— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Pistlingur - 9/12/04
Dagur í lífi Thebeibs - ritrýni

Greining á stórgóðum pistli nýgræðings

Ég finn mig tilneydda til að taka upp hanskan fyrir Thebeibs sem hefur fengið hörð og neikvæð viðbrögð við sínum fyrstu skrifum hér á Lútnum. Sé textinn lesinn yfir hugsunarlaust með fordómafullu yfirlæti ‘gáfumannsins’ (og hér er ekki þverfótað fyrir sjálfskipuðum snillingum og kverúlöntum) er hann svo sem ekkert meistaraverk. Sé rýnt nánar undir yfirborðið kemur í ljós skemmtileg og fersk hugsun, vísanir og hvöss ádeila. Til að létta lesendum verkið hef ég greint nokkra meginþætti.

Okei hæhæ, í dag fór ég í skúlen

-Þessi málsgrein er greinilega hugsuð sem e.k. svar eða vísun í skemmtilegan texta dansk-ameríska söng-spéfuglsins, Eddie Skoller, ‘What did you learn in school today?’ Höfundur/sögumaður hefur vísast margoft heyrt lag Eddies og heyrt sömu spurningu hjá foreldrum eða forráðamönnum sínum og til að forðast sömu, gömlu tugguna grípur hann orðið fyrstur: ‘Okei hæhæ, í dag fór ég í skúlen’. Með því að stafsetja orðið ‘skóli’ eins og það hljómar á dönsku, ‘skúle’ er höfundur á lúmskan hátt að veita lesendum sínum vísbendingu um hvert hann er að vísa.

og það var frekar leiðinlegt skomm..

- Hvað er þetta annað en snörp ádeila á íslenska skólakerfið? Er eðlilegt að nemendum leiðist eftir rúma viku í kennslustofunni? Nei, auðvitað ekki! Yfirvöld þurfa að endurskoða stefnu sína og athuga hvar pottur er brotinn, hvers vegna ungdóminum finnst ekki gaman að læra.

Ensku kennarinn minn er dead leiðinlegur!i!i

-Þetta er sérlega hnyttið. Eina enskuslettan í pistlinum er í setningunni um leiðinlega enskukennarann – sem greinilega hefur lag á að kenna nemendum sínum sitthvað í ensku, þó óskemmtilegur sé. Hárfín írónía, sem ein og sér hefði dugað til að gera þennan pistil góðan.

þúst hann kann ekki einu sinni að tala alminnilega ensku, geðveikt asnalegt sko.

- Aftur má sjá sterk dönskuáhrif; ‘alminnilig’ og ‘sko’. Þarf að samþætta tungumálanámið betur í skólakerfinu? Vill höfundur e.t.v. að námsefni hvers fags taki meira tillit til menningar og sérstöðu þeirra sem byggja það málsvæði sem um er verið að ræða hverju sinni? Eða er höfundur máske (danskan er smitandi) að benda okkur á skyldleika tungumálanna á þennan hátt? Þessi lína vekur upp margar áhugaverðar spurningar.

Svo var stærðfræðikennarinn lasinn svo að við fengum að fara kl 11, geeeðveikt.... :D

-Aftur snilldarleg millivísun. Þegar höfundur talar um stærðfræði leyfir hann sér að nota tölustafi, annar koma þeir hvergi fyrir í pistlinum. Um leið kemur hann inná alvarlegan vanda vinnumarkaðarins og hagkerfisins alls; veikindafjarvistir starfsmanna. Það er fallegt að sjá hið gamla góða orð ‘lasinn’ notað hér, það sýnir hlýhug og umhyggjusemi í garð sjúklingsins. Orðið er of sjaldan notað í opinberri umræðu og gleðiefni að sjá það hér.

Svo að ég og Linda vinkona mín fórum í kringluna að skoða föt og stráksa ;)

- Með því að skrifa ‘kringlan’ með litlum staf er höfundur að hæðast að taumlausri neysluhyggju nítímans. Flennistórar verslunarhallir eru allar meira og minna eins, einkennalausar ‘kringlur’ sem lokka ófjárráða börn og unglinga til sín með alls kyns gylliboðum. Kringlurnar eru orðnar að kirkjum samtímans. Höfundur fangar kjarna unglingsáranna, áhyggjurnar yfir útliti, klæðaburði og því hvað félögunum finnst um mann með þessari setningu, minnir á mikilvægi (já, nauðsyn) þess að eiga góðan vin á þessum umbrotatímum í lífinu. Um leið er ljóst að höfundur og ‘Linda vinkona’ búa enn yfir sakleysi og kæruleysi bernskuáranna, því þær hafa ekki of miklar áhyggjur af ‘stráksunum’. Þó er hugsanlegt að hér sé átt við einn ákveðinn einstakling, sem við fáum ekki enn að vita hver er, ‘stráksi’ (et.) er þá líkast til viðfang ástar þeirra þessa stundina – en ástin er hverful og aldrei meira en á unglingsárunum.

