— GESTAPÓ —
Glúmur
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 2/11/04
Erlent vinnuafl

Mæla þarf fleira en fagurt þykir.

Í fyrsta lagi vil ég taka fram að hver sá sem hallmælir fólki á grundvelli þess hvar það er fætt eða þaðan af heimskulegri fordómum skal eiga mig á fæti.
Mér leiðist þessi gamla hækja að hallmæla erlendu fólki vegna þess að það sé að stela vinnunni okkar.
Á vinnumarkaði skipar erlent vinnuafl svipaðan sess og vinnuafl unglinga, þeir fá lá laun, vinna oft líkamlega eða einhæfa vinnu og eiga iðulega við tjáskiptavandamál að stríða. Sumir vinnustaðir nýta að mestum hluta erlent vinnuafl og aðrir að mestum hluta unglinga. Þegar her af ungu fólki "stelur" vinnunni á kassanum í Hagkaupum eru þá einhverjir sem kvarta yfir því? Það hef ég ekki orðið var við. Afhverju mega þá unglingarnir leggja undir sig heilu vinnustaðina á lágum launum en ekki útlendingar? Jú, því þetta eru íslenskir unglingar er það ekki? Ísland fyrir Íslendinga er þar viðlagið sem fólk virðist dilla sér í takt við. Slík lítilmennska og aumingjaháttur hefur alltaf gert mér gramt í geði. Ísland er fyrir skynsamt, duglegt og úrræðagott fólk. Þannig hefur það alltaf verið. Fólk verður að átta sig á því að Ísland er bara lítið þorp í heiminum. Gerið ykkur nú í hugarlund lítið sjávarþorp þar sem íbúum þorpsins finnst gróflega að sér vegið þegar fólk úr næsta þorpi eða jafnvel höfuðborgarsvæðinu kemur til að vinna í frystihúsinu. Íbúar þorpsins hafa hátt um að þetta aðkomufólk séu bara letingjar og hafi engan rétt til að stela störfunum úr frystihúsinu ÞEIRRA, engir aðrir en þeir sem fæddir séu í þorpinu hafi rétt á að vinna í frystihúsinu. Það er svona smáþorpara þankagangur sem ég sé í Íslendingum sem tala um að útlendingar séu að koma til landsins að stela störfunum OKKAR.
Það að útlendingum séu borguð lág laun ER hinsvegar vandamál og það þarf að vinna betur í þeirra málum og af meiri hörku. Það verður að sameina útlendinga í öflugum samtökum sem geta látið til sín taka. Eins og komið hefur verið inn á þá eru margir vinnustaðir að mestu skipaðir erlendu starfsfólki á lágum launum. Ég sé ekkert vandamál í erlendu starfsmönnunum, þeir vinna sína vinnu, engir fá að fjúka jafn fljótt úr vinnu eins og erlendir starfsmenn sem standa sig ekki, margir þurfa ekki að gera annað en að neyta lögbundins réttar síns til að vera sparkað af hinum heillandi íslensku vinnuveitendum sínum. Þar sem ég sé að vandamál er til staðar er í þessum lágu launum, það þarf að hækka lágmarkslaun verulega. Ef útlendingum eru tryggð jafn góð laun og öðrum þá geta þeir ekki stolið störfum með því að þiggja lægri laun en aðrir er það? Ef þeim er borgað undir lágmarkslaunum þá er við vinnuveitandann að sakast, ekki útlendingana og vinnuveitandann ber að lögsækja. Um leið og útlendingar eru á jöfnum launagrundvelli þá munu þeir verða að "stela" störfunum okkar með því að vera betri starfsmenn en aðrir og ekkert myndi gera mig ánægðari en að sjá íslensk fyrirtæki skipuð besta starfsfólki sem völ er á. Því Ísland í heild er auðvitað bara eins og eitt fyrirtæki, þjóðin getur ekki hagnast nema að hún framleiði eitthvað og til að auka framleiðnina er mikilvægt að fyrirtækin séu skipuð topp starfsfólki. Með því að hækka lægstu launin og auka þannig launajafnrétti þá minnkar það að slappir starfsmenn séu ráðnir vegna þess að þeir þiggja lág laun.
Þeir hæfustu skulu ráðnir segi ég, það er öllum til bóta þegar til lengri tíma er litið. Séu þeir hæfustu erlendir, þá frábært, það er gott spark í rassinn ef íslenskumælandi fólk telst ekki lengur hæfast í íslensk störf. Aðal atriðið er að TRYGGJA að fólk standi á jöfnum grundvelli og að viðurkenna að það að þykjast vera rétthærri eða á einhvern hátt æðri útlendingum vegna þess að við erum komin af Íslendingum kallast ekki stolt, það er til annað og ógeðfelldara orð yfir slíkar kynstofnapælingar.

