— GESTAPÓ —
Tinni
Fastagestur.
Gagnrýni - 7/12/03
Síðbúin gagnrýni um Árshátíð

Sannleikskjarninn lengi lifi!

Jæja, ágætu Baggalýtingar! Hér langar mig til þess að kveða mér hljóðs um hið merkilega samkvæmi, Árshátíð Baggalútíu sem haldin var á laugardagskveldið 26.júní síðastliðinn. Mér finnst ágætt að rita slíka gagnrýni að ákveðnum tíma liðnum, því þá hefur eftirbragðið skilað sér nákvæmlega, auk þess sem forvitnilegt er að taka púlsinn á þróuninni á Baggalútíu í beinu framhaldi.

Undanfarna mánuði hefur Baggalútur verið hreint stórmerkilegt samfélag þar sem 20-30 manna hópur hefur ánetjast vefsvæðinu í allskyns umræðum, spurningaleikjum, kveðskap, gagnrýni, almennu bulli, leikþáttum og hlutverkaleikjum. Á þessum vettvangi hafa flestir náð kynnast ágætlega, án þess þó að hittast nokkurn tíma í eigin persónu, sem í sjálfu sér er alveg stórmerkilegt. Ísinn á bak við alterégóin var þó brotin með miklum glæsibrag um síðustu helgi, en meira um það hér rétt á eftir.

Líflegar umræður um árshátíðina hófust, að mig minnir, strax í febrúar síðastliðnum. Menn voru stórhuga og áhugasamir hvað þetta varðaði. Margar mergjaðar hugmyndir spunnust um skemmtiatriði, en þegar á hólminn var komið voru flestir sammála um að sú athöfn að hittast í eigin persónu væri í sjálfu sér aðal skemmtiatriðið.

Nokkrum vikum fyrir árshátíðina var skipuð þriggja manna undirbúningsnefnd en í henni voru auk mín þeir Hakuchi og Blástakkur. Þriðjudaginn 22. júní var blásið til hádegisverðarfundar í Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu en þangað mætti nefndin ásamt 3 meðlimum yfirstjórnar, þeim Enter, Núma og Kaktuzi. Þess ber að geta að hið fyrsta sem ég sagði við Hakuchi þegar ég hitti hann, varð náttúrulega að vera svolítið dramtískt og það var svo mikið sem: “Er þetta maðurinn sem er jafn hávaxinn og John Wayne?”(var reyndar að vitna í gamla dagbókarfærslu hans). Hakuchi kom náttúrlega fyrir sjónir sem öndvegismaður, sem ég vissi fyrir fram og félagi hans Blástakkur, einnig hinn viðkunnalegasti og minnir mig illyrmislega á kærasta vinkonu minnar, en það er önnur saga. Viðkynning við meðlimi yfirstjórnar var hin ánægjulegasta og að sjálfsögðu eru þeir allir ofursvalir með tölu.

Fundurinn í Alþjóðahúsinu átti að vera einskonar undirbúningsfundur þar sem nefndin mundi reifa sínar hugmyndir fyrir yfirstjórn. Nefndin var í raun mjög einróma að það væri kannski hálf misráðið að fara út í einhverja úrelta samkvæmisleiki eða dansýningar, því mesta orkan og skemmtunin færi náttúrlega í að taka úr sér hrollinn við að standa frammi fyrir stund sannleikans. Þar að auki tjáði yfirstjórnin okkur lauslega um vandaða dagskrá af þeirra hálfu, þannig að við svo búið var látið standa. Sjálfur bauðst ég reyndar til þess að setja saman einhvern skemmtilegan tónblending í anda Baggalútíu og var það þegið með þökkum. Ég vil reyndar reyndar nota þetta tækifæri og ítreka þakkir mínar fyrir það mikla traust sem mér var sýnt við að fá að taka sæti í undirbúningsnefnd þó svo að okkur hafi ekki orðið mikið úr verki, þannig lagað...

