— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 9/12/05
Vor maður Ljónharður

Margir eru ekki Leonard Cohen

Leónarður hefur verið mér kær frá blautu barnsbeini. Mamma komst eitt sinn yfir plötu með skáldjöfrinum þegar ég var smápolli. Framan á plötuumslaginu blasti við mér prúðbúinn og myndarlegur karlmaður. Í þá tíð suðaði sú fluga í höfði mínu að ég skyldi verða herramaður (það mistókst). Ég sá strax að þarna var kominn sannur herramaður og mig langaði undir eins að vera eins flottur og yfirvegaður og þessi elegant maður á myndinni. Þegar platan var spiluð rötuðu lögin beinustu leið inn í sálina þó ekki hafi ég skilið eitt einasta orð. Síðan hefur hann fylgt mér í gegnum ævina, í mismiklum mæli en nærvera hans hefur ágerst með aldrinum.

Því gladdist ég þegar ég sá heimildarmynd um snillinginn auglýsta á annarri hvorri kvikmyndahátíðinni sem er í fullum skrúða í höfuðbælinu þessa stundina. Myndin er ágæt. Hennar helsti galli er þó að hún einbeitir sér ekki nóg að Leónarði. Margir virtir og góðir tónlistamenn eru fengnir til að túlka lög Cohens. Allt er það gott og blessað en fæstir búa yfir getu til að bæta við það sem laglausa ljóðskáldið hefur kallað fram. Það var einna helst Rufus nokkur Wainright og furðufyrirbærið Anthony sem náðu að kreista út eitthvað spennandi. Inn á milli var svo skeitt viðtölum þar sem listamennirnir hrúguðu óendanlegu lofi yfir Cohen. Lengst yfirgengilegheitum náði velgjan Bono sem líkti honum við nokkurn veginn alla hæstu tinda í sögu mannsandans. Þessir bútar úr myndinni eru óþarfir því allir vita að Leónarður er snillingur.

Eftir stóðu viðtalsbútar við mannin sjálfan. Það eru gullmolar. Þarna var hann, gamall, djúpvitur, vinalegur. Miðað við lofsöldurnar sem á honum hafa dunið verður að teljast afrek hversu laus hann er við belging og sjálfhverfu, jafnvel mont í líki falskrar hógværðar sem oft læsir klónum í afburðafólk. Ekkert slíkt, máski er það zenið sem hann hefur stundað eða góðar kennslustundir í sýnagógu í æsku. Hvur veit. Maðurinn sem birtist á hvíta tjaldinu var þægilegur karl, með góðan húmor fyrir sjálfum sér og lífsins þeater. Glæpur myndarinnar er að hafa sparað spjallið. Maður vildi ekki hætta að hlýða á hrjúfa röddina tala í rólegheitum um allt og ekkert.

Ef Leonard hefði fengið að tala hverja einustu sekúndu út alla myndina þá hefði þessi heimildamynd fengið fimm stjörnur. Leonard er fullt hús stiga.

   (7 af 60)  
9/12/05 06:00

Vestfirðingur

I was born under a Wandering Star.... Leónarður hljómar eins og Celine Dion útgáfan af Lee Marvin og Tom Waits. Michael Bolton og Sandra Kim er draumadúettinn minn.

9/12/05 06:00

blóðugt

Cohen er snillingur. Ég heyrði Bono syngja Cohen lag í útvarpinu, svei mér þá ef karlinn var ekki með honum líka, en Bono ræður ekki vitund við svona meistaraverk. Alveg gæti ég samt trúað því að Antony hafi verið góður.

Fín gagnrýni, takk.

9/12/05 06:00

krumpa

Greinilega mynd sem maður þarf að sjá, bónó er ofmetinn (mætti alvega syngja mig í svefn samt) og ætti að halda sig við U2lög - Cohen á bara að syngja Cohen.

9/12/05 06:00

Númi

Cohen er ofmetinn listarúnker - auk þess sem það vantar í hann allt köntrí.

9/12/05 06:00

Hakuchi

Það var gerður heill sígildur westri utan um lög Cohens á sínum tíma.

Ef það er ekki nógu köntrí fyrir þig þá getur þú bara troðið kreisí banjóinu upp í úkúleleið á þér.

9/12/05 06:01

Jóakim Aðalönd

Ekki þekki ég þennan Cóna, en mér virðist að hér sé afbragðs séntilmaður á ferðinni og væri ekki úr vegi að stela nokkrum lögum með honum.

9/12/05 06:01

Númi

Það er nú sitt hvað westri og köntrí.

9/12/05 06:01

Ugla

Anthony (úr Anthony and the Johnsons) finnst mér persónulega flottasti söngvari allra tíma.
En fín grein!

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.