— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Ívar Sívertsen
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skáldjöfur.
Dagbók - 31/10/06
Leynilegur njósnaleiðangur Ívars og Hexíu til Budapest

Við hurfum skyndilega af sjónarsviði Gestapó síðastliðinn fimmtudag þar sem við erum einmitt núna í leynilegri njósnaferð á vegum ríkisins. Leiðangurinn hefur það að meginmarkmiði að bæta við listann yfir óvini ríkisins.

Við fórum dulbúin sem annað fólk og með flugfélagi sem sérstaklega hafði verið valið með hliðsjón af því að ekki væri hægt að rekja ferðir okkar. Flugið tók tæpa fjóra tíma og þótti mér það heldur langt en á meðan ferðinni stóð þá gerði ég hávísindalegar efnafræðirannsóknir á vökvum og áhrifum þeirra, séu þeir innbyrtir.

Þegar komið var til Budapest var farið á hótel og við byrjuðum á því að koma öllum rannsóknargögnum og tækjum fyrir á herberginu. Því næst var haldið á barinn á hótelinu og þar fóru strax þrír á listann yfir óvini ríkisins, starfsmenn barsins! Ástæða þessa er sú að áfengi á barnum er skelfilega dýrt miðað við aðra staði í borginni. Enn fremur eiga þeir skilið að vera á listanum þar sem barinn lokar klukkan 1 eftir miðnætti.

Þegar sumblað hafði verið all duglega þá var gengið til náða. Hótelið er alveg hreint ágætt ef undan er skilið fyrrnefnt bar-vandamál. Við erum á sjöttu hæð og ætti það að halda okkur í hæfilegri fjarlægð frá óvinunum.

Morguninn eftir var haldið af stað í rannsóknarleiðangur um borgina. Fyrst voru aðstæður í neðanjarðarlestunum kannaðar og sáum við þar að þar er gróðrastía óvina ríkisins. Við vorum sem betur fer dulbúin þannig að þeir náðu ekki að finna okkur í mannhafinu. Eftir að neðanjarðarlestirnar höfðu verið kannaðar í þaula þá fórum við í verslunarmiðstöð. Þar bættust all nokkrir við á listann. Ég varð fyrir því óláni við rannsóknarstörf á barnum, kvöldið áður, að rífa buxurnar mínar. Ég þurfti því að verða mér úti um nýjan dulbúning. Ég fór úr einni búð í aðra og á endanum fann ég buxur, í búð sem heitir Griff Extra, sem ég get hneppt undir bumbunni en ekki yfir henni eins og ég hef alltaf gert.

VIð létum lítið fara fyrir okkur á meðan ég vandist nýja dulbúningnum. Við fórum á veitingastað og fengum okkur uruguayskt nautakjöt sem var grunsamlega meirt og gott. Við bættum einni starfsstúlku á listann fyrir að vera allt of myndarleg.

Þegar við höfðum etið var lagt af stað í vettvangskönnun. VIð fórum að Stefánskirkjunni og príluðum upp í turn á henni. Við reyndar tókum lyftu fyrri helming leiðarinnar en þurftum að þramma heilmikla stiga það sem eftir var leiðar. Fínt útsýni var frá þessum turni yfir lendur óvinanna sem og lendar óvinanna því einhverjir voru staddir þarna á sama tíma og við. Þegar við snérum inn þá sáum við að við hefðum getað tekið lyftu miklu lengra en við gerðum og bættum við því starfsmönnum kirkjunnar í snarhasti á listann.

Eftir að við höfðum djöflast og andskotast niður í helvítis kirkjulyftunni þá þrömmuðum við í átt að Dóná. Þegar að henni var komið fórum við að velta fyrir okkur af hverju hún heitir Dóná og enn fremur af hverju menn tala um að hún sé svo blá. Niðurstaða þeirra rannsókna er sú að úti í miðri á er eyja sem kallast Margrétareyja. Hún er eins og unaðsreitur kvenna að neðan í laginu og því hefur legið beinast við að vitna í dónaskapinn og kalla hana Dóná. En af hverju hún er sögð blá þá var það niðurstaða okkar sú að það hlyti að vera af því að hún er alltaf blá á landakortum.

VIð þrömmuðum yfir brú og tókum myndir af grunsamlegum stöðum. Á þeirri göngu fóru nokkrir á listann góða þar sem þeir kunna ekki að víkja fyrir fyrirmennum sem okkur. Þegar yfir var komið gengum við að næstu neðanjarðarbrautarstöð og fórum í miðbæ Budapest. Þar fundum við fyrirtaks kaffihús sem var nógu lítið áberandi. Þar var niðurstöðunum komið niður á blað.

