— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Gagnrýni - 2/12/04
Lúmsk snilld og galdramál

Jonathan Strange & Mr Norrell

Ég er nýbúin að lesa skáldsögu, Jonathan Strange & Mr Norrell eftir Susönnu Clarke. Bók þessi er svo mikil snilld að ég hvet hvern og einn til að lesa hana og bíða alls ekki eftir að einhver þýði hana á íslensku.

Ég ætti kannski að taka fram að ég hef takmarkaða þolinmœði fyrir Discworld, Harry Potter og öðrum skaldskaparheimum sem alltaf eru morandi í marglitum galdri, væmnum sagnadýrum og stundum frekar ódýrum orðaleikjum. Það er smekksatriði, en ég er lítið hrifin af sniðugri fantasíu. Ég vil miklu heldur lesa eitthvað sannfœrandi og helst aðeins óhugnalegt. Öllu helst eitthvað sem festist í minninu og truflar, eins og þegar maður er búinn að lesa of mikið af Jóni Árnasyni í einu og tekur svo eftir því að maður er farinn að haga sér öðruvísi í nánd stöðuvatna, vegna nykrahættunnar.

En alla vega. Þessi bók er ekki Harry Potter og ekki Discworld. Hún er allt annað galdramál. Jonathan Strange & Mr Norrell er saga af Englandi. Atburðarásin á sér stað snemma á 19. öld. Prósinn er líka í stíl þeirra daga. Ekki of þung í lestri, en bókin er fullt eins löng og hœfir skáldsögu frá því um 1815, og söguþráðurinn leiðar mann áfram með nítjándu aldar hraða, hraða hesta og kerra. Napolean og stríðið í Evrópu er sífellt í fréttunum. Hárkolluklœdda samfélagið í höfuðborginni er lítið og slúðurgjarnt. Stéttarskiptingin er gríðarleg. Allt annar heimur og allt annar tími.

En einn mikill munur er á þessu Englandi og hinu sem við þekkjum úr Evrópusögu okkar eða úr bókum Jane Austen. Í Englandi Susönnu Clarks er galdur. Eða var. Og huldufólk. Nema þetta fólk hefur ekkert sést í lifandi manna minni. Vegirnir sem leiða að hulduheimi sjást enn hér og þar á landslaginu, en þeir eru þaknir illgresi og allófœrir. Á miðöldum (segja sögufrœðingar þess Englands) var mikill konungur sem réð yfir Norður-Englandi auk tveggja annarra ríkja, annars í álfaheimi og hins hinu megin við helvíti, Hrafnakonungurinn svokallaður, sem gerði sáttmála við jöfra hulduheims og var göldróttur mjög, og hann ríkti í mörg hundruð ár, en það er nokkuð langt síðan. Söguleg tengsl Englands við hulduheiminn og mikinn galdur eru töluverð, en söguleg.

Á dögum atburðarásarinnar rembast sögupersónurnar (eins og sannir menn 19. aldar) við að vera nútímalegar og kosmópólitískar, að losna við hjátrú og sagnasögur hvers kyns. Líka þegar kemur að galdri. Ekki að Hrafnakonungurinn sé gleymdur, en hann kemur ekki deginum í dag mikið við, alla vega ekki fyrir sunnan í Lundúnum. Og galdur er að vísu til – í bókum. Sem galdrafrœðingur (og slíkir eru til) les maður slíkar bœkur og verður ansi fróður af þeim, en maður galdrar að sjálfsögðu ekki. Engin nútímamaður myndi þykjast gera það einu sinni, nema hann væri einn þessara galdrakarla á götum Lundúna, sem allir eru svindlarar og engin sjentilmaður meðal þeirra.

Svo fer ýmislegt að breytast, aðallega vegna tveggja manna: Mr Norrell, sem er eldri og nokkuð íhaldsamur (þó róttœkur að því leyti að hann fer að galdra, manna fyrstur í óratíma sem gerir það), og Jonathan Strange, yngri og sprækari og til í margt sem Mr Norrell hefði aldrei samþykkt. (Mér detta í hug Finnur Magnússon og Jón Sigurðsson, þó að Mr Norrell sé mun erfiðari persónuleiki en Finnur var. En samt er nokkuð til í þessari líkingu.) Vegna þessara manna fer allt að breytast, smátt og smátt.

Ég segi ekki meira um hvað nákvæmlega gerist. Sagan er of góð til þess; ég þyrfti að þýða hana alla.

