— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Dagbók - 1/11/03
Játningar jólabarns

Um sálarangist og innri átök

Ég er ein af þeim sem hef horn í síðu vitleysinganna sem byrja að skreyta fyrir jólin um leið og þeir eru búnir að taka slátur og sulta síðustu krækiberin. Árum saman hef ég hatast við sænska friðarspillinn IKEA og enn fyllist ég réttlátri heift þegar mér verður hugsað til hinnar viðurstyggilegu auglýsingar þessa spillta fyrirtækis, þar sem sjálfur jólasveinninn valsaði um á box-nærbrókum einum fata sunnan nafla.* Í stuttu máli sagt ber ég hag barna fyrir brjósti. Ég man hvað það var erfitt að bíða eftir jólunum í gamla daga, þessar fjórar vikur frá því að aðventan gekk í garð þangað til maður fékk loksins að opna pakkana. Blessuð börnin í dag þurfa nú að sýna biðlund frá miðjum október (þegar hinn pervertíski IKEA-sveinn fer að bera sig) og allan tímann dynja á þeim (og okkur hinum) endalausar auglýsingar og heimskulegar upphrópanir um jólaandann sem virðist vera alls staðar annarsstaðar en í manns eigin hjarta.

En nú er svo komið að mótstaða mín er farin að veikjast. Ég er að hugsa um að sleppa því að grýta glugga nágranna míns (eða hann sjálfan), þó að hann hafi traðkað á öllum viðteknum venjum og kveikt á aðventuljósinu sínu í lok október.** Á laugardaginn keypti ég mér stóran poka af gómsætum dönskum piparhnetum. Í gærkvöldi fór ég að sjá Bad Santa. Í dag féll síðasta vígið.

Ég játa, ég játa! Þessa stundina er ég að hlusta á Bing Crosby syngja jólalög...Ég lofa að reyna að taka mig á, strax og geisladiskurinn er búinn. Ég skal skipta um stöð ef ég heyri jólalög í útvarpinu, forðast tilhugsunina um jólagjafir og fussa yfir öllum ljósaskreytingunum í bænum. Ég skal jafnvel fela piparhenturnar inni í skáp fram að næstu helgi.

En núna ætla ég að hækka aðeins í Bing og raula með 'I'm dreaming of a White Christmas...'

*Jafnvel þó maður horfi eitt andartak framhjá þeirri gegndarlausu smekkleysu að sýna besta vin barnanna; gamlan, síðskeggjaðan karlmann á nærbrókinni, þá verður ekki framhjá því litið að Jólasveinninn færi aldrei að ganga í boxer. Maðurinn býr á Norðurpólnum og er því að sjálfsögðu ævinlega í skósíðu ullarföðulandi.
**Ef þú lest þetta, fíflið þitt, þá legg ég til að þú gerir þér ferð í IKEA og kaupir lampa hjá sálufélugum þínum, ef þig vantar meira ljós.

   (17 af 59)  
1/11/03 22:01

Kynjólfur úr Keri

Þú ert djúpt sokkin og greinilega á hraðri leið til jólavítis. Taktu þrjár aspirín, stingdu negulnagla í appelsínuhúðina, stattu á höfði og syngdu "Jól ó jól bíttípúnginn á þér" nokkrum sinnum og sjá... ég mun boða yður mikinn fögnuð og frið í sálinni fyrir öllu jóladraslinu langt fram eftir desember.

1/11/03 22:01

Heiðglyrnir

Ef að þetta dugar ekki til, þambaðu þá jólaglögg þangað til að þú verðu rænulaus, og vér ábyrgjum að morgundagurinn mun lækna þig af þessari vitleysu.

1/11/03 22:01

Hakuchi

Ég þakka greinargóðan og vandaðan pistil ungfrú Júlía. Þú verður að vera staðföst í andstöðu þinni við fyrirburajólin. Ef þú bregst, þá er engum borgið og jólaauglýsingar færast að lokum aftur fyrir 17. júní.

Bing Crosby er sérlega varasamur á þessum tíma því jólatónlist hans er holdgerving hins sanna jólaanda. Fjarlægðu þig frá tölvunni og láttu traustan og staðfastan samstarfsmann eða vin eyða jólalögunum fyrir þig. Ef þú vilt halda í Bing, skaltu biðja hann um að taka afrit og geyma þangað til í desember.

