þér.

Guð ítrekaði það sem hann hafði áður sagt við hjarta hans er hann sagði: Það er erfitt verk og hart framundan, en þú ert í hjarta góður, þó stundum þú gleymir gæskunni. En ég lít á hjartað, ekki framkomu né gjörðir og verðugir eru þeir er játast mér og viðurkenna sínar syndir. Þeirra er ekki ótti, sekt né dómur. Því ætla ég að bera þig þína leið til baka svo að þú finnur ekki fyrir neinu og er þú verður frelsaður í mínu nafni og hefur afneitað sjálfum þér mun allt verða nýtt. Ég er þinn faðir og skapari.
Farðu nú og blótaðu Skrattann þar til hann tekur við þér og opnar fyrir þér sínar dyr, sagði Guð. Strákur lagði af stað með fuglinn á öxl og byrjaði að kalla á „Djöfsa“.

Og hann lét blekkjast og bauð honum til sín niður í vítin sjö. Þegar þangað kom bankaði strákurinn á hverjar vítis dyrnar á fætur öðrum og við þær sjöundu kom skrattinn sjálfur til svara og opnaði, hreinn sem aldrei fyrr. Hann var í sjakket, með slaufu og á höfði hann hafði pípuhatt. Drengurinn kom beint fram og sagði: Hæ ég hef hér fugls hræ!
Hann sagði: Ja, komdu inn drengur og við skulum ræða málin og hann muldraði um hrun og að Guð hefði nú snúið á sig. En Skratti bauð honum sæti, tók af honum jakkann og hengdi hann upp á snaga. Svo rétti hann honum kokkteil blöndu og bauð Diasepam. Strákur afþakkaði pent en sagðist hafa heyrt að hér væri heitt og spurði hvort hann gæti ekki sinn múkka hér matreitt. Djöfull sló á lær sér og skellihló og sagði: Nú er þú komst hér allur eldur dó. Því ræfillinn þú ert Guði merktur og ert verkfæri hans. Skrattinn fuðraði upp áður en hann náði að spyrja hvað hefði orðið um þá vítisloga sem brennt hafa fordæmda um aldir. Rödd hans heyrðist þó í fjarska. Hann sprakk úr hlátri og sagði: Nú er minn samningur útrunninn og maðurinn án Guðs er nú ekki neitt, því ég er hættur fyrir fullt og fast. Hví þá? spurði strákur þá út í loftið.
Djöfsi svaraði og sagði: Hann er í raun minn faðir og allt hefur þetta verið himneskt plott. Nú er ég máttlaus og verðlaus með öllu og minn máttur er uppurinn og verðbréf mín fallin í verði. Strákur bað Guð að blessa hann og hélt til baka sína leið, svangur og þreyttur. Og er hann var kominn til baka í mannanna heim settist hann niður og skrifaði þessa sögu...

   (19 af 37)  
4/12/08 03:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Skratti gott . . . þetta er skrýtinn & skemmtilegur texti. Fjári gott stöff, eiginlega.

4/12/08 03:00

Meistarinn

Já, takk fyrir það.

4/12/08 03:00

Kiddi Finni

Merkileg saga. Eins og þjóðsaga nútímavætt.

4/12/08 03:01

krossgata

Skemmtileg saga.

4/12/08 03:02

Meistarinn

Viljiði fleiri sögur frá mér? Eða er verið að hæðast að mér!!!

4/12/08 03:02

Billi bilaði

Þau sem hér á undan rita hafa aldrey hæðst að öðrum Gestapóun það ég man.

4/12/08 04:00

Meistarinn

sóma fólk hér er að finna

4/12/08 04:00

Einstein

Þetta er öðruvísi og djúpþenkjandi skáld þykir mér. Skemmtilegt aflestrar.

4/12/08 04:00

Huxi

Frumleg nálgun á eilífðarefni. Skemmtilegt lestrarefni sem kallar á meira af slíku.

Meistarinn:
  • Fæðing hér: 7/2/05 14:46
  • Síðast á ferli: 18/10/11 23:13
  • Innlegg: 7
Eðli:
Apotekari baggalútíu, sjálfstættstarfandi. Gefur vímus lyf undirborðið.
Fræðasvið:
Lyf og þá aðallega inntaka þeirra.
Æviágrip:
Sjálfmenntaður lyfjafræðingur með mikla reynslu af ofstórum skömtum.