   (16 af 24)  
2/11/04 02:00

Hakuchi

Mæltu manna heilastur Glúmur minn. Skál!

2/11/04 02:00

Nafni

"Þegar her af ungu fólki "stelur" vinnunni á kassanum í Hagkaup..."

Sona sona Glúmur sæll, blessaður láttu ekki gífuryrta fasistana halda að þeir ráði röndóttu. Þeim hjá Hagkaup...um er nokk sama hverjum þeir borga lúsarlaunin.

2/11/04 02:00

Jóakim Aðalönd

Jamm. Hverjum ordum sannari.

2/11/04 02:00

Bölverkur

Mig langar meir að sofa hjá aískum nýbúa en Blóðugt, Norninni og Sölku. En, helzt vildi ég sofa hjá þeim öllum, En, samt, beztu þakkir.

2/11/04 02:00

Glúmur

Æ, fjandinn, þetta gengur ekki, nú verð ég að breyta félagsritinu. Þetta var jafn asnalegt og ef ég hefði sagt "Fólk sem vinnur í Krónan". Takk Nafni.

2/11/04 02:01

Offari

Sæll Glúmur ég tel mig vita hver hefur hvatt þig til að skrifa þetta rit og vil ég þakka þér því ég ætlaði að fara skrifa sjálfur um útlendinga hatur mitt. Sjálfu sér hata ég ekki þessa erlendu starfsmenn enda er ég að vinna með mörgum en ástandið sem komið er hata ég. Áður en ég flutti mig hingað í góðærið á Sómastöðum bjó ég í litlu þorpi á norðurlandi var með sjálfstæðan atvinniuresktur sem þoldi ekki samkeppni við þá aðila sem höfðu ódýrt erlent starfsfólk til starfa hjá sér, ég þurfti að segja upp ágætis starfsfólki og sækja sjálfur um atvinnuleysisbætur. Þegar ég fór að leita mér að vinnu rakst ég á vegg þó svo að ég væri fjölhæfur var ekkert að hafa.
Þó var ein fiskvinsla sem var að auglýsa eftir starfsfólki og fór ég þangað og sótti um þó svo að ég hefði ekki mikin áhuga þá var ég dottin í þunglyndi og varð að fara vinna mig upp úr því. Atvinnurekandi þessi tjáði mér að hann væri að leita að fínhentu starfsfólki og hann hefði ekki þörf fyrir svona grófhenta menn. Tók ég þetta svar gott og gilt, nokkrum dögum seinna fékk ég bréf þes efnis að atvinnuleysisbætur yrðu teknar af mér sökum þess að ég hafði hafnað atvinnuboði frá fyrrgreyndum aðila, nú var ég hissa enda taldi mig saklausan hringdi í veerkalýðsfélagið og sagði þeim mína sögu.
Stuttu seinna hringdi þessi atvinnurekandi í mig og sagði að ég gæti fengið vinnu þó mætti ég vita það að hann þurfti að senda einn útlending heim til að koma mér að þar sem að hann fengi ekki framlengt atvinnuleyfið ef að Íslendingur sóttist eftir hans starfi. Þáði ég þessa vinnu en ekki var ég vel liðin á þessum vinnustað enda ekki æskilegur fékk bara 8 tíma vinnu meðan erlenda starfsfólkið fékk alla yfirvinnuna. Þetta var eflaust ágætis fólk allt saman en þar sem ég skildi ekkert nema illt augnaráð þeirra leið mér illa í þessari vinnu.
Því fór ég að leita mér að annari vinnu leit sú endaði með flutning austur til Sómastað þar sem góðærið blómstrar lenti þar í bullandi vinnu 40 stunda vinnudag með átta tíma hvíld á viku. Gafst þú upp þegar dóttir mín sagði mömmu sinn að það væri úlfur í rúminu. Réði mig annarstaðar með mun hærri laun enda lífshættuleg vinna svo einn góðan veðurdag lækkuðu launin. Fór ég þá arga vitlaus í staðarstjórann og spurð hverju þetta ætti að sæta hann sagðist geta fengið pólverja fyrir minni pening og því ástæðulaust að borga meira en þörf er á. Yfirvinnan var tekin af mér í refsingarskini og aftur fór ég að leita að vinnu enda mér orðið óbært á þessum vinnustað.
Nú vantaði sko fullt af fólki til starfa atvinnuauglýsingar á hverri síðu þó með smáletrinu að Pólsku kunnátta væri æskileg. Fékk þó vinnu þó að ég kunni bara að kúrfa á Pólsku. Veit alveg að ég er sem betur fer ekki eins og fólk er flest og hef ekki sömu skoðanir og þú samt gremst mér aðgerðaleysi stjórnvalda og stéttarfélaga gagnvart þessum starfsmannaleigum sem ekki eiga að vera til punktur basta verð að fara hætta að ergja þig enda ertu góður maður en ég fæ slæma samvisku af mínum hug. Takk fyrir góðan pistil get huggað þig við það eð ég held að ég sé ekkert tekin of allvarlega hér

