— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 6/12/04
Stjörnustríð - Litið yfir farinn veg

Hjartnæm saga um baráttu fatlaðs öryrkja gegn öflum hræsninnar.

Ég fór á síðustu stjörnustríðsmyndina í gær. Þetta eru viss tímamót í mínum huga því þarna er verið að setja lokapunktinn í ævintýri sem skipaði stóran sess í æsku minni. Myndabálkurinn hefur glatt og glætt ímyndunarafl margra af minni kynslóð. Það hefði verið heldur leiðinlegra að alast upp á hinum arfaslappa 9. áratug án Hans Óla, Geimgengilsins, Helstirnisins og auðvitað Svarthöfða. Þessar myndir og heimurinn sem þar var skapaður var eina skjólið gegn skelfilegri tískunni og enn verri tónlistinni á þeim tíma.

Nú eru sem sagt öll púsl sögunnar loksins komin saman í eina heildarmynd og því gott að átta sig á sögunni í allri sinni dýrð.

Sagan í heild sinni er tragedía af bestu sort. Hún sýnir hetjulega, en vonlausa, baráttu hins góða gegn hinu illa. Sagan spannar æviskeið manns, Anakins Geimgengils, sem elst upp í hringiðu spillingar og ráðaleysis, meðal varðhunda rotnandi sýndarlýðveldis himingeimsins. Anakin vaknar til vitundar um ástandið og ákveður að berjast, ásamt öldruðum og göfugum stjórnspekingi, Palpatín kanslara, gegn kúgun óreiðunnar. Fyrir það geldur Anakin næstum því með lífi sínu. Hann lifir af en verður afar fatlaður, rétt eins og Palpatín, sem afmyndast af ellihrumleika eftir atlögur hinna hillu varðhundaværingja Valdsins (e. Jedi).

Sagan sýnir hvernig samvinna veikburða ellilífeyrisþega og mjög fatlaðs öryrkja nær að leggja af spillta stjórnarhætti og skapa nýtt og betra keisaraveldi sem tryggir öryggi og frið um alla geima. Samstaða lítilmagnans getur því sannarlega sigrað hina sterkari, en þar með er ekki öll sagan sögð. Þrátt fyrir þessa sigra Palpatíns gamla, sem verður Keisari hins nýja ríkis, og Anakins, sem nefnist Svarthöfði eftir að hann varð fatlaður (skýrður eftir stoðtækjabúning hans) gefast öfl spillingarinnar ekki upp.

Fjölskylduharmleikurinn magnast upp þegar börn Svarthöfða alast upp meðal hippa og uppreisnarræfla og hefja fólskulega baráttu gegn friðaröflum Keisaraveldisins í himingeimnum. Svarthöfði stendur frammi fyrir vali milli barna sinna, sem hann hefur aldrei fengið að hitta (þökk sé svikum væringja nokkurs) eða lög og reglu í himingeimnum. Svarthöfði reynir allt hvað hann getur til að sannfæra son sinn um villu síns vegar en hann þrjóskast í sjálfhverfri réttlætissannfæringu sinni.

Harmleikurinn nær hápunkti þegar Svarthöfði stendur frammi fyrir því að bjarga lífi sonar síns eða tortíma keisaveldinu og þar af leiðandi friði í himingeimnum. Illa farinn á sál og ringlaður eftir endalausa röð áfalla frá æsku sinni, tekur hann ranga ákvörðun. Þrá hans eftir velþóknun barna sinna og þar með eflaust einhvers konar endurbót fyrir kaldan skilnað hans við heittelskaða barnsmóður sína, sem dó áður en þau náðu sáttum, ná tökum yfir honum. Hann fórnar hagsmunum heildarinnar fyrir sína eigin, fetar villustigu eigingirninnar og drepur velgjörðarmann sinn, keisarann. Fyrir svikin geldur hann með lífi sínu, örendur á sál og líkama. Sigur hinnar fölsku, kaldhæðnu óreiðuspillingar er tryggður.

Göfug móstpyrna réttláts manns dugar því skammt því eins og máltækið segir: Resistance is futile.

   (24 af 60)  
6/12/04 01:01

Gunnar H. Mundason

(Eða eins og Vogonarnir segja það Resistance is useless.) Þetta er mjög góður punktur hjá þér. Ég hef aldrei horft á söguna frá þessu sjónarhorni.

6/12/04 01:01

Vladimir Fuckov

Mjög athyglisvert sjónarhorn á sögu þessa og skyldulesning fyrir æðstu valdhafa í Baggalútíu. Því það sem þarna gerðist er sannarlega víti til varnaðar [Heldur áfram tilraunum með gjöreyðingarvopn til að halda niðri andófi óvina baggalútíska heimsveldisins].

6/12/04 01:01

Hóras

Þú last hugsanagang minn þarna. Vildi koma þessu niður í félagsriti en ég efast um að ég hefði getað gert þessu eins góð skil og þú. Þarna kemur sér vel að þekkja Blástakk er þa ekki?

6/12/04 01:01

Hakuchi

Blástakkur var hjartahreinn og saklaus piltungur áður en hann kynntist mér.

6/12/04 01:01

Vestfirðingur

Hefur Svarthöfði einhvern tíma tekið af sér grímuna? Lítur hann út eins og Fílamaðurinn? Röddin er eins og símsvarinn hjá Annþóri.

6/12/04 01:01

Hakuchi

Jú hann tók af sér grímuna í sjötta þætti. Hann var all ófrýnilegur.

6/12/04 01:01

Goggurinn

Bæði ég og Blástakkur höfum tekið Vaderhjálminn af... með mismunandi afleiðingum þó.

Hef aldrei horft á myndirnar frá þessu sjónarhorni, frábært framtak.

6/12/04 01:01

Goggurinn

Hvaða vitleysa Hakuchi, hann var súberdúberübersætur...

6/12/04 01:01

Hakuchi

Fegurðin er í augum glápandans býst ég við.

6/12/04 01:02

Rasspabbi

Öndvegis félagsrit verð ég að segja.

Ég hef aldrei litið á söguna frá þessu sjónarhorni. Mér þykir konungur vor færa skýrari sýn á þessar annars ágætu kvikmyndir.

6/12/04 02:00

Hildisþorsti

Er enn í boði að niðurhala „Hollydays edission“ af Star Wars á Baggalúti?

6/12/04 02:01

Texi Everto

Það er þó enn ekki víst hvað gerist í 7. - 9. þætti. Hvur veit nema Logi og Lilja stjórni heimsveldinu með stálhnefa byltingarinnar! (Það eru alltaf tveir Sith og venjan er að sá sem drepur Sith master verði hinn nýi Sith master)

6/12/04 02:01

Goggurinn

Já Hildisþorsti, það er enn hægt. Félagsrit hjá SlipknontFan 13 minnir mig. Vara þig þó við að horfa á þann andskota...

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.