— GESTAPÓ —
Félagsrit:
Haraldur Austmann
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 1/11/03
Um kveðskap

Þrátt fyrir að hafa gagnrýnt það að verið sé að gagnrýna kveðskap annarra á þessum þráðum, get ég ekki stillt mig um að skrifa dulitlar leiðbeiningar um kveðskap. Ég er þess þó ekki umkominn því ég kann svo lítið sjálfur og því eru þessar leiðbeiningar hugsaðar fyrir skemur komna iðkendur þessarar fornu íþróttar.

Flestir sem hér leggja orð í belg, hafa náð þokkalegum tökum á stuðlasetningu þótt oft hætti okkur til að ofstuðla. Hinsvegar hef ég komið auga á einn galla á ljóðum hér á bæ en það er skortur á hrynjanda (kann ekki að beygja þetta bölvaða orð svo þið skammið mig þá bara fyrir það). Rétt kveðin ferskeytla og ýmis afbrigði hennar eiga að passa við lagið sem oftast er sungið við kvæðið „Kristín segir tíðindi (Fljúga hvítu fiðrildin)“ og því gott að raula nýkveðna vísu með því lagi til mátunar. Passi hún ekki nákvæmlega við lagið, er hrynjandinn ekki réttur.

Að lokum hef ég komið mér upp kenningu um ljóðið „Afi minn og amma mín“ sem gjarnan er sungið við sama lag og fiðrildakvæðið en eins og við förum með það, er það ofstuðlað í annarri línu og vanstuðlað í þeirri fjórðu.

Afi minn og amma mín
úti á Bakka búa.
Þau eru bæði sæt og fín
þangað vil ég fljúga.

Ef maður bregður fyrir sig smámæli, en það er algengt hjá lítt talandi börnum og fólki með ekkasogum, verða tvær síðustu línurnar svona:

Þau eðu bæði þæt og fín
þangað vil ég fljúga.

Að vísu verður þarna ferleg ofstuðlun (fyrir eyrað en ekki augað) en who cares? Hvað fyrri línurnar tvær varðar, verða þær stuðlaðar með andláti gömlu hjónanna en við þann sorglega atburð verða þær svona:

Afi minn og amma mín
upp á himnum búa.

Þess vegna er kenning mín svona: Í fyrstu tveimur hendingunum er einhver að yrkja til afa og ömmu sem eru nýfarin til himna en þegar kemur að þeim seinni, hefur viðkomandi brostið í grát og gerst smámæltur. Því er vísan rétt svona:

Afi minn og amma mín
upp á himnum búa.
Þau eðu bæði þæt og fín
þangað vil ég fljúga.

Góðar stundir.

   (122 af 164)  
1/11/03 03:02

Skabbi skrumari

Þetta er þrælmerkilegt, ég sé ekkert athugavert við þessa kenningu... Skál

1/11/03 03:02

Barbapabbi

Heyrðu! þetta er nú alveg frábær umbreyting á kvæðinu. Ekki einungis verður það nú rétt kveðið heldur líka mun dýpra, fagurt og tregablandið. Smámælgin (þmámælgin) ljær því líka sérlega næman tón... þetta var snjall hjá þér félagi.

1/11/03 03:02

Barbapabbi

Heyrðu! þetta er nú alveg frábær umbreyting á kvæðinu. Ekki einungis verður það nú rétt kveðið heldur líka mun dýpra, fagurt og tregablandið. Smámælgin (þmámælgin) ljær því líka sérlega næman tón... þetta var snjall hjá þér félagi. Hmm ætli þessi Bakki sé kannski grafarbakkinn?!

1/11/03 03:02

Haraldur Austmann

Takk fyrir félagar og skál! Bermúda skál! Nei, segi bara sona...

1/11/03 03:02

Hildisþorsti

Ég held að þarna sé komin hin sanna merking þessarar ferskeytlu. Þarna er líka fræðimennska sem fleiri mættu temja sér. Skál!

1/11/03 03:02

Frelsishetjan

Jahá! þetta er sko grein í félagsritið.

1/11/03 03:02

Vladimir Fuckov

Þetta er stórmerkilegt. Og nýja útgáfan er miklu betri. Þess má geta að á vefnum rákumst vér á útgáfu er inniheldur "þau eru bæði þæg og fín" í 3. línu.

Afi minn og amma mín
eru dýpri en sýnist
Stuðlasetning flott og fín
í framburðinum týnist

1/11/03 03:02

Þamban

Afi minn og amma mín
álpast útá túni
Skalltu eigi skammast þín
þó skítfull bæði múni

1/11/03 04:00

Jóakim Aðalönd

Mig minnir að upphaflega hafi vísan hljóðað svo:
Afi minn og amma mín,
úti á Bakka búa.
Þau eru bæði þekk og fín,
þangað vil ég fljúga

1/11/03 04:01

bauv

Afi minn og amma mín
eru af þér komin.
Enda eru þau þekkt og fín
þangað er langt að fljúgja.

1/11/03 04:01

Vímus

Frábær pæling og skemmtileg tilviljun. Ég nota gjarna þessa aðferð með hrynjandann og var í gær að fara yfir stóran hluta kvæða hér á vefnum og sá að þessi aðferð er óbrigðul hvað ferskeytlurnar varðar.
Svo lengi lærir sem lifir.

1/11/03 04:01

Vímus

Eða var það: Lærir svo lengi sem lifir?

1/11/03 04:01

voff

Afi hann er oná brauð.
Amma er í kæfu.
Sleikjum ís og sykurfrauð
slíkt mun auka gæfu.

Haraldur Austmann:
  • Fæðing hér: 17/11/03 23:10
  • Síðast á ferli: 8/9/11 18:56
  • Innlegg: 504