2/11/04 02:01

Glúmur

Já Offari, hvernig heldurðu að þín mál væru ef lágmarkslaun væru 130þúsund og erlent starfsfólk fengi jafn góð laun og innlent? Það er vandamál til staðar ég er ekki að þræta fyrir það, ég vil bara benda fólki á að vandamálið er alls ekki fólgið í erlendu starfsfólki heldur lélegri löggjöf, slöku eftirliti, lágum launum og óheiðarlegum vinnuveitendum.
Nú hefur um nokkurt skeið verið leitast við að tryggja að konur fái ekki lægri laun en karlar. Þó það eigi langt í land þá er það stefna sem ætlunin er að framfylgja. Þessvegna finnst mér það liggja beint við að tryggja á sama hátt að erlent og innlent vinnuafl njóti sömu launa. Módelið er til staðar, það eina sem vantar er framtakssemi og hugaðir einstaklingar.

2/11/04 02:02

Offari

Hvar finnum við ofurhugana? Ríkisvaldið þorir ekki að hreyfa við málinu af ótta við tafir við virkjunarframkvæmdir. Verkalýðshreyfingin getur ekkert gert þar sem samstaðan er lömuð. Atvinnrekendur verða annaðhvort að fylgja straumnum eða deyja út. Ef ekkert er gert heldur áfram að krauma í pottinum og á endanum sýður upp úr.

2/11/04 02:02

Limbri

Þegar þið lærið aðeins meira í þjóðhagfræði munið þið komast að því að umtalsverð hækkun lágmarxlauna hefur ekki endilega í för með sér aukna velmegun nokkurs einasta kjafts. Í raun eru meiri líkur á að hagur versni ef stór skref eru tekin í einu.

Ef þið virkilega haldið að stjórnvöld vilji hinum almenna borgara illt þá held ég að þið séuð ansi veruleikafyrrt.

