— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 2/12/03
Súrt í bragði og broti

Með vinnandi mönnum á Múlakaffi

Það var kátur og vel klæddur hópur sem hélt út í ófærðina síðastliðinn fimmtudag. Fannfergið var slíkt að Júlía, sem er vön akstri á hálendinu, var ökumaður að þessu sinni. Ferðinni var heitið í Múlakaffi, Mekka íslenskrar matargerðarlistar, enda er nú rétti tíminn til að gæða sér á þjóðlegum krásum á borð við vel súra hrútspunga, bústna bringukolla og sultu úr sviðum og svínum. Glaðar í bragði tipluðum við á eftir stórstígum skósveini okkar inn í bjartan og vistlegan veitingasal Múlakaffis. Uppstoppaður fiðurfénaður af ýmsu tagi gleður auga náttúrunnenda, en hætt er við að margir hafi litið rjúputetrið yfir skenknum girndaraugum í desember. Karlmannlegur andi svífur yfir vötnum í Múlakaffi og því vakti koma okkar stallsystra allnokkra athygli og undrun gesta sem augljóslega öfunduðu hinn föngulega fylgdarmann okkar af kvenhyllinni. Við erum svosem ekki óvanar augngotum karlpeningsins og létum því pískur og gægjur ekki raska ró okkar.
Röggsöm og móðurleg afgreiðsludama bauð fram aðstoð sína en reyndist þegar til kastanna kom ófær um að uppfylla óskir okkar um girnilegan þorrabakka. Af einhverjum illskiljanlegum ástæðum er ekki boðið upp á hið lystuga súrmeti (eða annað tilheyrandi) nema á föstudögum og um helgar, að því er okkur skildist, en eins og dyggir lesendur okkar vita er það ófrávíkjanleg venja hópsins að snæða saman á fimmtudögum. Skiljanlega olli þetta okkur (og efalaust fleirum) sárum vonbrigðum en eftir nokkrar bollaleggingar var ákveðið að láta slag standa og prófa hvað staðurinn hefði uppá að bjóða.

Mosa frænka og Þöngull völdu sitt hvora súputegundina, Mosa kaus rauðleita tómat-grænmetisssúpu sem tónaði einkar vel við varalitinn, en Þöngull tók föllleita kál-súpu framyfir (nú gætu lesendur e.t.v. haldið að Þöngull okkar sé grænfölur að lit, en svo er auðvitað ekki.) Hvorug féll í kramið hjá hinum kröfuhörðu matgæðingum. Mosu þótt hin litfagra súpa bragðlaus og grænmetisbitarnir stórkarlalegir og undarlega langir svo illgerlegt var að koma þeim haganlega fyrir í skeið eða munni. Þeim sem ekki hafa lokið brottfararprófi frá svissneskum fágunarskóla gæti reynst erfið þraut að innbyrða súpuna á siðmenntaðan og dömulegan hátt. Brauðið stóðst hins vegar allar þeirra væntingar með prýði og eru þó Mosa og Þöngull góðu vön.
Mús-Lí hafði fastað í þrjár nætur til að hafa sem mesta og besta lyst á súrmetinu (sem hún svo ekki fékk) og réðst því til atlögu við hlaðborðið. Þar kenndi ýmissa grasa; þetta vanalega pasta, grænmeti og viðlíka léttmeti - og svo annað sem er óvenjulegra, svo sem einhvers konar djúpsteiktar ostastangir, búttudeigsbögglar og mexíkó-lagkaka. Þó hver og einn réttur væri ágætur sem slíkur var þetta dulítið undarleg blanda. Mús-Lí tók nokkra sök á því sjálf, en Mosa frænka sannfærði hana um að kenjum kokksins væri frekar um að kenna. Eftir herlegheitin var hún fremur illa södd og leið eins og þetta hefði ekki verið mjög heilnæmur málsverður.
Júlía pantaði grísasneiðar í gráðostasósu af matseðli dagsins. Rétturinn kom verulega á óvart – en ekki á þægilegan hátt. Gráðostasósan virtist miðuð við þarfir og þrár þeirra sem ekki borða gráðost, því næmir bragðlaukar greindu ekki minnsta keim af neinu ostkyns. Með grísnum voru djúpsteiktir kartöflustautar auk þess sem sígilt meðlæti á borð við rauðkál, rauðbeur og ORA-baunir voru á boðstólnum.

Maturinn á Múlakaffi olli því nokkrum vonbrigðum og þótti í dýrari kantinum, en elskulegt starfsfólk, með Jóhannes eiganda í broddi fylkingar, bætti bragðdaufa réttina að nokkru upp. Umhverfið er að sama skapi í senn vistlegt og áhugavert í látleysi sínu. Rúmgóð borð gera Múlakaffi að ákjósanlegum fundarstað, enda mátti sjá meðal gesta skelegga forsvarsmenn sjómannahreyfingarinnar og hetjur úr verkalýðsstétt. Verðlag staðarins hæfir þó varla pyngjum þeirra sem vinna á lægstu töxtunum.
Þar sem maturinn hafði valdið nokkrum vonbrigðum ákváðum við að taka enga áhættu með kaffið og fórum því í hið vistlega bakarí Café Copenhagen skammt frá. Þar er boðið upp á dýrindis kaffi, sætabrauð og súkkulaði, svo fátt eitt sé nefnt af freistingum staðarins. Mús-Lí bauð uppá dýrindis konfekt, framleitt af súkkulaðimeisturum staðarins, sem endurvakti trú okkar á mannkyninu, svo gott var það. Hver sá sem finnur fyrir depurð og daufleika nú á útmánuðum ætti að gera sér ferð á Suðurlandsbrautina og ylja sálartetrinu með kaffi og kruðiríi uppá danskan máta.

Meira að viku liðinni.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og Þöngull skósveinn.

P.S. Allar upplýsingar matgæðinga um ‘Food and fun’ hátíðina eru vel þegnar, svo og fjárframlög áhugasamra einstaklinga og/eða fyrirtækja.

   (50 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.