Þetta nefni ég í staðinn: höfundurinn gerir eitthvað sem fáum hefur tekist í skáldskap. Tolkien gamla tókst það í Hringadróttinssögu þegar hann leyfðir lesandanum að ‘heyra’ gamlar sögur af hinni dimmu fjallaborg dverganna í nokkur hundruð blaðsíður áður en sögupersónurnar (og þar með lesandinn) stóðu fyrir dyrum sjálfrar Moríu. Og þá leið manni eins og félögunum í sögunni. Maður gat varla trúað því, að maður væri staddur á þeim sögufræga stað: Moríu.

Þessi ‘djúpi’ tími er sjaldgæfur í bókmenntum (og gengur aldrei upp í kvikmyndum). En Susanna Clarke tekst að búa hann til hér. Hún gerir fortíð og jafnvel fornöld sögupersónanna að einhverju merkingarmiklu. Hún tekur sinn tíma, þannig að atburðir og gjörningar hafa sína réttu þyngd þegar þau eiga sér loksins stað. Hún nefnir Hrafnakonunginn hér og þar, eins og hún fari með blýant aftur yfir sama svæðið, teikni aðeins fleiri smáatriði og geri skuggann aðeins dekkri. Ekki fyrr enn á blaðsíðu fjögurhundruðogeitthvað tekur maður eftir því, að skuggi konungsins er kolsvartur og gríðarlega mikill og manni er orðið kalt.

Þetta er meiri háttar galdur hjá höfundinum. Þetta er magnað. Bókstaflega svo.

Hér í Berklabœ eru engir hrafnar einu sinni, bara krákur og aðrir minni háttar krákuættingjar. En mér bregðir samt aðeins þegar þær krunka fyrir utan gluggan, því ég hef ekki enn losnað við þá einkennilegu tilfinningu að Hrafnakonungurinn hafi verið til. Víst hefur hann, víst ... og fuglarnir krunka og ég fer fljótlega að loka dyrum og gluggum og reyna að einbeita mér að lestri og velta ekki fyrir mér hvort einhver eða eitthvað sé á leið til mín, óboðið.

   (3 af 28)  
2/12/04 06:01

Haraldur Austmann

Þetta verð ég að lesa. Sammála þér með bölvaða Discworld þvæluna.

2/12/04 06:01

Skabbi skrumari

Ég hafði nú gaman af þeim Discworld sem ég hef lesið, en eftir svona lýsingar þá verður maður að prófa að lesa þetta... takk Mosa...

2/12/04 06:01

Júlíus prófeti

Meiriháttar félagsrit, nú held ég að ég finni þessa bók og lesi hana, mögnuð lýsing alveg hreint.

2/12/04 06:02

Heiðglyrnir

Þakka góðan pistil og ábendingu, þetta mál verður skoðað ofan í kjölinn.

2/12/04 07:00

St. Plastik

Ég tek ofan fyrir Mosu Frænku fyrir þessa gagnrýni. Ég var einmitt líka að klára þessa snilldar bók og ég tek undir með henni að ég hvet alla til að lesa hana. Þessi bók er æðisleg.

Lesið hana áður en hún verður gerð að bíómynd allavegana. Það mun ekki vera hægt að gera mynd úr þessari bók án þess að afmynda hana, en Þeir munu reyna. já, Þeir munu án efa reyna.

2/12/04 07:00

Lómagnúpur

Súsanna Clarke? Þetta hljómar eins og dulnefni. Líkt og Victor Appleton. Sjálfsagt er þetta enginn annar en Terence Trent D'arby sem þarna stýrir pennanum.

2/12/04 07:00

Tigra

Þetta er bók sem ég ætla að kíkja á.

2/12/04 07:01

Vladimir Fuckov

Discworld höfum vér aldrei nennt að kynna oss. En þetta hljómar mjög spennandi - og enn meira spennandi eftir nánari athugun á amazon.com. Þess má geta að þetta er sannkallaður doðrantur, um 800 bls. (það er reyndar kostur í vorum huga sé um algjöra snilld að ræða) [Íhugar að fara á 'innkaupafyllerí' á amazon.com og víðar vegna hagstæðs gengis dollarans]

2/12/04 07:01

Lómagnúpur

Doðrantavæðing skáldsögunnar er fyrirbæri nútímans, afsprengi tölvunnar og ritvinnslunnar. Líkt og með heimilisþrif við tilkomu ryksugunnar er ekki skrifað hraðar og sjaldnar, heldur bara meira.

2/12/04 01:01

Nafni

Hmmm...

Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.