— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 7/12/03
Sánkti Tómas á Geirsgötu

Lof um lostæti

Hver sá sem mátt hefur þola hungur, harðræði og þrengingar mun hæðast að mér fyrir að barma mér yfir sárum sultarverkjum síðstliðinn fimmtudag. Við hina, sem aldrei hafa upplifað örbirgð og óvissu, segi ég aðeins eitt: Varist léttmeti í hádeginu og þið munuð áfram lifa við allsnægtir! Hið sumarlega saltat, sem ég í stundarbrjálæði pantaði mér á Apótekinu, var orðin óljós minning strax og Tjörnin hvarf úr augsýn og innan skamms mátti ég vart mæla fyrir nagandi hungurverkjum og óseðjandi þrá eftir kjetmeti af einhverju tagi. Samviskusemi mín og tryggð við vinnuveitendur var hins vegar slík, að ég sat sem dæmd við skrifborð mitt og sinnti brýnustu verkefnum dagsins fram undir kvöldmat en þá tókst mér með erfiðismunum að fikra mig að bifreið minni, gangsetja hana og beina í átt til sjávar. Þaðan þóttist ég greina dýrðlega angan sem sljór og dofinn hugurinn þekkti; nefnilega steikingarilminn úr eldhúsi Tómasar ‘Búlluborgara’ á horni Geirsgötu.

Ég neytti síðust kraftanna til að komast upp þrepið og inn fyrir þröskuldinn þar sem glaðlegur og elskulegur piltungur brosti við mér. Með látbragði og hálfkæfðu tauti tókst mér að gefa til kynna hvað ég vildi. Hendur mínar gripu dauðahaldi um svalandi kóladrykkinn, svo að við lá að plastmálið brysti. Eftir að hafa svolgrað nokkra sopa á allt annað en dömulegan hátt svipaðist ég endurnærð um og fann gott sæti við gluggann. Þó verð ég að viðurkenna að hári barstólar eru ekki mitt uppáhald, enda vart nema meðalmanneskja að hæð. Þar uppi var hins vegar ágæt útsýn til allra átta og því var ég fljót að bregðast við þegar ég sá borgarann minn taka á sig rétta mynd, stökk niður af stólnum og hljóp við fót að afgreiðsluborðinu í sömu andrá og nafn mitt var kallað upp.

Engin orð duga til að lýsa þeirri unaðslegu tilfinningu sem hríslaðist um mig þegar ég beit í Búlluborgarann minn. Ég fann yl og alsælu færast yfir dofna og máttvana útlimi mína, roðann færast í kinnarnar og blikið kvikna í augunum á ný. Notaleg og upplífgandi tónlist ómaði úr hátölurunum, starfsfólkið spjallaði glaðlega sín á milli, sjófuglarnir görguðu kátir niður á höfn og heimurinn færðist aftur í samt lag.

Guðlaun, Tómas, fyrir dásamlegan hamborgara!

   (29 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.