— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 5/12/03
Bravó fyrir Búllunni!

Allt er þegar þrennt er.

Eftir árangurslausar tilraunir á liðnum vikum tókst mér loksins að borða á Hamborgarabúllunni. Þakka ég það helst þeirri staðreynd að ég fór að kveldlagi, án stallsystra minna og okkar sauðtrygga skósveins.

Svo heppilega vill til að Búllan er í þægilegu göngufæri frá heimili mínu og á sólbjörtu sumarkveldi er því bæði ánægjulegt og hressandi að rölta í átt að höfninni að Geirsgötu. Þegar mig bar að garði var ys og þys í örsmáu eldhúsi staðarins sem blasir við augum þegar inn er komið. Starfsfólkið virtist skemmta sér hið besta og tókst með undraverðri fimi að forðast eldhaf og árekstra hvert við annað. Hinn landskunni borgarameistari og Búllueigandi, Tommi, stóð glaðbeittur við steikarplötuna og snéri hamborgurum af öryggi þess sem býr yfir áratugalangri reynslu. Eftir stutta bið var komið að mér að panta af einföldum matseðlinum og örskotsstundu síðar var maturinn tilbúinn. Borgarinn bragðaðist sérlega vel og var snarpheitur, enda nýkominn af pönnunni. Sérstaklega var ég hrifin af sinnepinu, sem kemur skemmtilega á óvart og gleður bragðlaukana.
Hamborgarabúllan er lítill og látlaus staður en á sér örugglega bjarta framtíð. Sjálf mun ég rölta í mat til Tomma þegar vel viðrar, með eða án Mús-Líar, Mosu og Þönguls.

   (38 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.