Jæja, já, og humm og já og gaman, gaman, loksins rann stund sannleikans upp hið margumrædda laugardagskvöld sem flaut bókstaflega í bjór, ákavíti, mögnuðum uppákomum, verðlaunaveitingum og jákvæðu bróður- og systraþeli manna í millum. Hér ætla ég ekki að koma með einhverja gagnrýni um klæðaburð notenda á árshátíðinni, enda finnst mér slíkt vera í hæsta máta ósmekklegt og til þess eins fallið að draga menn í dilka. Slíkir palladómar finnast mér mjög óviðeigandi á stundu sem þessari þar sem fólk er að hittast i fyrsta sinn, jafnvel þó svo að þeir eigi að flokkast sem grín. en það er sjálfsögðu bara mín skoðun.

Á hinn bóginn langar mig bara aðeins reifa hér aðeins stutta og ánægjulega viðkynningu af hverjum og einum. Ég verð reyndar að geta að sökum hressilegrar bjór- og ákavítisdrykku þetta kvöld, þá voru kynnin óneitanlega mismikil. Röðin er í stafrófsröð og sumsé ekki topp 10 listi yfir bestu persónuleikana.

Barbapabbi: Hann er eitt af höfuðskáldum Baggalútíu, en kveðskapardeild Baggalútíu þekki ég næstum aðeins af afspurn, enda er maður víst alræmdur bögubósi í þeim efnum. Náði því miður lítið að spjalla við Barbapabba nema þegar við rétt kíktum saman ásamt Vamban inn á 22, en þar tapaði ég Barbapabba í ölþoku....

Barbie: Kom fyrst auga á hana þegar verðlaunaveitingin stóð sem hæst og við það fór mitt litla hjarta að slá örar, án þess að ég fengi nokkuð við það ráðið. Hefði gjarnan viljað ræða meir við hana, en hún var af skiljanlegum ástæðum umkringd aðdáendum. Man þó að ég reyndi örstutt að komast að hjarta hennar með einhverskonar fjallabaksleið, en hún sá í gegnum svefnherbergisaugun með sinni röntgensjón...

Blástakkur: Sómapiltur sem ég hef þegar minnst á hér á öðrum stað að framan. Snillingur í FuBball.

Diotollevi: Sá honum rétt bregða fyrir en hann er góður vinur Hakuchi. Náði bara ekki að spjalla eiginlega neitt við hann. Samkvæmt innleggjum á spurningasíðum er Dio skarpgreindur og víðlesinn, sem er ekkert annað en hið besta mál. Við spjöllum vonandi betur saman bara í næsta samkvæmi.

Frelsishetjan: Að sjálfsögðu voru það miklir fagnaðarfundir og faðmlög þegar maður hitti sjálft lukkudýrið Frella Sprellara. Hann er held ég sá aðili sem hefur mátt þola hvað mestan fúkyrðaflaum og leiðindi frá mér, en eftir að Froggamálið kom upp þá var hann tekinn í sátt, en auðvitað hefur hann síðan þá verið stundum látinn skammarkrókinn svona eins og gengur á bestu heimilum. Frelli kom fyrir sem mjög hress og skemmtilegur drengur og er bara sláandi líkur Tinnalalterégói mínu, sem er náttúrlega bara skemmtileg tilviljun.

Hakuchi: Sá aðili sem ég hef haft hvað mest kynni af inni á Baggalútíu og greindi ég frá okkar fyrsta fundi hér að framan. Hakuchi er ókrýndur Konungur Baggalútíu og í senn skarpgreindur, bráðfyndinn og réttsýnn. Hann er algjör snillingur á þeim sviðum sem ég hef hvað mestan áhuga á þ.e. kvikmyndir og tónlist. Ég ætla ekki að búa til neina lofrullu um manninn, en vísa frekar í færslur t.d. inn á kvikmynda- og tónlistarþráðum.

Heillar: Er undir þá sök seldur líkt og Hóras (sjá fyrir neðan) að vera frekar nýlegur inn á Baggalút og hefur ekki haft sig mikið í frammi. Man þó að hann var í fylgd með Júlíu og föruneyti og í stutta stund hélt maður að hér væri sjálfur Þöngull kominn...

