— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 6/12/04
Látúnsbarkinn Bolton

Loksins, loksins...

Kæru lesendur,

Í sumar mun Ísland ganga í lið siðaðra menningarþjóða. Hingað til hefur skerið óneitanlega verið helber útnári á mörkum hins byggilega og hafa boðberar alvöru menningar skiljanlega hunsað þennan frosna útikamar Evrópu.

Hingað hafa slæpst einstaka ræflar á lágtindi ferils síns. Í sumar mátti þjóðin ‘hlakka’ til að hlýða á hæfileikalausar, miðaldra, fyrrverandi táningastjörnur með bjórvömb sem voru á ‘hátindi’ ferils síns á versta niðurlægingarskeiði vestrænnar tónlistar, útúrdópaðan, tónlistarsnauðan rappslána sem heldur fyrir misskilning að hann sé melludólgur og virðist vera stoltur af því, háaldraða breska þungarokklingaglymskratta hvers metnaður í tónlist miðast við að hala inn nógu fé til að stækka sundlaugina heima og auðvitað hljómsveit sem eru svo herfileg að hún hefur ekki meikað það í næstum þrjá áratugi og afsakar sig með því að kalla sig leiðandi ‘neðanjarðarhljómsveit.’ Hvern eru þeir að blekkja?

Ofangreindir trúðar væru nóg til að sannfæra hvern sæmilega siðfágaðan mann til að flytja af þessu eymdarskeri, rakleiðis til heimsborga jarðarinnar. En bíðið hæg! Nú hafa borist stórtíðindi. Loksins kemur til landsins tónlistarjöfur sem mun setja þetta land á kortið yfir eftirtektarverð menningarríki. Loksins heiðrar okkur með nærveru sinni, risi á sviði tónlistar. Þetta er viðburður sem markar tímamót í sögu landsins. Ísland mun loks stíga út úr menningarlegum útnárakuldanum þegar söngfuglinn Michael Bolton mun syngja fyrir óverðuga Íslendinga í sumar.

Michael Bolton er einn fremsti tónlistarmaður síðustu áratuga. Hann hefur allt til brunns að bera. Ótrúlega sönghæfileika, lagsmíðagáfu sem á sér engan líka, útlit grísks goðs og karlmennsku sem enginn eðlilegur maður getur náð en getur látið sig dreyma um að ná. Hver man ekki eftir ólgandi smellum eins og Time, Love and Tenderness? Hver grét ekki úr sér heilu stöðuvötnin við að hlusta á hjartnæma lífsbaráttusönginn When I’m Back on My Feet Again? List Boltons hefur ávallt verið einlæg út í gegn. Hann hefur ekki fallið fyrir tælandi aðdráttarafli peningavaldsins og þess miðjuhórdóms og andlegu örkuml sem slíkar leiðir geta af sér. Nei, Bolton skilar ávallt sínu. Grípandi lagsmíðar og texti sem leiftrar af sér djúpri speki sem risar eins og Goethe og Yeats hefðu einungis látið sig dreyma um. Ekki má gleyma Röddinni. Þessi magnaða ofurrödd sem lætur engan ósnortinn. Enginn hefur eins næma tilfinningu fyrir harmóníu tónlistar eins og Bolton, hann notar blæbrigði raddarinnar til að túlka lög af svo mikilli næmni og innsæi að hann slær út stjörnur aldanna eins og lamaðar húsflugur. Callas, Sinatra, Caruso...amatörar. Takið til dæmis eftir stórkostlegum flutningi hans á hinni sígildu ballöðu When a Man Loves a Woman. Hann syngur Percy Sledge beint í skammarkrókinn.

Koma Michaels Bolton markar tímamót í menningarsögu landsins. Ég hef þegar hafið undirbúning þess að sitja í margar vikur fyrir utan miðasölur. Ekkert mun hindra að ég fái miða. Ekkert!

Ég hvet ykkur sem af einhverjum ótrúlegum ástæðum kannist ekki við list Michael Bolton að kynna ykkur verk hans undir eins. Hafið í huga að eftir árhundruð verða flestir tónlistarmenn sem þið þekkið löngu gleymdir. Það eitt sem er víst í þessum efnum er að þrjú nöfn munu enn vera þekkt og dáð af öllum: Beethoven...Bach...Bolton.

Góðar stundir.

   (23 af 60)  
6/12/04 02:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Var ekki hann búinn að klippa sig?

6/12/04 02:02

Hexia de Trix

Þú gleymdir hinum ódauðlega smelli How Am I Supposed To Live Without You. Að ekki sé talað um aríuplötuna sem hann sendi frá sér [Fær hroll]

6/12/04 02:02

Nornin

Michael Bolton? Vá... ég vonaði að heimurinn hefði gleymt honum og Curtis Stiger... úff.

6/12/04 02:02

Hexia de Trix

Ég var allavega búin að gleyma honum þangað til Ívar fór að tala um væntanlega heimsókn Boltons. En Curtis Stiger, ég hlýt að vera afar lánsöm norn að hafa aldrei heyrt um hann. [Andar léttar]

6/12/04 02:02

Goggurinn

Hver getur gleymt Michael Bolton eftir Office Space... hef reyndar nánast ekkert hlustað á hann...

6/12/04 02:02

Isak Dinesen

Ég man nú eftir tónlistarmanninum þegar hann var frægur. Hakuchi á hrós skilið fyrir að draga athygli okkar að þessum ómótstæðilega snilling og sjarmör.

6/12/04 03:00

Ugla

Leiftrandi húmor, teskeið af geðveiki og sjúkleg fyrirlitning og háð í bland. Ég gef þér 10,00 fyrir þetta!

6/12/04 03:01

Hakuchi

Ég þakka.

6/12/04 03:01

Vladimir Fuckov

Vjer verðum að játa á oss töluverða fáfræði um Michael Bolton. Hinsvegar var fyrri hluti þessa pistlings einhver frábærasta lýsing á ömurlegri tónlist og hljómsveitum sem vjer höfum lesið [Liggur í hláturskasti].

6/12/04 03:01

Lómagnúpur

Ja hérna! Þetta verða að teljast stórtíðindi. Ég þarf að kalla saman mína menn í einum grænum, svona löguðu má enginn missa af. First Bobby, svo Michael!

6/12/04 03:01

Júlía

Enn og aftur sannast smekkvísi þín og víðsýni, kæri konungur. Ég hlakka til að hitta þig á tónleikunum!

6/12/04 03:01

Vestfirðingur

Það fellur tár á mína hvarma þegar ég heyri nefmæltan Barry Manilow syngja Copacabana, ...she was a showgirl...

5/12/06 20:02

Carrie

Ó, ef herra Bolton aðeins kæmi aftur til okkar á skerið. Ég stæði aftur fremst.
[Dæsir mæðulega og lítur út um gluggann]

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.