— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Dagbók - 5/12/03
Morgunstund* hjá Mosu frænku

*Hér ræður tímaskyn Júlíu, sem aldrei rís úr rekkju fyrr en á hádegi um helgar.<br />

Til að fagna sumri og hinum sögulegu samfundum okkar stallsystra á Baggalút í gær ákváðum við að hittast á vistlegu og vel búnu heimili Mosu frænku, snæða saman amerískan morgunverð (svokallaðan ‘brunch’) og líta yfir farinn veg . Heimboð Mosu var einnig kjörið tækifæri til að meta framfarir Þönguls og stíga með honum enn eitt skref á menntaveginum með því að kenna honum rétta hegðun við morgunverðarborð (‘the morning after’), en hingað til höfum við einbeitt okkur að háttsemi við hádegisverð, eins og glöggir lesendur okkar vita.
Mosa frænka á mikið lof skilið fyrir höfðinglegar móttökur. Okkar beið fagurlega dekkað borð og nýlagað kaffi. Gult og blátt voru ráðandi litir. Blámynstrað postulínsstellið og kóngablá vatnsglösin tónuðu vel við falleg, himinblá augu Þönguls og sólgular diskamotturnar kölluðust á við púðana í stofunni, gullröndina á stellinu og gullin lit kampavínsblandins appelsínusafans. Sá drykkur kallast Mimosa á erlendum tungum og er vinsæll í morgunverðarboðum á betri heimilum vestanhafs.
Beikonið var stökkt og sérlega gómsætt og síróps- og smjörþaktar pönnukökurnar gældu við bragðlaukana. Mosa bauð uppá tvær gerðir, með og án bláberja, og vakti sú síðarnefnda sérlega mikla lukku. Freskir perubitar settu punktinn yfir i-ið.
Að herlegheitunum loknum dró Mús-Lí fram gómsætt kókoskonfekt til að gæða sér á með kaffinu og alvara lífsins tók við.

Talnaglöggir lesendur hafa vafalítið veitt því eftirtekt að oft hefur allnokkur tími liðið án þess að við stöllur segjum álit okkar á veitingastöðum borgarinnar. Ástæður þagnarinnar hafa oftar en ekki verið óbærileg pennaleti, vanheilsa eða annir á öðrum vettvangi, en sjaldan hefur liðið vika án þess að við hittumst og snæðum saman. Yfir rjúkandi kaffibollunum og konfektinu rifjuðum við upp þá staði sem við höfum sótt heim á liðnum vetri og punktuðum niður kosti þeirra og galla. Afrakstur þessarar yfirlegu mun birtast hér á Baggalúti á næstunni. Það er von okkar að skrifin komi öðrum að gagni og beini matgæðingum á réttar brautir, framhjá metnaðarlausum og tilgerðarlegum matsölustöðum að dyrum þeirra sem kunna að matbúa fyrir kröfuharða, en þakkláta gesti.

Njótið vel.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og Þöngull (skósveinn)

   (42 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.