— GESTAPÓ —
Golíat
Heiðursgestur.
Dagbók - 2/11/03
Glansmyndir og aðrar myndir

Vísir að ferðasögu og um siðlausa brellu nútíma búðarbísnissloka.

Þannig vildi til að á föstudaginn var, átti ég alls óvænt, erindi til Rvíkur, á vegum þess stórlega ofmetna fyrirbæris sem kallað er vinna. Sá ég mér þá leik á borði að nýta ferðina í eigin þágu, gera feiknaleg jólainnkaup og kíkja á kjötmarkað Baggalútíu á Grandrokk þá um kvöldið.
Hófst nú afar vandaður undirbúningur ferðarinnar, sem fólst í því að útvega hótelherbergi út á vildarbaunir og skoða síðan vandlega alla helstu auglýsingapésa með jólatilboðum stórverslana. Samin var nákvæm áætlun, þar sem bestuð voru tilboð og afslættir mv samgöngukerfi borgarinnar og staðsetningu einstakra verslana og verslanakjarna. Svo þétt var dagskráin að heimsókn á eftirlætis kaffihúsið við Eiríksgötuna varð að víkja, ekkert pláss. Áætlunin hljóðaði upp á Rúmfatalagerinn, Elkó, Leikbæ, Hagkaup og Innrömmun Sigurjóns sem öll eru á fenjasvæði Reykjavíkur á uþb lófastórum bletti og Intersport sem stendur heldur hærra. Skemmst er frá því að segja að ekkert af því sem áætlunin hljóðaði upp á að kaupa, ekkert af því var til; ma stafræn myndavél, sjónvarpsskápur, spædermann-náttföt, íþróttataska. Og það sem meira var, í sumum tilvikum lét starfsfólkið eins og það hefði ekki heyrt getið um viðkomandi vöru fyrr en bæklingurinn með umræddu tilboði var keyrður upp í andlitið á því. Þá var málið afgreitt með því að þetta væri löngu uppselt og þó voru etv bara tveir eða þrír dagar síðan bæklingurinn var gefinn út.
Málið er að tilgangurinn með ofurtilboðum í svona bæklingum er ekki að selja það sem þar er auglýst heldur að plata fólk inn í verslanirnar. Og þegar fólk er komið í verslunina og náttúrulega í tímaþröng, þá kyngja með menn gjarnan ólundinni og óbragðinu og kaupa eitthvað annað í staðinn. Að minnsta kosti asnaðist ég til þess. En svei því. Héðan í frá versla ég bara í mínu kaupfélagi og nota frekar borgartúrana í eitthvað skemmtilegra. Þeir geta bara troðið þessu litprentuðu bæklingum sínum þangað sem þeir eiga heima.
En á Grandrokk var allt með öðrum blæ. Kvöldið stóð fyllilega undir væntingum. Ekki þannig að 18 barna faðir úr Álfheimunum hefur frekar óljósar væntingar til svona samkoma og var ekki öldungis klár á að rétt væri að láta sjá sig, en forvitnin hafði yfirhöndina of þakka ég henni það hér með. Og þið sem mættuð, takk fyrir.
Þökk þeim er lásu.
Golíat

   (14 af 30)  
2/11/03 20:01

Þarfagreinir

Já, takk sömuleiðis! Þetta var nokkuð fínt.

2/11/03 20:01

bauv

Skál.

2/11/03 20:01

bauv

Þú átt samt að geta fengið svona límmiða hjá Póstinum og látið hann á dyrnar þá á enginn ruslpóstur að koma inn.

2/11/03 20:01

Lómagnúpur

Ég er með svoleiðis, það virkar ósköp takmarkað. Mikið af þessum pésum eru nefnilega lymskulega faldir inni í dagblöðum. Sveitattan!

2/11/03 20:01

Lómagnúpur

Jahérna og obbosí! Misti ég af bagglýzkri samkomu á Grandrokki?

2/11/03 20:01

Þarfagreinir

Svo virðist vera, því miður.

2/11/03 20:01

Heiðglyrnir

Allt er nú gott sem endar vel, skál fyrir því.

2/11/03 20:01

bauv

Skál.

2/11/03 20:01

Kynjólfur úr Keri

Ég fékk boð en komst ekki. Og það sem merkilegra er, ég hef ótrúlega lítið fundið um samkomuna hér á Gestapó.

2/11/03 21:00

Jóakim Aðalönd

Þetta var fínt.

2/11/03 21:01

Gvendur Skrítni

Bjóða Elko ekki upp á vöruvernd? þ.e. að auglýst vara sé til í x-daga á eftir? Elko er að mínu viti eina vitið í þessum raftækjabissniss

Golíat:
  • Fæðing hér: 13/10/03 10:42
  • Síðast á ferli: 4/2/19 13:04
  • Innlegg: 7464
Eðli:
Haldinn óþolandi samkeppnisanda.
Fræðasvið:
Garðvísindi, mótauppsláttur og almennir hleypidómar.
Æviágrip:
Prestssonur frá Stökustað í Sinnisveit. Byrjað þar að sitja fé og spinna ull 6 vetra. Fór til sjós 12 vetra að loknu 3 mánaða ströngum farskóla. Er þar enn, enda í góðu plássi hjá Birni "tryllta" Böðvarssyni á teinæringnum Hafgúunni frá Dritvík.