Herbjörn Hafralóns: Mikið ljúfmenni og líkt Vlad (sjá hér fyrir neðan) svona hófstilltur persónuleiki. Ég tjáði honum að ég saknaði hins virðulega alteregós með Hannesi Hafstein, en þó er Teddy Roosevelt ekkert síðri (er þetta ekki örugglega hann?). Herbjörn Hafralóns er eiginlega eitt flottasta og virðulegasta nafnið inn á Baggalút.

Hilmar Harðjaxl: Án efa einn allra óvæntasti gestur kvöldisins. 15 ára gutti (hugsanlega að vestan) sem minnti illyrmislega á sjálfan Harry Potter og gekk, af skiljanlegum ástæðum, um með gosdrykk í glasi og sigraði held ég bara alla með einlægni sinni. Það hefur runnið upp fyrir mér eftirá að miðað við aldur er Hilmar náttúrlega ótrúlega vel að sér um ólíkustu málefni og stálminnugur í þokkabót.

Hóras: Mér þykir fyrir því Hóras, en þegar maður hittir marga á stuttum tíma þá eru alltaf einhverjir sem óverðskuldað þurfa að mæta afgangi, líkt og gerðist með Dio. Ég hef örugglega verið orðinn of drukkinn þegar ég hitti þig, en ég man þó að ég hitti þig, með fullri virðingu... Þú ert líka tiltölulega nýlegur inn á Baggalút, en kemur þó sterkur inn og þarf maður endilega að kynna sér betur framhaldssögu þína sem er nýhafinn...

Júlía: Drottningin sjálf var að sjálfsögðu glæsilegust af þeim öllum og þar sem hún stóð við hliðina á konungnum þá rann upp fyrir mér einhver fallegasti hjónasvipur sem ég hef augum litið. Öfugt við alla aðra þá fannst mér viðmót Júlíu í minn garð vera óvenju þurrt og ég hreinlega veit ekki hverju það sætir. Kannski má kenna þar um feimni sem er ekkert óeðlileg við þessar aðstæður. Í hina röndina hefur mig grunað ég fari almennt eitthvað í taugarnar á Júlíu inn á Baggalútíu. Stundum hafa tilraunir mínar til þess að taka þátt í umræðum með henni engar undirtektir fengið, sem og spurningar sem ég hef borið upp til hennar. Þær hafa bara virkað sem einhverskonar vindur í bakið á henni og það er barasta látið sem ekkert ávarp hafi verið borið upp til hennar. Slíkt viðmót kann ekki góðri lukku að stýra inn á annáluðu og samheldnu kærleiksheimili. Ég tek þó fram að ég er ekki langrækinn hvað þetta varðar og er sáttahöndin ávallt innan seilingar.

Mikill Hákon: Einhver óvæntasta afhjúpun kvöldisns. Ég hafði haldið að Hákon væri kominn a.m.k. yfir þrítugt en annað kom á daginn því á bak við kórónuna og sólgleraugunum var 18 ára piltur með mikinn persónuleika. Í fylgd með honum var hans gullfallega ektakvinna sem að sjálfsögðu var ekki kölluð annað en Dorrit. Hákon var einn af örfáum sem flutti skemmtilegt ávarp, algjörlega blaðlaust sem segir meir en mörg orð.

Mosa Frænka: Hrífandi og gullfallegur kvenmaður sem dreifði úr ókjörum af persónutöfrum. Hún á óslegið hraðamet í Bíófrasaqvizzíinu og fyrir það nýtur hún sérstakrar aðdáunar af minni hálfu Það kom mér rækilega á óvart að Mosa kemur svo sannarlega frá Fixlandi í Útlöndum og hefur búið hér á flæðiskerinu í aðeins tvö ár. Vald hennar á tungumálinu er hreint ótrúlegt eftir svo stuttan tíma.

Mús-Lí: Kemur líkt og Mosa úr vinahópi Júlíu og gefur þeim stöllum ekkert eftir í fegurð og glæsileik. Mús-Lí hefur lítið haft sig í frammi inn á Baggalútíu og tel ég það miður, því eftir stutt spjall okkar dreg ég þá ályktun að hún mætti gjarnan leyfa okkur hinum að njóta nálægðar hennar.

