— GESTAPÓ —
Glúmur
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 9/12/09
Ó, mitt áður fríða þjóðþing, hve aum er þín ásjóna!

Þetta var ritað fyrir margt löngu síðan. Á tíma þegar siðrofið 2007 var enn langt undan. Mér þykir þetta þó eiga það vel við í dag að ég ákvað að endurlífga þessa skoðun mína.

Mínir kæru samferðamenn.

Mjög hryggir það mig að sjá hversu illa er komið fyrir æru ráðamanna vorra. Ég man þá tíð er menn sáu sóma sinn í málefnalegri umræðu, leituðust við að komast að niðurstöðu ásættanlegri fyrir alla, báru hag ungrar þjóðar fyrir brjósti og lögðu nafn sitt að veði um að vera sér og sínum til sóma hvar sem þeir fóru. Nú er svo komið að ekkert er eftir nema belgjandi sjálfsálit sem vaða uppi í villu og svima um eigið ágæti. Fólk sem keyrir sínar eigin ætlanir í gegnum þing af miklum þunga og hraða, helst í skugga frá augliti kjósenda. En hunsar á sama tíma að leysa úr brýnni neyð kjósenda.

Menn túlka stjórnarskránna eftir hentugleik og leitast eftir fremsta megni um að treysta völd sín yfir dómstólum. Lítilmenni sem líta á vald sitt sem þjóðkjörnir fulltrúar vorra Íslendinga sem þeirra eigið vald til að beita eftir eigin geðþótta. Eftir að kjöri er náð virðist allt snúast tvo hluti, skrapa auð til hollvina og hanga á völdunum með öllu móti. Hverjir eru þessir menn sem starfa í okkar umboði og hverra atbeina ganga þeir?

Þessir fyrirlitlegu skítbuxar er sitja beggja vegna borðsins á hæstvirtu alþingi vorra Íslendinga hafa ekki unnið sér inn snefil virðingar af minni hálfu. Eiginhagsmunaseggir, peningapotarar og æruleysingjar sem virðast líta á kjósendur sem megna óáran sem þarf að villa um fyrir á fjögurra ára fresti. Litlir menn sem þykjast hafnir yfir lög og hafnir yfir stjórnarskrá lýðveldisins.

Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða!

Flokkadrættir eru orðnir svo óbærilegir og vald einstakra manna yfir hópi þingmanna svo skammarlegt að einungis ein lausn virðist fær, hér þarf að gera byltingu!

Stjórnmálaflokkar eru orðnir mesta ógn við lýðræði og vilja fólksins sem við lifum við í dag. Kerfið er rotið og úrelt og það þarf að uppræta það. Á þing vorra Íslendinga skulu kjörnir einstaklingar, ekki valdablokkir heldur einstaklingar, til að þjóna vilja fólksins. Fólk skal, í stað þess að ljá stjórnmálaflokki atkvæði sitt, ljá það ákveðnum einstaklingum. Þeir einstaklingar eru þá frjálsir til að fylgja sannfæringu sinni og loforðum á þingi og þurfa ekki að lúta höfði að tilskipan sér hærri herrum innan stjórnmálaflokks.

Ég segi; megi stjórnmálaflokkarnir drukkna í því pólitíska mýrardíki sem þeir hafa skapað sér, upp rísi nýtt lýðræði sem endurspegli vilja þjóðarinnar, þar sem leiðtogar séu í beinu umboði kjósenda sinna til að fylgja sannfæringu sinni eins og þeim er boðað í stjórnarskrá okkar allra.

Af dýpstu auðmýkt og virðingu fyrir vorri þjóð,

Glúmur Angan

   (2 af 24)  
9/12/09 21:02

Golíat

Gæti ekki verið meira ósammála.

9/12/09 21:02

Regína

Þetta er allrar athygli vert.

9/12/09 22:00

Huxi

Þetta ástand kallar enn einu sinni á svar við hinni knýjandi spurningu. Hvenær ætlar Baggalútíska heimsveldið að yfirtaka stjórn Íslands?

9/12/09 22:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Takk fyrir góðan pistling. Tæplega verður betur séð en að flokkarnir séu einmitt á góðri leið með að drukkna í téðu mýrardíki um þessar mundir.

9/12/09 22:01

Blöndungur

Í þessu félagsriti grúir allt af yrðingum, fullyrðingum og staðhæfingum. Sumar er persónulegs eðlis, aðrar hæpnar, sumar beinlínis ósannreynanlegur uppsláttur; sumum er ég sammála, öðrum ekki.
Félagsritið fær plús fyrir að hafa fjórfalt lengri (í orðum talið) inngang að ósannanlegum fullyrðingnum en leiðarar Fréttablaðasins; og einnig fyrir að hafa gott slagorð miðjunni.

