— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/12/03
Flatbökur og frekjuköst

Hrollköld frásögn af átökum og áti

Það er kunnara en frá þurfi að segja að hátíðarnar leggjast misvel í menn og skepnur. Þessu höfum við stöllur nú fengið að kenna á í upphafi árs. Karlpeningur þessa lands virðist hafa misst öll tök á tilverunni eftir að jólaljósin slokknuðu og hangikjetið kláraðist. Eins og vænta mátti hafa margir þeirra leitað til okkar í von um andlegt fóður og ástúð, rétt eins og smáfuglarnir (sem virðast þó fremur kjósa fuglakorn). Þannig lentum við í þeirri einkennilegu (og óþægilegu) stöðu í dag að hafa fjóra piltunga í eftirdragi, en eins og vanir hestamenn vita er óæskilegt að hafa fleiri en einn til reiðar meðan verið er að temja. Fyrsti skjólstæðingur okkar, Vest-Lingur, sem taldi sig í haust er leið fullfæran um að fóta sig einn og sjálfur, sneri í árslok aftur og nýtur nú sérlegrar handleiðslu Mús-Líar (sem hafði stund aflögu). Vaðall talaði okkur inná að taka sig með, enda enn upprifinn eftir athyglina sem hann naut á Hótel Borg. Ágæt húsmóðir í Vesturbæ hafði samband við okkur fyrr í vikunni og bað okkur lengstra orða að losa sig við spúsa sinn og barnsföður, Vandræða-Gemsa, þó ekki væri nema eina dagstund svo örlítill friður ríkti á heimilinu. Síðast en alls ekki síst var svo okkar ástkæri Þöngull með í för. Þjálfun hans er á mjög viðkvæmu stigi og augljóslega hefur of langur tími liðið frá því við síðast gáfum honum gaum, því hann reyndist rellinn, hvefsinn og sérlega óþjáll í rekstri. Við stöllur höfðum upphaflega ætlað að snæða á Holtinu, bæði til að kanna hvort forsvarsmenn hefðu bætt úr þeim smávægilegu vanköntum sem við nefndum í gagnrýni okkar í október og ekki síður til að fagna nýliðnu afmæli skósveinsins snúðuga. Hver hefði trúað því að ungir athafnamenn létu illa að stjórn? Þrátt fyrir blíðleg orð, bænir og allhvassan tón tókst okkur ekki að hafa hemil á hinum óstýriláta hóp ungra manna, sem teymdi okkur nauðugar á eitt skuggalegasta veitingahús borgarinnar, Pizza 67, en þá var verulega af okkur dregið sökum kulda og vosbúðar.

Þegar inn var komið rann mesti móðurinn af hinum böldnu smásveinum með þverhausinn Þöngul fremstan í flokki. Ber það helst að þakka lamandi áhrifum hins þykka reykskýs, sem staðarhaldarar bjóða gestum uppá í stað súrefnis. [Þeir Vaðall og Vest-Lingur hafa síðar haft samband og komið sínum sjónarmiðum á framfæri og beðist afsökunar á framferði sínu. Til að alls sannmælis sé gætt verður að viðurkennast að báðir hegðuðu sér þokkalega. Vest-Lingur sem er nær fulltaminn lét allvel að stjórn og Vandræða-Gemsi skeiðaði á eftir Þöngli sem hafði fælst í átt að Bæjarins bestu. Vaðall var of illa búinn til að hafa í frammi ólæti.]

Á síðasta áratug liðinnar aldrar var Pizza 67 vinsæll og vel liðinn matsölustaður, en eins og matgæðingar þessa lands vita, eru þeir dýrðardagar löngu liðnir. Á þessum síðustu og verstu tímum reyna eigendur að egna fyrir hungraða vegfarendur með gylliboðum um hádegisverðarhlaðborð. Til að forðast frekari uppþot og frekjuköst ákváðum við stöllur að kyngja stoltinu og leggja til atlögu við hina ýmsu rétti sem boðið var uppá. Bar þar mest á flatbökum (eins og vænta má), pastasalötum og niðursneiddu grænmeti, auk svínasteikur og kjúklingapottréttar. Síðhærður, en vingjarnlegur þjónn bar okkur kóladrykki, en annars höfðum við lítið af starfsmönnum að segja. Létt-kólað, sem meinlætakonan Júlía pantaði, virtist hafa dvalið langdvölum í frystigeymslum ellega mátt þola frosthörkur til jafns við íbúa landsins, því myndarlegur ís(kóla)jaki reis tignarlega upp yfir glasröndina.

