— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 5/12/03
Fljúganda ógeð

Mikið sakna ég gömlu, góðu daganna, þegar Flugleiðir buðu enn upp á tiltölulega almennilegan mat ásamt ókeypis áfengi. Eins og allt sem fylgir því að ferðast með flugvél vestur um haf sé ekki nógu leiðinlegt og stressandi síðan 11. september 2001, þá eru nú flugvélamáltíðir orðnar ægilega vondar og vínglös og önnur mögulega deyfanda efni dýr.

Mér kom óskemmtilega á óvart, síðast þegar ég fór upp í flugvél, hversu slæmt ástandið er orðið. Sem fangi í FI 633 þurfti ég að velja á milli <i>kjúklings</i> og <i>nautakjöts</i>. Ég hafði ætlað að kjósa <i>pastað</i> (stundum kallað <i>lasagna</i>), sem skv. minni reynslu er skárra heldur en kjúklingabringan seiga og útþurrkaða sem ég hef stundum lent í glímu við. En jafnvel sá óspennandi gervi-ítalski kostur var ekki í boði. Kjúkling kaus ég og strax hóf ég andlegan undirbúning undir langa ‘tyggjustund’.

En mér brá þegar ég rúllaði álpappírnum af ílatinu og horfði ofan í. Í stað bringunnar lágu tvö lítil og kúlulöguð, djúpsteikt fyrirbæri, ógnvekjandi regluleg í formi. Ég skar með flugvélarhnífnum þunna sneið af öðrum enda annars þeirra; ekki veit ég hvort það var í rannsóknaskyni eða af fífldirfsku. Afleiðingarnar voru í senn merkilegar og viðbjóðslegar. Úr gervilegum helli í kjúklingasamsteypunni (því ‘kjötið’ svokallaða reyndist eins konar þéttur búðingur af kjúklingamjöl frekar en kjöt í venjulegu merkingu orðsins, þ.e. vöðvi eða líffæri dýrs) rann torkennilegur vessi eða vökvi. Ég gat ekkert nema hlegið við. ‘Ha ... þetta er ekki <i>kjúklingur Kiev</i>', tautaði ég ósjálfrátt fyrir munni, ‘<i>þetta er kjúklingur Tsjernóbýl</i>’. Frakkinn við hlið mér, sem var kominn jafn langt í eigin rannsóknum á málinu, spurði hvort ekki væri sennilegra að um stórlega mislukkaða tilraun á <i>cordon bleu </i>væri að ræða. Þetta fannst mér skarplega athugað, þó það bætti lítið úr skák í sjálfu ógeðinu.

Grænmeti var með, vinstra megin við ósköpin djúpsteiktu. Það var svo dapurt að sjá að maður át það í miskunnarskyni, eins og maður hefði svæft fárveikt húsdýr frekar en að horfa framan í það í slíkri þjáningu. Svo var eitthvert hvítt efni hægra megin sem alls ekki var gott að segja hvað væri. Þó að maður potaði aðeins í það með gafli varð málið ekkert ljósara. Var það ætlað sem sósa? Hafði það einu sinni verið grænmeti sem fyrir löngu hafði verið búið að mála í klessu? Eða var það kannski nákvæmlega það sem virtist, það er að segja ca. 50 ml. af volgum <i>hor</i>? Innan þriggja mínútna eða svo tókst mér að veiða upp úr pollinum nokkra teninga sem virtust í árdaga hafa verið kartöflur. Svo dapurlegt fannst mér að rekast á <i>Solanum tuberosum</i>, þá ágætu rót, í svo aumlegum kringumstæðum, að ég gafst þar með upp, lagði gafalinn frá mér og setti álpappírinn aftur á, rétt eins og líkábreiðslu.

Skúffukakan sem fylgdi var svo sem allt í lagi. Brauðið, rúnstykkið venjulega og ískalda, var ómerkilegt.

En ég get ekki hrósað smjörinu nóg. Smjörið góða, einangrað frá hinum ósköpunum, var fullt eins ljúffengt í flugvél langt yfir Atlantshafinu og á Skerinu sjálfu; blessaða smérið var það eina ætilega á brettinu. Það var meira að segja gott. Það bjargaði brauðinu kalda. Máltíðinni sjálfri var nú ekki við bjargandi, en ég þakkaði guði og hrósaði íslensku kúnni fyrir hreint smjör með helling af salti í. Það bjargaði mér og Frakkanum við hlið mér úr þessum myrkvasta matartíma okkar.

   (23 af 28)  
Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.