Um kvöldið fórum við svo á veitingastað sem selur dæmigerðan ungverskan mat. Maturinn var góður og vínið var gott. Fyrsti staðurinn þar sem enginn kemst á listann. Því næst var farið á hótelbarinn og kvartað aftur undan verðlagi og lokunartíma enn fremur sem nokkrar efnaprófanir fóru fram. Þegar óvinir ríkisins höfðu lokað barnum þá var farið á írskan pöbb sem er við hliðina á hótelinu. Allir þeir sem þar voru inni fara beint á listann yfir óvini ríkisins vegna þess að þeir voru alltaf fyrir mér. Ég man ekki hvenær ég fór að sofa.

Í morgun fjölgaði óvinum ríkisins síðan um allan helming því við Hexia fórum í skoðunarferð í rútu um Budapest með leiðsögumanni. Þar sem við komum hér dulbúin sem starfsmaður og maki fyrirtækis sem er hér í árshátíðarferð þótti ekki gáfulegt að slíta sig frá hópnum. Ég var alls ekki í standi til að fara í svona skoðunarferð vegna eitrunar sem ég varð fyrir í gærkveldi við efnaprófanir. Ég lét mig þó hafa það þó svo tæpt hafi það staðið. Fólk hló að mér og gerði gys að mér. Allt það fólk fór beina leið á listann. Við skoðuðum eitt og annað og létum narra okkur í túristagildru sem er þannig að fólk fær að halda á erni á handleggnum á sér. Þarna sýndist mér komin leið til að geta sent skilaboð um langan veg á mjög öruggan hátt án þess að óvinir ríkisins komist að því með tölvupóst- og bréfapóstnjósnum sínum.

Eftir hádegið þurfti ég að taka mér fegrunarblund og heppnaðist hann alveg ágætlega.

Við Hexia fórum síðan í göngutúr yfir Dóná og skoðuðum fylgsni óvinanna í kirkju einni sem greypt er í kletta. Allt mjög grunsamlegt. Eftir það komum við okkur á kaffihús og pöntuðum okkur heitt súkkulaði með rjóma. Hexia lýsti því yfir við fyrsta sopa að "þetta pakk" færi mjög ofarlega á listann yfir óvini ríkisins því kakóið var bragðlaust.

Ungverjar virðast vera þjófóttir. Í það minnsta hafa þeir stolið frá okkur ö, ó, í og vafalaust fleiri stöfum í stafrófinu! Þessum mönnum er ekkert heilagt!

Í kvöld förum við Hexia síðan á árshátíð fyrirtækisins sem við flutum með og ætlum við að kanna hvort fleiri bætist á listann þar.

Stefnt er að því að við komum heim á sunnudag en því miður megum við ekki gefa upp tímasetninguna þar sem óvinirnir gætu átt það til að láta sjá sig.

Ég vona að við komumst heil heim og að við getum greint frá frekari rannsóknum innan tíðar. En ef við komumst ekki fram hjá óvinum ríkisins þá munið að farga öllum gögnum um okkur því óvinirnir gætu komist í þau.

Vlad fær svo niðurstöðurnar í fjórriti ásamt fylgiskjölum og leiðarvísi.

   (88 af 287)  
31/10/06 20:01

Upprifinn

Ívar, ertu með bumbu?

Hvernig lenti stelpan á listann fyrir að vera of sæt?

Ég hefði átt að fara í þennan leiðangur fyrir þig því að þú þolir þessar vökvaprófanir greinilega ekki nógu vel.

31/10/06 20:01

Galdrameistarinn

Hér er mynd sem óvinir ríkisins sendu mér fyrir mistök þegar Ívar var að hefja könnun sína á írska pöbbinum.
http://www.tiltyardtheatre.com/resources/photos_htfm/Sid.jpg

31/10/06 20:01

Ívar Sívertsen

Helvítis melirnir! Nú fara óvinir ríkisins á listann yfir óvini ríkisins... [klórar sér í höfðinu] bíddu við... er það hægt?

31/10/06 20:01

Ívar Sívertsen

Ahh... svo gleymdi ég alveg að minnast á að Vlad væri krútt...

31/10/06 20:01

B. Ewing

Þetta hefuir klárlega verið mikill fengur fyrir listann ógurlega. Gerðist hinsvegar ekkert fyndið sem þú manst eftir, þegar þú ert ekki kominn á kaf í vökvaprófanir og hefur ekki réttu minnisblöðin opin ?