Erlennt vinnuafl er nauðsynlegt á mörgum stöðum vegna snobbs og aumingjaskapar í íslendingum. Ég hef verið í stjórnandastöðu hjá stóru fyrirtæki á Íslandi og kynntist náið hversu erfitt það er að fá íslendinga til að vinna þau störf sem almennt gefa af sér lágmarkslaun. Þó er rétt að ég taki það fram að fyrirtækið sem ég vann fyrir borgaði vel yfir taxta. Íslendingar voru bara of snobbaðir til að þyggja störfin sem þeim voru boðin. (Sjálfur hóf ég störf mín hjá fyrirtækinu sem "gólfþræll" og vann við hvert einasta skítastarf sem var otað að mér þar, svo ég veit vel hvað ég er að tala um.)

En vissulega eru tvær hliðar á öllum málum. Ég þykist heldur ekki vera alvitur og ykkur er fullkomlega frjálst að hafa aðrar skoðanir en ég.

-

2/11/04 03:00

Mjási

Jæja kæru vinir.
Hver er svo niðurstaðan?
Er það eggið eða hænan sem er sökudólgurinn?
Personuleg held ég að það sé varpkassinn.

2/11/04 03:00

Hildisþorsti

(Kem með þetta svar aftur úr öðru fjelagsriti.)

Ég held að ég sé sammála hverju orði hjá Glúmi. Mér bregður alltaf þegar ég heyri í einhverjum mér nákomnum tala niðrandi um einhverja hópa fólks.

Ég ætla ekki að fara að halda því fram að ég sé einhver engill í þessum efnum. Ég hef oft staðið mig að því ef ég er staddur á suðrænum slóðum að ég tékka ósjálfrátt hvort ég sé ekki með peningaveskið á mér ef ég sé sígauna. Í fyrra hlotnaðist mér svo sá heiður að kynnast sígaunum persónulega og áttaði mig á því að auðvitað eru sígaunar ekkert öðruvísi en ég. Þeir hafa sömu drauma og væntingar. Það sem kveikir á fordómunum er bara það að það er misjafn sauður í mörgu fé.

Ég er íslendingur og alinn upp við það að bera virðingu fyrir öðrum manneskjum. Ég blæs á þær skoðanir að útlendingar "steli" af okkur vinnuni. Ég veit ekki betur en þeir hafi skapað vinnu líka. Sjáið t.d. alla veitingastaðina sem orðið hafa til fyrir tilstilli útlendinga. Værum við kannski ennþá að éta saltaða keilu ef ekki hefði komið hingað fólk af erlendum uppruna?

Svo má líka segja að verkalýðsfélögin okkar mættu vera sterkari. En sumir halda því fram að við "séum" verkalýðsfélögin. Það má svosem alveg færa rök fyrir því en mesta meinið er þó að mínu mati þessi launaleynd sem virðist viðgangast allstaðar. Jafnvel hjá ríkinu. Launaleyndin gerir það að verkum að verkalýðsfélögin hafa ekkert til að miða við.

Í athugasemdinni sem offari kom með kemur sannalega fram að ekki er við erlenda vinnuaflið að sakast þó hann fái ekki vinnu þar sem vinuveitendur komast upp með að borga þræla laun.

Svo má bæta því við að ég hef í mínu eigin landi orðið fyrir kynþáttafordómum sem leiddu til líkhamlegra meiðinga. Ég verð að segja það að sú tilfinning að upplifa það var fyrst undrun en svo eftir á mikil vanmáttarkennd. Það er óþægileg tilfinning.

2/11/04 03:01

Litli Múi

Alveg sammála þér í þessum málum Glúmur. Margir atvinnurekendur eru allt of nýski á a borga starfsmönnum sínum vel, ég vann hjá einu slíku fyrirtæki að nafni skúrítas. Ég stóð mig feikna vel þrátt fyrir að vera að fá skítalaun og fékk ég oft hrós fyrir frammistöðu mína. Einn daginn ákvað ég að fara að biðja um hærri laun, auðvitað hélt ég að ég mundi fá þau vegna þess hversu vel ég stæði mig, en allt kom fyrir ekki. Ég skil ekki í atvinnurekendum að vilja ekki borga góðu fólki góð laun, frekar vilja þeir skipta um starfsmenn oftar en þeir skipta um óhreinar nærbuxur og þar með missir fyrirtækið orðsporið fyrir léleg vinnubrögð því þegar alltaf streyma nýjir starfsmenn inní fyrirtækið sem kunna ekki neitt. Þannig að ég segji góð laun fyrir gott fólk og þá mun fyrirtækið blómstra.

