— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 3/12/05
Cézanne 4 - Pissarro 9

Óvænt burst í París

Fyrir nokkru var ég staddur fáeina daga í París að undirbúa stúdentaóeirðir til að grafa undan ráðstjórn Franka. Að loknum erindisrekstri átti ég nokkra tíma aflögu fyrir brottför og ákvað að skreppa á besta safn í heimi, Musée D'Orsay. Safnið sérhæfir sig í 19. aldar list og er þar margblessaður impressjónisminn settur á háan stall.

Er ég rölti á safnið hafði forsjónin hagað því svo til að í boði var sérsýning á verkum Cézannes og Pissarró, sem voru á kafi í impressjónisma á sínum tíma. Þegar ég kom inn á afgyrt svæði sýningarinnar mætti mér álíka mannmergð og á forsýningardegi á ömurlegri Hollywoodmynd í Reykjavík, sem segir margt um menningargjána á milli þjóðanna. Það var vart þverfótað fyrir fólki, mest Frakkar og nokkrir Kanar.

Sýningin er sérstök að því leytinu til að þetta er samanburðarsýning. Pissarro og Cézanne voru góðir vinir og unnu nokkuð saman, sérstaklega yngri árum. Þeir áttu það til að setja upp trönur sínar hlið við hlið og mála sama landslagið. Oft máluðu þeir í anda hvors annars, gerðu það að eins konar leik sín á milli út ævinna, sem einkenndist af gagnvkæmri virðingu. Málverk þeirra, sem eru eins eða af svipuðum toga, eru því sýnd hlið við hlið.

Af þeim sökum var tilvalið að sjá hver hafði vinninginn í þessari miklu keppni. Af því litla sem ég hafði áður kynnt mér af verkum þessarra manna var ég fyrirfram hrifnari af verkum Cézanne. Mér hafði þótt Pissarro vera full myrkur og tilbreytingarlaus af því sem ég hafði séð.

Keppnin hófst strax við upphaf listamannsferils beggja. Þá bjuggu þeir saman og skiptust mikið á hugmyndum í sínum verkum og oft máluðu þeir sama landslagið. Útkoman úr þessu tímabili var hnífjöfn.

Við upphaf annars hluta var allt í járnum. Ég var orðinn sannfærður um að þetta yrði æsispennandi keppni og ýtti spenntur frá mér kanatúristum og fínum loðpelsuðum, skólpilmuðum frönskum dömum til að fá betri sýn á kapphlaupið mikla. Í seinni hlutanum fataðist Cézanne flugið. Pissarro bætti sig umtalsvert og voru verk hans iðulega með vinninginn, þó Cézanne hafi komið með nokkra góða spretti inn á milli.

Í lokahluta voru yfirburðir Pissarro innsiglaðir. Verk Cézannes voru máttlaus við hliðina á töfrahlöðnum verkum Pissrós.

Niðurstaðan var því óvænt og afgerandi 4-9 fyrir Pissarró og það þrátt fyrir að Cézanne hafi verið á heimavelli í mínum huga.

Þetta olli mér vangaveltum. Hafði ég ofmetið Cézanne? Ég tók eftir að strax á öðru tímabilinu voru málverk Pissarros yfirleitt máluð nokkuð síðar en málverk Cézannes. Þetta þýðir að í flestum tilfellum hafði Pissarro líklega séð hvað Cézanne var að gera og haft tækifæri til að 'bæta' á verk Cézanne. Annað sem ég hjó eftir var að flest samanburðarverkin voru landslagsmálverk. Vera má að Pissarro hafi vinninginn þegar kemur að landslagi sem slíku hins vegar málar enginn lítil sveitaþorp eins og Cézanne. Sveitaþorp hr. C eru svo yndisleg að mann langar samstundis að stíga inn í heim verksins, ganga í bæinn, setjast í ruggustól fyrir framan dyrnar á einhverju húsi, troða í pípu og slappa af í draumkenndri sveitaþorpssælunni alla sína tíð. Það verður ekki tekið af Cézanne gamla.

Góðar stundir.

   (9 af 60)  
3/12/05 20:00

Isak Dinesen

Gott rit.

3/12/05 20:00

Heiðglyrnir

Frábærar hugrenningar og konungur okkar er samkvæmur sjálfum sér hvað varðar afburða stíl og uppbyggingu ritverksins. Hafðu þökk fyrir. [Gerir stutta en snarpa sverðkötu til heiðurs konungi]

3/12/05 20:00

Jóakim Aðalönd

Mig langar bara beint til Parísar eftir lesturinn. Takk fyrir Haki!