Efnislega þá vil ég benda á, að eina leiðin til að hafa ekki listakosningar, er að hafa hreinlega ein- (eða tví-) menningskjördæmi. (Eðlilega yrði þá Flóinn sér í kjördæmi. Ekki færi ég að kjósa einhverja Hreppaleppa eða Suðurnesjasauði. -Bl.) Þá er það spurning, hvort það yrði betra eða verra að þingmenn úr slíkum einmenningskjördæmum bindust í flokka. Í raun er það mjög eðlilegt, að þeir gerðu það; nútímasamfélag er bæði flókið og margþætt og þessvegna afar þægilegt að hver og einn þingmaður þurfi ekki að taka sjálfstæða og upplýsta afstöðu til allra mögulegra mála, heldur fáist við það sem hann kann skil á, og hlýði svo góðum ráðum félaga sinna í öðrum málum.
Að öðru leiti er ég sammála pistlingnum.

Hvað varðar mýradíki flokkanna; já, það er von að við óskum þess að þeir steypist ofan í blótkeldu tímans. - Það ætti að vera sæmilegur jarðvegur fyrir upprisu Jónasar frá Hriflu og þúsundáraríki samvinnumanna.

9/12/09 23:00

Lopi

Einn vinur minn,stjórnmálafræðingur segir að alþingismaðurinn gangi með ráðherrann í maganum. Því ráðherrann hefur svo mikil völd. Þess vegna keppast þingmennirnir við það að vera góðir og hlýðnir við ráðherrana svo þeir komist hærra upp stigann að ráðherranum. Sammála honum og er viss um að það sé krabbameinið í stjórnkerfinu sem mun leiða það til dauða.

10/12/09 00:01

Þarfagreinir

Ég er alls ekki á því að flokkakerfið sem slíkt sé ónýtt í eðli sínu. Sem rök fyrir því nægir að benda á að enn eru flokkakerfi í langflestum lýðræðisríkjum heimsins, og það virðist ganga ágætlega í flestum tilfellum. Nei, ég held að skýringin sé flóknari en svo, og að það skapi hugsanlega fleiri vandamál en það leysir að láta kosningar snúast um einstaklinga eingöngu í stað flokka.

Vandinn felst aðallega í þeim flokkum sem nú ráða ríkjum, og fortíð þeirra. Þeir eru fastir í sama ómálefnalega flokkakarpsfarinu og þeir hafa allt of lengi verið í, en eitthvað er hefur þetta stigmagnast eftir hrunið. Þarna hangir yfir flokkunum fortíð sem er enn fyllilega óuppgerð, og mikið púður fer í að 'ræða' (lesist: kasta skítabombum hver í annan um hver ber nú ábyrgð á hverju úr fortíðinni). Auðvitað hlýtur þetta að skemma fyrir málefnalegri umræðu og því að hægt sé að horfa fram á veginn.

Ég er á því að uppgjör við hrunið eigi að fara fram að mestu leyti utan þingsins, enda er þingið vanhæft til að taka á því máli. Það sést mjög vel á því hvað hefur gerst eftir að þau mál hafa komið til kasta þingsins. Skýrsla RNA var mikið þrekvirki og í raun einstakt í stjórnmálasögunni - einmitt af því að þar fékk fólk frið fyrir þingmönnum og hagsmunum til að vinna sína vinnu. Miklu skynsamlegra væri að vinna áfram eftir þeirri braut; hlutverk þingsins væri þá bara að skipa fleiri rannsóknarnefndir af sama toga - enda er það nokkurn veginn það sem er í bígerð, að Landsdóminum undanskildum, enda er það hann sem stendur hvað verst í sumum hrunsflokkaþingmönnum.

Annað sem þyrfti að gerast væri að á sjónarsviðið kæmu nýir og ferskir flokkar sem geta mótað sér stefnu frá grunni. Sú stefna mætti þess vegna vera að mestu leyti gömul í raun, en aðalaatriðið er að fá inn nýtt fólk, og fyrst og fremst ný vörumerki og formerki almennt. Vörumerki gömlu flokkanna er í raun að mestu ónýt. Nú er ég ekki að hugsa þetta út frá einhverjum froðukenndum ímyndar- og markaðsrannsóknarforsendum; þetta er bara praktísk staðreynd sem erfitt er að neita. Það er einnig praktísk staðreynd að nýir flokkar væru raunhæfur vettvangur til málefnalegrar stefnumótunnar í stað gömlu flokkadráttanna.

Ef þetta tvennt gerist held ég að það verði engin þörf á að endurskoða flokkakerfið sem slíkt.

10/12/09 00:01

Þarfagreinir

Annars er ég líka sammála Lopa, og vil jafnvel víkka þetta út. Það vantar almennt séð hugsjónafólk á þing; þetta eru að allt of miklu leyti ómálefnalegir og valdafýsnir sprelligosar sem eru þarna út frá sínum eigin hagsmunum fyrst og fremst. Þar vil ég ekki síst kenna prófkjörunum um, sem ala á átökum innan flokka og verðlauna hina valdasæknu. Í stuttu máli þá búa prófkjörin til atvinnupólitíkusa sem þekkja ekkert nema hið pólitíska karp. Sjaldgæft er að einhver sem hefur reynslu og þekkingu annars staðar frá komi á gamals aldri inn á þing í gegnum prófkjör - enda hví ætti einhver sem er vel settur þar sem hann er að ákveða að söðla um og hætta því öllu í tímafreku og kostnaðarsömu prófkjöri upp á óvissan ávinning?

