— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 31/10/03
Ævintýri í Árbænum

Hálendisferð á haustdögum

Í gær var sannarlega glatt í döprum hjörtum. Eftir margra mánaða árangurslausar tilraunir hafði hjartkærum skósveini okkar, Þöngli, loksins tekist að sannfæra okkur um að byggð væri í Árbænum.* Það þótti styrkja málsstað hans mjög að Mús-Lí hefur síðustu mánuði starfað meðal innfæddra á þessum slóðum og þóttist hafa orðið vör við mannaferðir og jafnvel vitsmunalíf. Júlía og Vest-Lingur voru því rjóð í vöngum, andstutt og með öran hjartslátt (sem þó mætti e.t.v. kenna óvanalegri líkamlegri áreynslu, frekar en spenningi) þegar að glæsibifreið Þönguls var komið, handan við götuna. Þeim gafst gott tóm til að ná andanum á ný, því ekillinn lét bíða eftir sér, en aftur rauk púlsinn upp úr öllu valdi þegar Þöngull birtist á spánýjum og glæsilegum leðurjakka. Það er sannarlega fagnaðarefni hversu mjög hagur hans hefur vænkast síðustu misserin eftir að við stöllur tókum hann undir okkar verndarvæng.

Við tók nú alllöng ökuferð um borgina. Framan af könnuðust farþegarnir sæmilega við sig og komu auga á þekkt kennileiti á borð við Hallgrímskirkju og Landspítala – Háskólasjúkrahús við Hringbraut**, en fyrr en varði urðu Vest-Lingur og Júlía að treysta algerlega á ratvísi bílstjórans sem stýrði upphækkaðri fjallabifreið sinni af öryggi yfir ársprænur og ójöfnur á veginum. Mús-Lí beið okkar á eyðilegri hæð og þaðan hugðumst við halda að veitingahúsinu Blásteini,*** sem Þöngull hefur lengi mært í okkar eyru. Fáir, ef nokkrir, hafa fundið þann stað og engar heimildir eru um hver steig þar fyrstur fæti inn. Vertar staðarins virtust hafa gefist upp fyrir löngu á að bíða eftir gestum, því hvergi voru opnar dyr og ekki matarbita að fá.

Voru nú góð ráð dýr. Illt er að vera matarlaus á fjöllum, sér í lagi að hausti þegar allra veðra er von. Þótti því ráðlegast að halda aftur til byggða og kanna enn einn ameríska skyndibitastaðinn, að þessu sinni Ruby Tuesday sem er til húsa uppá Höfða. Innandyra var okkur heilsað uppá engilsaxnesku sem sló okkur örlítið útaf laginu, þar sem við höfðum í sakleysi okkar haldið að íslenska væri móðurmál Höfðabúa. Sigld og lífsreynd sem við erum, tókst okkur þó fljótlega að skilja að stúlkan vildi bjóða okkur til sætis í þægilegum bás í stórum sal, þar sem hátt var til lofts og vítt til veggja. Skemmtilegar myndir prýddu salarkynnin, aðallega amerískar auglýsingamyndir fyrir kvikmyndir, spil og drykki. Einnig mátti sjá íþróttaútbúnað af ýmsu tagi, en allt var þetta á ská og skjön þó vandlega væri skrúfað í veggi.

Hið ferska og þunna fjallaloft hafði ært upp í okkur sultinn svo við pöntuðum snarlega hamborgara dagsins og quesadillu (‘dellu’ uppá íslensku). Þöngull bað að auki um mjólkurhristing, þar sem hann reynir þessa dagana að bæta holdtutlu á beinin - og ekki spillir ef blessuð beinin styrkjast um leið, ef ske kynni að hann félli um koll áður en fitan fer að mýkja skellinn. Biðin eftir matnum var alllöng, en þó ekki svo að við óttuðumst um afdrif kokkanna. Nokkuð skiptar skoðanir voru um gæði matarins. Mús-Lí var hæstánægð með ‘delluna’ sína sem var vel útilátin og fjarska girnileg að sjá, ekki ósvipuð óskornu og illa steiktu laufabrauði. Þöngull og Vest-Lingur gæddu sér glaðir í bragði á borgurunum sínum og beitti bæði kjafti og klóm í þeirri baráttu, en Júlíu þótti sósuskammturinn heldur snautlegur og hamborgarinn því þurr og óspennandi fyrir vikið. Beikonið sem var á honum var að auki svínfeitt og hrátt að kalla, en hrá svínafita hefur alltaf átt erfitt uppdráttar á borðum Júlíu og verið litin hornauga. Hins vegar var mjólkurhristingurinn svo girnilegur að Júlía ákvað að hundsa borgarann og styrkja mjólkuriðnaðinn í staðinn. Reyndist sú ákvörðun nokkuð misráðin, en með dyggri og óeigingjarnri hjálp frá Mús-Lí, en þó einkum herramanninum Vest-Lingi tókst að ráða niðurlögum hristingsins að mestu.

Þegar á allt er litið var heimsóknin á Ruby Tuesday ákaflega vel heppnuð, ef hjá því er litið að maturinn var ekki sérlega góður. Tónlistin sem hljómaði undir borðum var skemmtileg og vel valin, einkum gladdi það okkur að heyra á ný ómfagra raust Söndru Kim (http://www.sandra-kim.com/) lofsyngja undur lífsins, reykingar annarra gesta (sem allir virtust karlkyns) voru ekki til ama og andrúmsloft allt á staðnum eins og best verður á kosið, rólegt og afslappandi. Þeir sem kanna vilja framandi slóðir ættu því hiklaust að klífa Höfðann í góðu veðri, hvíla lúin bein og safna kröftum á ný með stóru glasi af ísköldum mjólkurhristingi eða svaladrykk.

* Árbær þessi ku vera allstór þéttbýliskjarni í fjalllendinu austur af höfuðborginni.
** Já, hann má vera ánægður með sig, sá sem fann þetta fallega og lipra nafn á spítalann!
*** Bókmenntafræðingar hafa talið hugsanlegt að hér sé um sama bláa steininn að ræða og þann sem kemur oft fyrir í ljóðum nýrómantísku skáldanna.

   (21 af 59)  
31/10/03 08:01

Órækja

Gott að heyra að ekki fóruð þið svöng af fjöllum. Ég get staðfest tilvist umtalaðst blásteins, þó ekki af eigin raun en heyrt hef ég margar sögur um hann svo ég tel fullsannað að þar inni sé einhverskonar rekstur stundaður.

31/10/03 08:01

Órækja

...að því ógleymdu að gagnrýni þín er að venju afar vel vönduð þó mögulega sé hún ekki jafn ítarleg og oft áður. Líklega kemur það til að því að veitingastaðurinn sjálfur gefur ekki tilefni til langrar umræðu.

31/10/03 08:01

Vladimir Fuckov

Eftir það sem hér hefur gengið á er það nánast eins og að koma úr leiðinda skarkala og stressi inn á rólegt og huggulegt veitingahús að lesa þetta.

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.