3/12/05 20:00

Stelpið

Án efa eitt menningarlegasta félagsrit sem ég hef lesið.
Hafðu þökk fyrir.

3/12/05 20:00

Vestfirðingur

Ég man nú einna best eftir byggingunni, þetta er gömul og grand járnbrautarstöð. Mikið af skúlptúr, Rodin áberandi. Cezanné var kannski framsæknari, það er ekki erfitt að sjá viss síðari verk hans endurspeglast í kúbismanum. Pissaro ersamt einhvern veginn mýkri og áþreifanlegri og þar með aðgengilegri en Cezanné. Sjálfur hef ég alltaf verið veikari fyrir Seurat.

3/12/05 20:00

Krókur

Gaman að lesa þetta. Impressjónismi er auðvitað líka mjög skemmtileg stefna og mörg falleg málverkin.

3/12/05 20:01

Þarfagreinir

Ég hélt að Pissarro væri gaurinn sem slátraði Inkunum. Nú er ég alveg ruglaður.

[Klórar sér í hausnum og fiskar út lýs]

3/12/05 20:01

Isak Dinesen

[Með syngjandi þýzkum hreim, sem gefur í skyn örgustu tvíkynhneigð]

Slátraði þeim já ... með of miklum dökkgrænum lit og alltof litlum lillabláum.

[Leggur vinstri hönd við mjöðm og ýtir mjöðminni á móti. Sveiflar höfðinu í öfuga átt. Hlær hneggjandi, tilgerðarlegum hlátri.]

3/12/05 20:01

feministi

Gott rit og vandað. Það mætti halda að Júlía hafi skrifað þetta.

3/12/05 20:01

Skabbi skrumari

Afar vandað og skemmtilegt rit, fékk mig til að vilja vita meira og fann ég bók á Amazon um verk þeirra félaga... hugsanlega læt ég verða af því að kaupa hana... Skál.

3/12/05 20:01

Kondensatorinn

Það væri gott að hafa ruggustóla á svona söfnum.

3/12/05 20:01

Hakuchi

Orð í tíma töluð Kondensator. Ég saknaði ógurlega að hafa ekki hægindastól fyrir framan hvert einasta málverk í Van Gogh sýningarsalnum.

Vestfirðingur: Sannarlega er safnið sjálft hluti af upplifuninni. Stórkostlega vel heppnuð endurgerð á stórri lestarstöð. Svo er frábært útsýni yfir Píslavottahaug (montmarte), en þar gnæfir yfir öllu hin ægifagra Sakkre Kör kirkja (fáfróðir ættu að kannast við kirkjuna og hverfið úr Amelie).

Það stórkostlega við safnið er fallegur arkítektúr, vel afmarkað tímabil sem vill til að er einstaklega skemmtilegt í listasögunni og svo er stærð þess ekki yfirþyrmandi, svona eins og Lúvr sem er svo heljarstórt að það verður að gera ferðaáætlun áður en maður sækir það heim. Orsay er nett og góð upplifun.

3/12/05 21:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

[Setur upp impressjóngleraugun, setur Eric Satie á fóninn. Dæsir makindalega & hallar sér afturábak í djúpum hægindastól]

3/12/05 21:00

krumpa

MÉR LEIÐIST PARÍS

Elska samt listasýningar. Og þessi hljómar hreint út sagt frábærlega.
Mikil krísa semsagt.

3/12/05 21:02

Hakuchi

Leiðist París? Iss, þú hefur bara ekki dvalið á réttum stað. Þriðja og fjórða hverfi eru heillandi og róleg (þar sem hommar og strangtrúaðir gyðingar setja sitt mark), píslarvottahæð (Montmartre) er líka skemmtilegt. Þetta eru fín hverfi til að halda sig yfir fríið, þar er hægt að dunda sér mikið og síðan nota það sem bækistöð fyrir frekari leiðangra um þessa miklu stórborg.

3/12/05 23:01

krumpa

Eftir að hafa farið til Rómar er París bara hjómið eitt. Heittelskaður er ekki sammála og því fer hann í frí til Parísar og ég til Rómar! Annars væri París væntanlega fín ef ekki væru íbúarnir...

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.