— GESTAPÓ —
Lopi
Heiðursgestur.
Pistlingur - 9/12/08
Flugrás 714 til Sydney verði gerð að skyldulesningu í grunnskólum

Ég datt niðrí Tinnabók um daginn. Flugrás 714 til Sydney. Ég hafði ekki lesið hana í meira en 20 ár. Mér til mikillar undrunar áttaði ég mig á því að það var út af þessari bók að ég hafði óbeit á auðkýfingum öll góðærisárin og botnaði ekkert í þessari útrásardýrkun margra samlanda minna. Það sem maður les í æsku situr í undurmeðvitundinni.

Bókin fjallar um það þegar Tinni og félagar lenda af tilviljun í för með auðkýfinginum Carreidas til Sydney í Ástralíu. Auðkýfingur þessi hafði auðgast á framleiðsu á einkaþotum og var í bullandi hlutabréfabraski. Hann var sérlundaður og bar sig svo aumlega að Kolbeinn Kafteinn laumaði 10 dollara seðli í hattinn hans þegar hann missti hann í gólfið.

Þeir ferðast í einkaþotu Carreidas sem er skyndilega rænt af svikulum samstarfsmönnum, en ránið var skipulagt af illmenninu og glæpamanninum Rassopulos. Rassopulos var búinn að komast að svissneska bankanúmeri Carreidas og vantaði leyninúmerið að bankareikningnum. Til þess var hann búinn að véla doktor Krulla sem hafði undir höndunum lyf sem átti að virka þannig á menn að þeir segðu sannleikan. Þannig ætluðu þeir að ná af honum leyninúmerið.

Ekki tókst betur til en svo að eftir að doktor Krulli hafði sprautað lyfinu í Carridas var ekki nokkur leið að fá hann til að glopra út úr sér leyninúmerinu. Hann hafði miklu meiri áhuga að létta af sannleikanum um hvað hann hafi verið þjófóttur og illgjarn í æsku fram til þessa dags. Þessu reiddist Rassopulus ógurlega og í reiðkastinu rekst hann óvart í sprautu doktor Krulla. Sannleikslyfið sprautast í hann og um leið er Rassopulos farinn að létta af sannleikanum um hvað hann hafi verið þjófóttur og illgjarn í æsku fram til þessa dags.

Á endanum voru þeir farnir að rífast um það hvor þeirra væri meiri illmenni, Rassopulos sem allt sitt líf hafði stundað skipulega glæpastarfssemi, eða Carridas sem var vel þekktur og virtur auðkýfingur. þarna er höfundurinn Hergé auðsjánanlega að benda á hve vafasamir auðkýfingar og hlutabréfabraskarar eru. Það má allveg jafna þá við glæpamenn. Eitthvað sem mark hefði mátt taka á og flagga með reglulegu millibili. En það væri nú magnað ef hægt væri að fá doktor Krulla til að sprauta sannleikslyf í stjórnmálamenn og stórbissinissmenn áður en þeir fara í viðtal í Silfri Egils hehe

   (4 af 18)  
9/12/08 03:00

hvurslags

Ein af bestu Tinnabókunum.

9/12/08 03:00

Jóakim Aðalönd

Algjörlega sammála höfundi og síðasta ræðumanni! Skál og prump!

9/12/08 03:00

Ívar Sívertsen

Algerlega sammála.

9/12/08 03:00

Galdrameistarinn

Skál.

9/12/08 03:00

Fíflagangur

Hef aldrei þolað titilinn. Hver fjandinn er "flugrás"?
Apakettir.

Hins vegar voru flottustu vélbyssur allra Tinnabóka í þessari.

9/12/08 03:01

Upprifinn

Vitleysa. bókin fjallar um það hversu heppnir glæpamenn geta verið.
Allt hitt sem þú segir er bara skrautumgjörð um geimverusöguna.[glottir eins og fífl.]

9/12/08 03:02

Huxi

Ágætis frélagsrit og vel læsilegt í flesta staði, og vel hægt að taka undir skoðanir höfundar og túlkun hans á umræddu ritverki. Stafsetning er alveg þokkaleg en þó stingur í augu að höfundur hefur einhverntímann verið bólusettur við þágufallssýki og er greinilega ekki búinn að ná jafnvægi í ónæmiskerfið.
Fíflagangur: Flugrás þýðir ekki apakettir...

9/12/08 04:01

Regína

Mér finnst ekki að bókin eigi að vera skyldulesning, mér finnst að hún eigi að vera val.

9/12/08 05:01

Skabbi skrumari

Jæja... þá er búið að kjafta frá söguþræðinum. TAKK.
<Strunsar út glottandi>

9/12/08 05:02

Lopi

Hvaðahvaða. Það er fullt eftir af sögunni eftir þennan umrædda atburð.

Lopi:
  • Fæðing hér: 26/12/03 17:27
  • Síðast á ferli: 17/3/24 01:02
  • Innlegg: 3973
Eðli:
Vermandi og stingandi
Fræðasvið:
Einangrunafræði og er hljóðkerfisfræðingur.
Æviágrip:
Ævi mín er orðin svo löng og þéttprjónuð að hún verður ekki rakin upp hér. Þó vil ég nefna að ég er ógæfumaður og alloft verið rúinn inn að skinni. En góða daga hef ég líka átt því ósjaldan hafa fagrar kvenmanshendur leikið um líkama minn.