— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Pistlingur - 9/12/04
Orf hins illa

Um hetjulega baráttu mína við myrkraöflinn

Árum saman hef ég, ein og óstudd, barist við fulltrúa hins illa hér á jörðu: Sláttuorfið. Þessi útsendari djöfulsins hefur með lymsku laumað sér inn í bílskúra og verkfærageymslur landsmanna; staði sem eru að öllu jöfnu illa varðir fyrir vélum hins illa. Alltof oft sjást óhörnuð ungmenni glíma við skrattann á grasbölum og umferðareyjum, ómeðvituð um að framtíð veraldar er í þeirra höndum.

Sjálf fann ég strax við fyrstu kynni að sláttuorfið er illt tæki í eðli sínu. Enginn nema fjandinn sjálfur gæti með góðu móti upphugsað svo óþjált og andstyggilegt verkfæri. Óhljóðin sem sláttuprik gefa frá sér eru meiri en þekkjast í náttúrunni. Jafnvel Júmbóþota í flugtaki hljómar eins og lágróma lævirki í samanburði við drunur þær sem heyrast í gangsettu orfi. Sérhvert grasstrá og smátré fellur í valinn fyrir fangbrögðum fjandans (sem er í sjálfu sér tilgangurinn með notkun þess) og um leið fjarar lífsgleði þess sem orfinu stýrir smám saman út og ergelsi og hatur taka sér bólfestu í huganum og ofurþreyta í öllum vöðvum. Til eru þeir sem halda því fram að slíkur sé eyðileggingarmáttur orfsins, að ungar konur verði ófrjóar af notkun þess, slíkur óvinur alls lífs er sláttuprikið.

Eins og fyrr segir hef ég hjálparlaust barist við þennan skratta árum saman. Minn fjandi er í líki rauðlitaðs Komat’su sláttuorfs. Framan af baráttunni hafði fjandinn Komat’su ævinlega betur, leiddi mig til ýmissa óhæfuverka (blessuð sé minning litla reynitrésins hennar móður minnar) og réði algerlega ferðinni. Eftir föstur, bænir og frómt líferni vetrarlangt kom ég endurnærð til baráttunnar síðastliðið sumar. Orfinu sýndi ég öngva miskunn, barði það til hlýðni og lét það fylgja hverri minni minnstu bendingu. Daglangt þeystist ég um landareign mína, uns ekkert grasstrá var yfir æskilegri hæð. Orfið illa reyndi allt hvað það gat að brjótast undan ofurvaldi vilja míns og beitti til þess lúalegum brögðum á borð við bensínleysi, þráðskort og stráflækjum. Ekkert af þessu fékk sveigt mig af hinum þrönga vegi dyggðarinnar. Með samanbitnar varir bætti ég bensíni á tankinn, með blóðugum fingrum dró ég út meiri þráð og leysti grasflækjurnar með brotnum nöglunum. Um það bil sem kveldmatur var á borðum varð orfinu illa ljóst að hið góða (ég) hafði sigrað. Með aumkunnarverðu pústi gaf það upp öndina og lá sem örent í örmum mínum. Sigri hrósandi leit ég yfir sleginn völlinn og veitti því náðarhöggið; kastaði því fyrirlitlega við fætur mér og stikaði í burtu, lofandi herrann fyrir mikilfengleik miskunnar hans.

Ári síðar var gras orðið allhátt í garði mínum og mál að hefja baráttuna við orfið illa enn á ný. Þar sem ég þóttist hafa fullsigrað fjandann árið áður, lagði ég leið mína í Húsasmiðjuna til að leita uppi nýjan andstæðing, en þó viðurkenni ég að ég vonaði innst inni að mér auðnaðist að kaupa sláttuorf, frekar en fulltrúa djöfulsins á jörðinni. En mér varð ekki að þeirri ósk. Hinn nýju andstæðingur minn, gult sláttuprik af Texas-gerð, reyndi með öllum ráðum að vinda sig og villa fyrir mér sýn, svo samsetning þess færi út um þúfur. Yfirgripsmikil verkfræðikunnátta mín var þó slík, að ég fékk vel við ráðið og að kveldi var ég reiðubúin að berja á fjandanum. Óvinurinn vaknaði fljótt til lífsins, en við fyrsta snúning hins djöfullega plastþráðar var mér ljóst að máttur minn hafði aukist – eða afl hins illa dvínað. Svo ójafn var leikurinn að ég hætti eftir hálftíma og lagði orfið til hvílu í illa slegnu grasinu og gekk til hvílu, sátt við dagsverkið. Að morgni gekk hjartkær systir mín á vit hins góða og gjörðist hermaður góðs með því að slá það sem eftir var af garðinum. Slíkt var afl hennar, að orfið illa gaf upp öndina eftir tæpt korter.

Þó gott væri að hafa betur í baráttunni við hið illa, var hitt heldur verra að garðurinn var nú enn sem fyrr ósleginn að mestu og enginn hestur nærri til að bíta grasið, hvað þá rolluskjáta eða beljugrey. Sá ég þá þann kost vænstan að vekja upp gamlan draug, Komat’suinn rauða og sýna honum hver réði.

Það er skemmst frá því að segja að ég fékk ólánsorfið illa endurgreitt eftir laaaaaaaannnnnggggga bið í Húsasmiðjunni. Boðskapur minn er þessi: Betri er forn fjandi, sem þú þekkir, en ókunnur andskoti út úr búð.

   (3 af 59)  
9/12/04 06:01

Skabbi skrumari

Ég sé að þú ert tæknifrík... ég nota eingöngu orf og ljá í garðinn minn, ekkert bensín, ekkert streð, enginn hávaði... nema þú lendir í stein... muna bara að hafa það vel brýnt, því óbrýnt er það ljár í þúfu hvers manns..

9/12/04 06:01

Hakuchi

Merkileg grettisglíma við falinn fjanda.

Hefur ungfrúin íhugað sinubruna? Hann ku slá vel.

9/12/04 06:01

Vladimir Fuckov

Einnig er einfaldlega hægt að setja malbik eða steinsteypu yfir allt. En mjög skemmtilegt fjelagsrit.

9/12/04 06:01

Heiðglyrnir

Þessi blessuðu slátturorf eru ónýt og biluð til skiptis. Eiguleg eru þau svo sannanlega ekki. Hagkvæmara er að leigja sér s..orf í góðu lagi 2 til 3 á ári, fá með því blandað bensín á brúsa og afgreiða málið. Nú og ef að það bilar, fer maður bara og nær í annað. En félagsritið er gott.

9/12/04 06:01

Nafni

Jú það ku vera rétt hjá þér Júlía. Skrattinn skítur á egg ungfrúa þar sem egginni er ekki fyrir að fara vélsláttuorfi.

9/12/04 06:02

Prins Arutha

Svona félagsrit er gaman að lesa, með fullri virðingu fyrir glímunni við fjandans tól og áhöld.

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.