Bragðlaukar hópsins brugðust misvel við þeim mat sem rataði inn fyrir varirnar. Svínakjötið þótti ágætt og hinn indverski andblær pottréttsins féll sömuleiðis vel í kramið hjá Vest-Lingi, en flatbökurnar hlutu háðulega útreið og ekki eitt einasta hrósyrði. Mús-Lí ofbauð skefjalaus ofnotkun flatböku-‘meistarans’ á tómatkrafti, Mosu frænku þótti óbragð af síðari sneiðinni, en Vaðall taldi tóbaksreykinn á staðnum hafa náð að deyfa sársaukann í viðkvæmum bragðlaukum sínum. Þöngull bragðaði nú á sinni beisku iðrun og varð á ný lítillátur, ljúfur og kátur, eins og hans er von og vísa. Til að tryggja sér áframhaldandi handleiðslu okkar stallsystra, ástúð og hlýju bauð hann öllum hópnum uppá kaffi að eigin vali á hinu sígilda kaffihúsi, Kaffi París. Þar náðust sögulegar sættir, svo lesendur okkar mega eiga von á gagnrýni að viku liðinni.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía, Þöngull (skósveinn), Vaðall (viðhengi ellegar viðhald), Vandræða-Gemsi (Vesturbæingur) og Vest-Lingur (fyrsti skjólstæðingur okkar)

P.S. Að gefnu tilefni skal tekið fram að við stöllur tökum ekki við nýjum skjólstæðingum (skósveinum) fyrr en í mars 2006. Áhugasömum skal bent á að skila inn umsóknareyðublöðum í þríriti til ritstjórnar Baggalúts eða í anddyri Stjórnarráðsins.

   (54 af 59)  
2/12/05 04:01

Hvæsi

Og nú er búð að loka þessum stað.

En mars 2006 segiru. [Kíkir á dagatalið]
Það er að bresta á.

[Sækir um og laumast út]

9/12/05 21:01

Texi Everto

Ég sæki hér um að fá að vera skósveinn

9/12/05 21:01

Texi Everto

Ég sæki hérmeð líka um að fá að vera skósveinn!

9/12/05 21:01

Texi Everto

Og ég sæki líka um að vera skósveinn - munið að skila inn umsóknum í þríriti!

10/12/05 05:01

Texi Everto

Oss... nei, mig langar líka að verða skósveinn. Hér er umsókn í þríriti [Kemur með pappírsstafla].

31/10/05 01:02

Texi Everto

Þetta er einhver misskilningur, mig langar ekkert til að vera skósveinn [Strunsar út af sviðinu og skellir á eftir sér]

31/10/05 09:01

Texi Everto

[Strunsar aftur inn á sviðið og skellir á eftir sér] Ekki hlusta á mig - ég er svo ruglaður með víni.
Ég vil vera skósveinn - fullur eða ófullur. Eða stígvélasveinn, má það?

31/10/05 12:01

Tigra

Vertu stilltur, annars færðu engin kúrekastígvél í jólagjöf!

2/12/06 07:02

krossgata

Nú fer að bresta á með mars 2007 innan tíðar.

3/12/06 04:02

krossgata

Mars á morgun!!!!!

3/12/06 09:01

Texi Everto

MARS,9

3/12/06 09:02

krossgata

Hver hlaut skósveinsembættið?

3/12/06 23:01

Vladimir Fuckov

Um var að ræða mars 2006 en eigi 2007. Svo virðist sem afar langan tíma taki að ráða í embættið. Júlía hefur ei sjest síðan í fyrravor.

4/12/06 00:00

krossgata

Hún er kannski vorboði?

5/12/06 01:00

Texi Everto

[Skálar]

5/12/06 09:00

krossgata

[Geyspar]

9/12/06 04:01

Hexia de Trix

[Brunar framhjá]

9/12/06 08:00

krossgata

Noh! Ferðin á henni.

1/12/07 12:01

Álfelgur

Fyrst árið 2008!!

3/12/07 09:00

krossgata

9. mars!! Aftur.

4/12/07 04:00

Álfelgur

Jeij!

1/11/07 01:00

krossgata

Rammó!

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.