1/11/03 22:01

Nafni

Gleðileg Jól öll sömul!

1/11/03 22:01

Heiðglyrnir

jingle all the way

1/11/03 22:01

Omegaone

Þú ert skemmtileg.

1/11/03 22:01

Jóakim Aðalönd

Ég skil þig svo vel Júlía mín (Jólía). Þetta lag með Bing er tær snilld og fór ég að hlusta á það um miðjan september. Ég vöknaði um stóru augun mín.

1/11/03 22:01

Nornin

Vertu sterk Júlía, vertu sterk!
Jólaandinn má ekki yfirtaka okkur fyrr en 1. des annars fer þetta þjóðfélag endanlega í hundana.

1/11/03 22:01

Júlía

Ég þakka hlýjar kveðjur og stuðning frá ykkur öllum. Þær munu styrkja mig í baráttunni fram til fyrsta í aðventu. Þá ætla ég að láta undan og háma í mig piparhnetur og syngja hástöfum með Bing.

1/11/03 22:01

Haraldur Austmann

Jingle bells, jingle bells,
jingle all the way.
Oh what fun it is to ride,
in a one horse open sleigh.

1/11/03 22:01

Vladimir Fuckov

Á síðasta ári héldu einhverjir Bagglýtingar upp á jólin um þetta leyti. Ástæðuna munum vér eigi, kannski brenglað tímaskyn vegna jólaauglýsinga síðan í september ?
En eigi er það nýlunda að börnin þurfi að bíða eftir jólunum frá miðjum október. Vér minnumst þess að eitt sinn á því æviskeiði er jólatilhlökkun vor var mest hófum vér 'niðurtalninguna' til jóla um eða rúmlega 100 (!!) dögum fyrir jól. Þ.e.a.s. um miðjan september...

1/11/03 22:01

Muss S. Sein

Andskotans jól. Heiðnir hátíðisdagar segi ég, en annars er ekkert að jólum, nema þá að þau eru lengri en sumarleyfi skóla!

Sem betur fer sinni ég falsfjölmiðlum lítið og missi því af flestum jólaauglýsingum og hræðilegum jólalögum með Helgu Möller.

Það eru bara tvö jólalög sem má telja góða tónlist: Mér hlakkar svo til með Dáðadrengjum og Christmas Song með Jethro Tull.

Og hananú!

1/11/03 22:01

Skabbi skrumari

*heldur fyrir eyrun og hummar* enginn er að tala um jólin, enginn er að tala um jólinn...

1/11/03 22:02

Tigra

Úff.. ég skil þig svo vel. Ég er svo mikið jólabarn að þetta er óþolandi fyrir mig. Kringlan og smáralindin og langflestar búðir bara eru líka dritandi jólaskrauti upp á allaveggi og glugga og maður getur ekki farið í búð án þess að heyra jólalög.
Verst finnst mér þó að heyra Heims um ból... því það er lag sem á EKKI að spila fyrr en bara.. á aðfangadag.. kannski á þorláksmessu!
*pirrast*

1/11/03 22:02

Muss S. Sein

Heimsk um ból má samt spila allt árið.

1/11/03 23:00

Barbie

Yndislegur pistill Júlía mín, alltaf gaman að sjá innihaldsrík félagsrit.
Æ, hvað ég skil þig samt vel. Það er erfitt að harka af sér því sjálf er ég bókstaflegt jólabarn, ekki nóg með að ég byrji að hlakka til í ágúst heldur á ég líka afmæli (reyndar 29.12 en það er afmæli samt). Ég ætla að reyna að hemja mig til 3.12 en þá förum við Dio til London sem er víst komin í jólabúninginn og mun ég þá endanlega fara í jólagírinn. Allir rauðklæddir með skegg eru beðnir um að halda sig í hæfilegri fjarlægð (nema náttúrulega þeir vilji gefa mér eitthvað gott í skóinn).

1/11/03 23:01

voff

Hangiketið uppi hékk.
Hurðarskellir gekk um gólf.
Maja í´ana mikið fékk.
Manndóm frá jólasveinum tólf.

Segið svo að menn séu ekki komnir í jólaskap!

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.