Nafni: Hann kom aðeins seint og náði ekki að setja upp nafnspjald, sem var miður. Okkur lenti eitthvað saman inn á einhverjum þræði fyrir löngu síðan og þegar við hittumst vildi hann fara gera upp einhverjar sakir, en sem betur fer varð “respect” sáttahöndin og náungakærleikurinn öllum hnefahöggum yfirsterkari áður en yfir lauk, að sjálfsögðu....

Órækja: Skemmtilegur og viðkunnalegur strákur sem minnir mann á einhvern gamlan leikfélaga úr æsku. Hann hefur mátt þola margar háðsglósurnar vegna “rottuskeggsins” á alterégóinu. Órækja varð síðan uppspretta magnaðra sögusagna um að hann hafi gleypt Baggalútsstein og öðlast töfrámátt fyrir vikið...

Rauðbjörn: Einn sá langflottasti, með eldrautt sítt hár og skegg og mætti vel við skál (að mig minnir) og deildi úr hressandi kærleika sínum og faðmlögum með öðrum. Hann hefði mátt mæta fyrr, því það er alltaf vöntum á karakterum eins og Rauðbirni.

Skabbi Skrumari: Af öllum öðrum ólöstuðum þá er Skabbi sá aðili innan Baggalútíu sem nýtur einstkrar virðingar í mínum huga. Hann er persónugervingur einlægninnar í sinni tærustu mynd. Einstakur friðarhöfðingi sem leysir allar deilur með því að bjóða fram ákavítistár og skála. Hann á það reyndar sammerkt með Órækju að minna einhvern gamlan leikfélaga eða skólabróður. Það segir kannski meir en mörg orð um Skabba að um tíma var óvíst hvort hann mundi almennt mæta en með samstilltum vonarbænum Baggalýtinga var komið í veg fyrir slíkt, enda varð ákavítissmökkun hans einn af hápunktum kvöldsins.

Vamban: Skemmtilegur og hress eins og hann er jafnan inn á Baggalútíu og virtist vera mikil félagsvera með gott “chemistry”. Kom reyndar á óvart að eftir allt hárkremsfjasið að maðurinn skyldi vera algjörlega hárfirrtur! Sterkur leikur! Vamban var reyndar ekkert í neinu sérstöku uppáhaldi þegar hann byrjaði að stunda Baggalútinn en hefur síðan þá vaxið gríðarlega í áliti enda er hann eldklár þegar kemur að kvikmyndum. Ég man að undir lok árshátíðarinnar ösluðum við Vamban og Barbapabbi inn á 22 og síðan er eiginlega allt svona frekar þokkukennt...

Vladimir Fuckov: Vlad er ljúfmannlegur, einstaklega kurteis og hófstilltur persónuleiki sem hefur haldið uppi nær útdauðri hefð þéringa í íslensku máli. Það má telja Vlad til tekna að hann er sá aðili innan Baggalútíu sem líkist hvað helst alteregói sínu. Vladimir hefur vakandi auga með með allskyns ómálefnamennsku sem á sér stað oft á tíðum inn á kærleiksheimilinu. Forseti vor er réttnefndur Samviska Baggalútíu...

Ef einhver hefur gleymst í þessari upptalningu þá má hann gjarnan gefa sig fram.

Niðurlagið í þessari gagnrýni átti að fjalla um þau áhrif sem árshátíðin hefur haft á Baggalútíu en slík umræða ætti barasta að hefja inn á sérstökum þræði inn á Baggalútíu...

Góða nótt og ég er næstum þvi farinn í hátinn...

   (4 af 8)  
Tinni:
  • Fæðing hér: 16/12/03 09:28
  • Síðast á ferli: 11/5/10 14:58
  • Innlegg: 208
Eðli:
Hnarreistur, heilsinn, heilsugóður og hreinskilinn.
Fræðasvið:
Einskisnýtar staðreyndir, Lifandi myndir, Saungur og hljóðfærasláttur, Möllersæfingar, Síömsk matargerð, sagnaþættir
Æviágrip:
Fæddur, alinn og skólaður á s-vesturhorni landsins. Búinn að vera hérna lengi og á nóg eftir.