31/10/06 20:01

Vladimir Fuckov

[Hrökklast afturábak og hrasar við]
Eiithvað fyndið í njósnaleiðangri til að skrásetja óvini ríkisins ?! [Verður steinhissa og skilur ekki hvað átt er við]

Stórskemmtilegt fjelagsrit og greinilega afar árangursríkur leiðangur [Ljómar upp]. Lokaorð ritsins glöddu oss sjer í lagi en það sama verður eigi sagt um ónefnda athugasemd höfundar neðan við ritið.

31/10/06 20:01

Sundlaugur Vatne

Alter egóið mitt bjó eitt sinn í þessu landi og er samtalsfært á tungumáli þarlendra og segir því bara: Börn getið þið verið.
Þið hafið greinilega lent á nýliðaskelfurunum. Látið það ekki á ykkur fá. Haldið áfram að bera höfuðið hátt og senn munuð þið öðlast verðskuldaða virðingu.

31/10/06 21:00

Grágrímur

Hlaut að vera að það væri svona rólegt yfir Gestapó síðastliðna daga...

31/10/06 21:00

krossgata

Stálu óvinirnir líka É og é?

31/10/06 21:00

Vladimir Fuckov

Nei, skv. áreiðanlegum heimildum stela einungis vinir ríkisins bókstaf hins illa.

Ívar Sívertsen:
  • Fæðing hér: 11/8/03 12:21
  • Síðast á ferli: 22/6/23 12:25
  • Innlegg: 12356
Eðli:
Ákaflega fagur ungur maður með mikinn metnað og kann sig á allan hátt. (hann lærði það á kvöldnámskeiði hjá Bréfaskóla SÍS)
Fræðasvið:
Ég veit allt, get allt og kann allt en fer rosalega leynt með það og kann að fela það vel.
Æviágrip:
[i]Fæddur að handraðanesi á sóðbrókarströnd í Ristilfirði. Lést skömmu síðar. Reis upp frá dauðum eftir korter og bað um brauð. Eftir það var ekki aftur snúið. Hann hefur síðan verið ánetjaður Baggalúti og virðist ekkert vera að skána.Hann fékk sér fæðingarblett á kinnina skömmu áður en hann lét taka hann af sér. Hann hló skömmu eftir það. Ívar hefur nú hafið búskap á Eyðibýli á Auðkúluheiði. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur en hann er all oft kenndur. Sívertsenættin hefur lýst hann útlægan og krafist þess að hann afsali sér ættarnafninu og taki upp nafnið Nestrevís en hann hefur margsinnis hafnað því. Ef þú ert að lesa þetta ennþá þá ert þú líklega jafn skemmdur og Ívar... ef ekki skemmdari barasta. Ertu enn að lesa? Nei nú læt ég leggja þig inn á geðdeild! Það er ekki heilbrigt að lesa svona langt! Viltu hætta þessu! HÆTTU SEGI ÉG!!! Ef þú ert enn að lesa og finnur ekki fyrri vott af þreytu þá skal því bætt við að þegar Gestapó var opnað í árdaga þá gerðist Ívar fastagestur hið snarasta. Hann hefur æ síðan verið einn virkasti gestapóinn og ritað mikið. Hins vegar er ljóst að hann kemur til með að auka viðveru sína á Gestapó á komandi árum því nú hefur hann komið sér í innivinnu við tölvu. Ertu enn að lesa þetta? ÉG held svei mér að þú ættir í alvöru að leita þér hjálpar. Ég er löngu hættur að lesa þetta... ég veit ekki einu sinni hvað stendur eftir línu þrjú. En hvað um það. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og eiginlega svo mikið að það er ekkert salt eftir í sjónum, það lagði á flótta upp í ár og stöðuvötn þannig að nú er sjórinn pakkfullur af ferskvatnsfiskum og ferskvatnshvölum. En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Megasi keisara, að skrásetja skyldi alla drykkina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Gylfi Ægisson var blandstjóri í Stúdjó Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta stjaksetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Rúnar Þór úr Litlu Hraunum frá Hótel Borg upp í Morgunblaðshús, til borgar Davíðs, sem heitir Hádegismóar, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu hjákonu sinni, sem var þung. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Ældi hún þá bjór sinn frumdrukkinn, sagði hann vondan og lagði hann í fötu, af því að eigi var romm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru barþjónar úti í haga og gættu um nóttina drykkja sinna.Og vörður laganna stóð hjá þeim, og dýrð Áfengis ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög fullir, en löggimann sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag afréttari færður, sem er Hristur og hrærðu, í Mogga Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna gubb vont, lagt í fötu. Og í sömu svipan var með löggumanninum fjöldi himneskra hljómsveita, sem lofuðu stuð og sögðu: Dýrð sé stuði í Hádegismóum, og fiður á Davíð og mönnum sem hann hefur velþóknun á. Þannig hljóðar hið heilaga stuðspjall. Og þegiðu svo!