— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Gagnrýni - 1/11/02
Kjötbollur við Kleppsveg

Það verður að viðurkennast að við stöllur vorum hikandi – ef ekki beinlínis tregar – til að setjast upp í glæsilega bifreið skósveins okkar í dag (fimmtudag). Ekki það að við vantreystum aksturshæfileikum hans ellegar óttuðumst um mannorð okkar, pilturinn er besta skinn og prúðmenni hið mesta. Nei, ástæðan var sú að í dag létum við undan þrábeiðni hans og fórum í mekka sænskrar hámenningar, IKEA við Klepp. Erindið var hvorki að kaupa mublur né mótmæla ótímabærum jólaskreytingum og auglýsingum fyrirtækisins (þó ærin ástæða væri til þess), heldur að snæða hádegisverð í veitingastofu verslunarinnar.

Eftir drjúglanga ökuferð var komið á áfangastað að Holtagörðum við Kleppsspítala. Matsölustaður IKEA er staðsettur innarlega í versluninni þannig að gestir geta notið þess að rölta í gegnum búðina, skoðað það nýjasta í skandinavískri húsgagnahönnun og jafnvel festa kaup á einhverju smálegu fyrir heimilið. Við fjórmenningarnir létum þó ekki freistast að þessu sinni, heldur gengum rösklega til að auka matarlystina enn frekar. Skósveinn okkar skokkaði glaður í bragði í fararbroddi, enda einhleypur og óvanur staðgóðum hádegismat. Veitingamenn IKEA leggja mest upp úr gæðum matarins, enda er ekki hægt að tala um eignlega þjónustu á staðnum. Gestir verða sjálfir að koma óskum sínum á framfæri við gerðarlegar afgreiðsludömur upp við skenkinn, setja matinn á bakka og greiða fyrir, áður en sest er að snæðingi. Lærlingur okkar tók það upp á sitt einsdæmi að velja hópnum þægilegt borð nærri afgreiðsluborðinu, enda við orðin nokkuð lúin eftir gönguna, og náði á undraskömmum tíma að ryðja burt ummerkjum um aðra gesti sem þar höfðu setið.

En þá að matnum. Svíar eru rómaðir um víða veröld fyrir kjötbollur sínar (eða fríkadellur, eins og sumir kalla þær) og því þótti okkur hæfa að bragða á þessum ágæta þjóðarrétti þeirra. Kjötbollurnar eru bornar fram með brúnni rjómasósu og hægt er að velja um þrennskonar meðlæti; hrásalat, soðnar eða franskar kartöflur (kokkarnir daðra með því við fusion-matargerð). Leynivopn þeirra Svíanna er svo týtuberjasultan sem reyndist sérlega gómsæt. Henni getur hver og einn sprautað á sinn disk eins og hann vill úr þar til gerðum dunki og mælum við með því að þrýst sé vel á pumpuna þannig að úr henni fáist vænn slurkur. Völdu flest okkar að skola herlegheitunum niður með blávatni, enda óþarfi og jafnvel ofrausn að velja gosdrykki eða aðra sæta drykki með svo sykraðri máltíð (hér vísast til sultunnar). Auk þess höfðum við stöllurnar hug á því að gera nokkra úttekt á því úrvali sætabrauðs og kökusneiða sem í boði voru á veitingastofunni þennan daginn. Urðum við ekki fyrir vonbrigðum þegar að því kom, því að Daimkakan sem tvær okkar völdu var sérdeilis ljúffeng og Berlínarbollan, sem sú þriðja kaus, bæði formfögur og mjúk undir tönn, eins og vera ber. Sérlegur fylgdarsveinn okkar kaus hins vegar að sneiða framhjá eftirréttunum, enda hafði hann valið sér í meira lagi sætan drykk með matnum, nefnilega hina svokölluðu Fjalladögg í grænni flösku (Mountain Dew). Út frá því spannst fróðleg umræða um hvort Fjalladögg ætti að teljast koffínbættur gosdrykkur eða sykurbættur koffíndrykkur. Slíkar vangaveltur voru gott meðlæti með því sem eftir var af hádegisverðinum, ekki ósvipað koníaki með kaffi – sem við fengum okkur reyndar líka (altsvo kaffi, ekki koníak). Því fylgdu nokkrir snúningar; fyrst þurfti að fá sér þartilgerðan bolla, labba að kaffisjálfsala og ýta þar á ýmsa hnappa; verkefni sem við leystum af stakri prýði og áfallalaust.

Ein okkar hefur slæma reynslu af svipuðum plastklæddum kaffivélum sem hún kynntist í skandinavískum löndum, þannig að hún leit vélina illu auga í fyrstu og kaus sér espresso til að forðast þann gjörsamlega bragðlausa vökva sem sat eftir í minninu frá ferðum hennar austur um haf. En fordómarnir voru fljótir að fara, því kaffið, bæði venjulegt og óvenjulegt, reyndist gott og hæfilega sterkt og cappúccióinn bar fallega froðuhúfu, eins og vera ber. Meðan vélin galdraði fram þrenns konar kaffi handa okkur bárust frá henni sérlega skemmtileg hljóð og óhljóð sem juku enn á ánægjuna.
Við nutum þessa ágæta drykkjar í rólegheitum - sem kemur e.t.v. á óvart -, því margir halda eflaust að veitingarhús IKEA sé þakið öskrandi krökkum á öllum tímum dags.
En í IKEA er margt skemmtilegt fyrir börn að gera, annað en ergja hádegisgesti. Sænskir hönnuðir hafa af hugvitssemi staðsett bíó og leiksvæði rétt við matsölustaðinn þannig að staðurinn hentar vel fyrir alla; fjölskyldufólk, vinahópa eða einstaklinga. Með öðrum orðum sagt, í IKEA má njóta hádegishlés sem er bæði rólegt og 'roligt.'

Allt tekur enda og að lokum minnti skósveinninn okkar samviskusami á klukkuna sem var orðin nokkuð margt. Með gómsætan, heimilislegan og hæfilega léttan mat innbyrðis röltum við saddar og ánægðar út fram hjá jólaskrauti og húsgögnum og ekillinn trausti skutlaði okkur aftur niður í bæ.

Meira að viku liðinni.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og Þöngull (skósveinn)

   (28 af 28)  
5/12/06 13:01

Billi bilaði

En hvernig er þetta í nýja IKEA?

3/12/07 09:00

krossgata

Laum?

5/12/07 01:00

Álfelgur

[Laumast]

31/10/07 04:01

Geimveran

Fundin!

1/11/07 01:01

Wayne Gretzky

Fundinn!

6/12/08 02:00

Hvæsi

Fundin....

5/12/09 14:01

Fergesji

Fundið.

Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.