— GESTAPÓ —
Forseti
Nýgræðingur með  ritstíflu.
Pistlingur - 2/12/04
Áminning úr lagasafni.

Ritað með það fyrir augum að svala óþrjótandi áhuga almennings á stjórnsýslu.

Eftirfarandi klausu má finna í Lagasafni, útgáfu 130b:

Opið bréf (frá kansellíinu) um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum.
1811 8. júní.

„Í opnu bréfi 28. september 1767, fyrir Kaupmannahöfn, er ákveðið: að fundnir munir skulu geymdir á skrifstofu lögreglustjóra, og skuli þar bókað, hver fundið hafi hvern hlut og hvar, og það auglýst í blaði og með uppfestri skrifaðri auglýsingu; að þegar eigandinn gefur sig fram og fær hið fundna afhent á skrifstofu lögreglustjóra, skuli hann greiða dálitla þóknun í fundarlaun, eftir verði hlutarins, atvikum og úrskurði lögreglustjóra og auk þess kostnað við birtingu í blaði; og loks að, ef eigandinn kemur eigi innan árs og dags, skuli selja hið fundna handa lögreglusjóðnum, og finnandi þá fá þriðjung þess í fundarlaun. En með allrahæstum úrskurði, 5. júní síðastl., hefir Hans Hátign allramildilegast ákveðið, að fyrirmælin í ofannefndu opnu bréfi, 28. september 1767, skulu eftirleiðis einnig ná til allra annarra kaupstaða í báðum ríkjunum, þó svo, að í þeim kaupstöðum, þar sem engin blöð koma út, skal hinum fundnu munum lýst með uppfestum auglýsingum og bumbuslætti.“

Tilvitnun lýkur.

Að mínu viti hefur misbrestur verið á að þessum lögum sé fram fylgt, um langt skeið. Sérstaklega svíkjast menn um uppfestingarnar og bumbusláttinn. Vonandi verða þessi skrif til þess að almenningur taki sig á í þessum efnum og fari framvegis að lögum.

   (2 af 2)  
2/12/04 23:01

krumpa

Ehemm - smá leiðrétting. Þessi merku - og praktísku lög - tilheyra ekki stjórnsýslunni heldur eru þau aðlaðandi meiður af því töfrandi fagi sem eignarétturinn er...Smámunasemi-en hafa skal það er sannara reynist. Veit auk þess ekki annað en þetta sé nokkuð "common knowledge." Ráðlegg þér að kynna þér rekabálk Jónsbókar - þar eru einnig margar spennandi og skemmtilegar lagagreinar.

2/12/04 23:01

Sundlaugur Vatne

Já, vissulega hefur orðið misbrestur á þessu hér í höfuðborginni. En á Ýsufirði hefur þessi verið vel framfylgt, ekki sízt meðan kand.fíl. Engilbjartur Sóldal sinnti þar lögreglustörfum.

2/12/04 23:01

Þarfagreinir

En hér í Reykjavíkur kaupstað koma reglulega út blöð. Ég hefi því eigi talið mig skuldbundinn til að lýsa þeim munum er ég hefi fundið í gegnum tíðina með öðrum hætti en að birta tilkynningu í blöð.

2/12/04 23:01

Fíflagangur

Ehemm - smá leiðrétting. Það er reyndar rétt hjá Krumpu að tilvitnað Opið bréf frá 28. september 1767 verður að teljast að meginefni vera á fræðasviði eignaréttarins.
Bréfið frá 1811 sem pistlingurinn fjallar um er hins vegar klárlega á sviði stjórnsýsluréttar, enda einföld fyrirmæli til stjórnsýslunnar um hvernig skuli haga sér þegar upp koma tilvik sem falla undir hið fyrrnefnda bréf.

2/12/04 23:01

Forseti

Ég leyfi krumpu og Fíflagangi að bítast um orðanna hljóðan. Ég er aðeins aum skriffinnskublók og beygi mig undir dóm mér lögfróðari manna og kvenna.

Rekabálk Jónsbókar var hún fóstra mín blessunin vön að lesa fyrir mig fyrir svefninn og mun ég án efa birta hér vel valin brot þaðan, eftir minni.

3/12/04 00:01

voff

Það var líka til skamms tíma verulegt vandamál að fólk fór ekki eftir lögum um verndun héra nr. 23/1914. Fólk fór bara alls ekkert eftir þeim og hefði með gegndarlausum veiðum vafalaust sett hérastofninn í alvarlegan vanda, hefði hann verið til staðar á landinu.

3/12/04 04:01

krumpa

Lög um verndun snæhéra hafa reyndar nýverið verið felld úr gildi - og er það miður - því að nú eru litlu héragreyin alveg varnarlaus auk þess sem lagasafnið varð sýnu leiðinlegra aflestrar fyrir vikið... enn er þó bannað að fara á hestbaki upp Bankastræti og er það nokkur bót í máli!

Forseti:
  • Fæðing hér: 11/11/03 13:15
  • Síðast á ferli: 9/8/05 18:29
  • Innlegg: 0
Eðli:
Ég er Forseti. Ég ræð.
Fræðasvið:
Lög, reglugerðir, þingsályktunartillögur, frumvörp, nefndarálit.
Æviágrip:
Fannst í kjallara Alþingishússins 17. júní árið 1944. Hef verið þar æ síðan.

Hef sinnt nefndar- og trúnaðarstörfum fyrir ýmsa flokka.