2/11/04 05:00

Jóakim Aðalönd

Jamm, Straetó er gott daemi um slíkt.

Glúmur:
  • Fæðing hér: 8/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 23/6/16 16:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Ég er Glúmur Angan verzlunar- og múgæsingamaður. Vertu hjartanlega velkomin(n) á þessa lítilfjörlegu síðu mína og endilega fáðu þér kaffibolla og lummu af borðinu.
Fræðasvið:
Verzlunar- og múgæsingamaður
Æviágrip:
Glúmur Angan er fæddur og uppalinn að Hálsakoti í Háadal. Ungur að árum var Glúmur fljótur upp á lag með að gera gys að jafnöldrum sínum og þótti honum þeir tregir. Varð þetta til þess að jafnaldrar Glúms forðuðust hann og óskuðu enskis frekar en að verða ekki fyrir háðslegum skætingi og níðvísum hans er síst varði, varð Glúmur fljótt vinalaus með öllu utan prestinn á Síðu sem Glúmur heimsótti oft og ræddu þeir jafnan saman heilu dægrin.Glúmur þótti duglegur til verks og þá sérstaklega höfuðverks en hann bar því tíðum við að hann gæti eigi farið út á engi eða sinnt gegningum sökum höfuðverks. Glúmur átti eigi í vandræðum með að útskíra höfuðverkinn og sagði hann vegna þess að slíkar gáfur hefði hann að hann hreinlega verkjaði í höfuðið ef hann mætti eigi huxa um eitthvað gáfulegt. Þessu trúði enginn nema presturinn á Síðu sem tæmdi safnaðarsjóðinn til þess að hægt væri að senda Glúm til náms í Lærðaskólanum. Því er skemmst frá að segja að Glúm þótti ekki mikið koma til gáfnafars kennaranna í Lærðaskólanum og sótti því enga tíma, sem varð til þess að Glúmur var rekinn úr skólanum strax á haustmánuðum. Tók þá Glúmur sér allrahanda hluti fyrir hendur og tók stefnuna á þá braut sem hann fylgdi æ síðan sem verzlunar- og múgæsingamaður.Meðal þeirra hluta sem hann var hvað frægastur fyrir var að æsa fyrrverandi bekkjarfélaga sína til að æpa "Pereat" út um alla Reykjavík þó svo að enginn þeirra vissi hvað það þýddi, slíkir vanvitar sem þeir voru, hló þá Glúmur og nuddaði saman höndunum eins og hann gerði svo oft er hann var eitthvað að bralla.Glúmur fór snemma að stunda verzlun og var fljótt farinn að standa í útflutningi. Glúmur var snjall í viðskiptum, ef ekki viðsjárverður, og varð fljótt ríkur af viðskiptum sínum þó stundum orkuðu þau tvímælis. Danska krúnan varð til dæmis að grípa fram fyrir verzlun Glúms í Danmörku þegar hann varð uppvís af því að hafa selt reyðinnar býsn af mjöli til Dana sem síðar kom í ljós að var ekkert annað en vikur og jafnvel alvarlegra var hversu margir veiktust eftir að Glúmur seldi Dönum móköggla sem þrumara. Enn þann dag í dag eru verzlunarsvik Glúms kennd í grunnskólum í Danmörku og á hann væntanlega stóran þátt í því hversu mjög Danir eru kvekktir og varir um sig í návist Íslendinga.Glúmur var í seinni tíð virtur galdrabrennu forkólfur og "ÚltraKóbalt" veldi hans var stórt í sniðum.