Prófkjörin eru bastarður; þau blanda saman því versta úr bæði flokkakerfinu og einstaklingskjörskerfinu.

10/12/09 00:01

Þarfagreinir

Í raun færir félagsritshöfundur rök fyrir því sjálfur í titli félagsritsins að flokkakerfið er ekki rót vandans; hann kallar þjóðþingið 'áður frítt', sem þýðir að þetta virkaði betur áður - en þá var einmitt líka flokkakerfi hér við lýði.

10/12/09 06:01

Texi Everto

Við að lesa þessa "frétt" þá varð mér strax hugsað til þessa rits
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/30/iskalt_vidmot_a_thinginu/

31/10/09 01:00

Þarfagreinir

Já, Glúmur var þarna rétt á undan bylgjunni. Skeleggur samfélagsrýnir, hann Glúmur.

31/10/09 09:01

Sannleikurinn

Ég segi einfaldlega - sá sem brýtur lögmálið verður sjálfur brotinn af því til baka - þannig er lögmálið. Annars sé ég lítinn tilgang með lögum sem enginn getur farið eftir og stjórnmálastefnum sem enginn nennir að hlusta á á Íslandi.....
Til hvers að hafa lög og stjórnmálastefnur sem kosta okkur peningana sem við eigum að geta haft fulla stjórn á sjálf??

Glúmur:
  • Fæðing hér: 8/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 23/6/16 16:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Ég er Glúmur Angan verzlunar- og múgæsingamaður. Vertu hjartanlega velkomin(n) á þessa lítilfjörlegu síðu mína og endilega fáðu þér kaffibolla og lummu af borðinu.
Fræðasvið:
Verzlunar- og múgæsingamaður
Æviágrip:
Glúmur Angan er fæddur og uppalinn að Hálsakoti í Háadal. Ungur að árum var Glúmur fljótur upp á lag með að gera gys að jafnöldrum sínum og þótti honum þeir tregir. Varð þetta til þess að jafnaldrar Glúms forðuðust hann og óskuðu enskis frekar en að verða ekki fyrir háðslegum skætingi og níðvísum hans er síst varði, varð Glúmur fljótt vinalaus með öllu utan prestinn á Síðu sem Glúmur heimsótti oft og ræddu þeir jafnan saman heilu dægrin.Glúmur þótti duglegur til verks og þá sérstaklega höfuðverks en hann bar því tíðum við að hann gæti eigi farið út á engi eða sinnt gegningum sökum höfuðverks. Glúmur átti eigi í vandræðum með að útskíra höfuðverkinn og sagði hann vegna þess að slíkar gáfur hefði hann að hann hreinlega verkjaði í höfuðið ef hann mætti eigi huxa um eitthvað gáfulegt. Þessu trúði enginn nema presturinn á Síðu sem tæmdi safnaðarsjóðinn til þess að hægt væri að senda Glúm til náms í Lærðaskólanum. Því er skemmst frá að segja að Glúm þótti ekki mikið koma til gáfnafars kennaranna í Lærðaskólanum og sótti því enga tíma, sem varð til þess að Glúmur var rekinn úr skólanum strax á haustmánuðum. Tók þá Glúmur sér allrahanda hluti fyrir hendur og tók stefnuna á þá braut sem hann fylgdi æ síðan sem verzlunar- og múgæsingamaður.Meðal þeirra hluta sem hann var hvað frægastur fyrir var að æsa fyrrverandi bekkjarfélaga sína til að æpa "Pereat" út um alla Reykjavík þó svo að enginn þeirra vissi hvað það þýddi, slíkir vanvitar sem þeir voru, hló þá Glúmur og nuddaði saman höndunum eins og hann gerði svo oft er hann var eitthvað að bralla.Glúmur fór snemma að stunda verzlun og var fljótt farinn að standa í útflutningi. Glúmur var snjall í viðskiptum, ef ekki viðsjárverður, og varð fljótt ríkur af viðskiptum sínum þó stundum orkuðu þau tvímælis. Danska krúnan varð til dæmis að grípa fram fyrir verzlun Glúms í Danmörku þegar hann varð uppvís af því að hafa selt reyðinnar býsn af mjöli til Dana sem síðar kom í ljós að var ekkert annað en vikur og jafnvel alvarlegra var hversu margir veiktust eftir að Glúmur seldi Dönum móköggla sem þrumara. Enn þann dag í dag eru verzlunarsvik Glúms kennd í grunnskólum í Danmörku og á hann væntanlega stóran þátt í því hversu mjög Danir eru kvekktir og varir um sig í návist Íslendinga.Glúmur var í seinni tíð virtur galdrabrennu forkólfur og "ÚltraKóbalt" veldi hans var stórt í sniðum.