Fengum okkur MC og alles :P hehe já´eg veit fiiituhlussur :D

- Eigum við öll að vera eins? Gerir einn MC okkur að ‘fituhlussum’? Er það ekki bara allt í lagi, svo fremi sem okkur sjálfum líði vel og annað fólk kann vel við okkur? Hörð gagnrýni á áróður tískuiðnaðarins og líkamsræktarfrömuða, sem vilja hafa alla granna og lystarlausa og vel viðeigandi sem varnaðarorð á haustdögum, þegar þúsundir unglinga byrja í skólum og þurfa að taka afstöðu til sjálfs síns og eigin ímyndar.

En okei nenniggi meira

- Enda nóg sagt. Hér hefur höfundur farið yfir sviðið eins og logi um akur og vakið upp spurningar um fjölmargt í samfélagi okkar.
bæjó skrítna og fyndna fólk:*

- Vertu sæl eða sæll, Thebeib – vona sannarlega að þú látir ekki fæla þig í burtu, heldur haldir áfram að veita okkur innsýn í veröld ungs Íslendings.

   (4 af 59)  
9/12/04 02:01

Skabbi skrumari

Hehe... snilld Júlía... algjör snilld...

9/12/04 02:01

Isak Dinesen

Frábær pistlingur.

9/12/04 02:01

Haraldur Austmann

Ég þarf að taka afstöðu mína til Thebeibs og annarra gelgna til endurskoðunar. Þúst, þetta eru náttlega snillingar.

9/12/04 02:01

Vladimir Fuckov

Snilldarleg greining á djúphugsaðri greiningu Thebeibs á tilvistarkreppu umgdómsins hjer á skerinu.

9/12/04 02:01

B. Ewing

[Gapir af undrun] Má eg þá biðja um handritin takk. Skárra er að stauta sig gegnum þau en að sálgreina afbakaðan tyggjósmjatttexta.

Annars er það rétt að finna má góðmálma í ruslahaug. Spurningin er hve djúpt við viljum eða nennum að grafa.

9/12/04 02:01

Goggurinn

Ég held að félagsritið fái saltpilluna aftur..

9/12/04 02:01

Hakuchi

Snilldarritrýni. Það liggur við að ég taki Barnið í sátt.

Nei, hatur mitt á gelgjum er of mikið.

9/12/04 02:01

B. Ewing

[Gefur Goggnum auka satltpillu fyrir gjafmildina]

9/12/04 02:01

Júlía

Sá sem ritaði 'Í dag' er greinilega ekki heilalaus gelgja, heldur launfyndin spéfugl. Fælist ekki í því þversögn myndi ég jafnvel halda því fram að viðkomandi væri sprenglærður bókmenntafræðingur, en 'fyndni' og 'bókmenntafræði' eiga ekki saman frekar en olía og vatn.

9/12/04 02:01

Von Strandir

Ég sé þetta núna, takk fyrir að opna huga minn

9/12/04 02:01

Vladimir Fuckov

Rjett, algjörlega útilokað er að um sje að ræða einhvern hinna alltof mörgu gjörsamlega hómorslausu bókmenntafræðinga þessa skers. Greinilega er um að ræða óvenju djúpt þenkjandi grunnskólanema er þrátt fyrir ungan aldur hefur óvenju skýra sýn á lífið og tilveruna.

9/12/04 02:01

Hakuchi

Nú eða fullorðinn snilling sem hefur tamið sér tungutak unglinga í bókmenntalegum og kómískum tilgangi.

Ég gruna Harald.

9/12/04 02:01

Heiðglyrnir

Þetta kitlaði svo sannanlega hláturtaugarnar. Frábært.

9/12/04 02:01

Haraldur Austmann

Saklaus!!!!

9/12/04 02:01

Grýta

Tek ofan fyrir þér Júlía, fyrir að leiða okkur í allan sannleikann um djúphugsun og snilld unglinga. Snilld!

9/12/04 02:01

Galdrameistarinn

Flott hjá þér Júlía, en það stendur sem ég sagði áður. Þessar tyggjójapplandi færslur eiga heima á hu**.is.

9/12/04 02:01

Fuglinn

Stórkostleg ritrýni.

9/12/04 02:01

Nornin

Vá, að nenna þessu.

9/12/04 02:02

hundinginn

Já. "það" verður vonandi ekki kvekkt og heldur áfram að gleðja okkur með nærveru sinni.

9/12/04 04:01

Hóras

Þakka þér Júlía fyrir þessa ritrýni. Ég las pistil Thebeibs aftur með öðru hugarfari eftir þennan lestur og ég er ekki frá því að þau skrif marka upphafið að nýrri stefnu í íslenskum bókmenntum. Frjálslyndið í textanum er stórkostlegt og flæðíð óaðfinnanlegt. Ég ætla að leggja penna minn á hilluna í nokkrar vikur og sjá svo til hvort ég fyllist slíkum anda að geta komið jafnvíðsýnu verki frá mér.

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.