— GESTAPÓ —
Hertoginn
Fastagestur með  ritstíflu.
Saga - 6/12/10
Maðurinn með ógnarstóra græna höfuðið.

Flökkusaga fyrir börn á öllum aldri.

Eitt sinn gekk ég út á biðstöð fyrir strætisvagna, á leið minni á Kaffi Blút. Sat þar maður, sem ekki væri í frásögur færandi, nema fyrir það að hann var með ógnarstórt grænt höfuð. Þó að þetta vekti hjá mér mikla furðu og forvitni ákvað ég að láta sem ekkert væri, fékk mér sæti við hlið hans, og hóf biðina eftir vagninum. Ekki gat ég þó að því gert að gjóa augunum öðru hverju á ógnarstóra græna höfuðið við hliðina á mér, en reyndi þó að gera það lymskulega. Eftir nokkrar mínútur sneri maðurinn sér að mér og sagði:
„Jæja, spurðu þá.“
Ég hváði: „Ha? Spyrja um hvað?“
„Um ógnarstóra græna höfuðið sem þú ert núna búinn að vera að gjóa augunum á eins lymskulega og þú getur í nokkrar mínútur.“
„Allt í lagi,“ sagði ég, „hvers vegna ertu með svona ógnarstórt grænt höfuð?“
Hann glotti og sagði: „Já, það er sko saga að segja frá því. Eitt sinn var ég á ferðalagi um Arabalönd, og þurfti að leita skjóls í helli undan óvæntum sandstormi. Eins og við má búast fann ég þar töfralampa sem ég nuddaði (ég hef sko lesið Alladín) og spratt þá fram andi sem bauð mér þrjár óskir. Ég þurfti ekki mikinn tíma til að ákveða mig. Í fyrstu óskinni bað ég hann að veita mér risastóra höll, þar sem bílskúrinn væri áttfaldur og innihéldi bara svakalega sportbíla, sundlaug væri á baklóðinni með heitum pottum, þjónustulið á staðnum, margra ára birgðir af Hexíu-kakói, Blút, fagurbláum drykkjum og alls kyns góðgæti í búrinu, og fjársjóðsgeymsla í kjallaranum full af peningakistum, gimsteinum og gulli og fágætum listmunum. Áður en ég vissi af var ég horfinn úr hellinum og stóð fyrir framan heljarstóran kastala, nákvæmlega eins og ég hafði ímyndað mér.“
Þegar hér var komið sögu kom strætisvagninn minn akandi, og ég spurði manninn með ógnarstóra græna höfuðið hvort hann væri á sömu leið og ég. Ég mátti nefnilega ekki við því að missa af vagninum ef ég ætlaði að komast á Kaffi Blút fyrir lokun. Sem betur fer játti hann því, við fórum upp í vagninn og settumst, og hann hélt áfram með söguna:
„Nú, þá hafði ég fengið fyrstu óskina uppfyllta. Önnur óskin mín var á þá leið að ég óskaði þess að vera kvæntur ótrúlega fallegri konu, andlitsfríðri, með svakaleg brjóst og yndislegan kúlurass og sítt ljóst hár, og það eina sem hún vildi gera væri að elda fyrir mig uppáhaldsmatinn minn, nudda mig, kyssa mig og kjassa og spila Lúdó með mér fram á nótt og vakna svo og elda morgunmat. Og viti menn, áður en ég vissi af var ég kominn með giftingarhring á fingur og á móti mér stóð dís allra minna drauma, hávaxin bomba sem horfði á mig girndaraugum og brosti svo fallega til mín að það var eins og fiðrildi flögruðu um mig allan að innan.“ Hér hef ég stytt frásögn mannsins með ógnarstóra græna höfuðið þó nokkuð til að gæta velsæmis, þar sem lýsing hans á konunni sem hann óskaði sér og á því hvað þau tóku sér fyrir hendur þegar hún birtist var ansi löng, og uppfull af alls kyns smáatriðum sem gætu farið fyrir brjóstið á viðkvæmum sálum. Hann var ennþá að lýsa því þegar ég sá að við vorum að koma að stoppistöðinni minni svo ég greip fram í fyrir honum:
„Ekki halda að ég hafi ekki gaman af þessum ítarlegu lýsingum, en hvað var það eiginlega sem þú óskaðir þér í þriðju óskinni?!“
Hann leit á mig með furðusvip og sagði forviða: „Nú, auðvitað óskaði ég þess að ég hefði ógnarstórt grænt höfuð!“

   (1 af 1)  
3/12/10 23:00

Regína

Væki? Framþróun íslensku? [Ljómar upp]
Aumingja konan hans, hvers átti hún að gjalda ...

3/12/10 23:00

Hertoginn

Hah! Já ég var einmitt að fara að laga þetta þegar ég var truflaður, slapp næstum. Helvítis raunheimapakk að hringja alltaf í mig.

3/12/10 23:01

Hvæsi

Offari er alltaf hress.

3/12/10 23:01

Huxi

Ekki vissi ég að Sómastaðir væru heljarstór kastali. Kannski að hann sé líka að skrökva þessu með ljóskuna...

3/12/10 23:01

Offari

Ég sem hélt að ég væri að tala við þig undir fjögur augu.

4/12/10 00:00

Grýta

Ljómandi frásögn um hann Offara okkar.

4/12/10 00:02

Hertoginn

Ég biðst forláts kæri Offari, eftir mikið sálarstríð og glímu við eigin samvisku ákvað ég að ég gæti ekki haldið þessu fyrir sjálfan mig. Sumt verður þjóðin að fá að vita.

4/12/10 02:02

Rattati

Já sko bara

4/12/10 01:01

Kiddi Finni

Akkúrat.

Hertoginn:
  • Fæðing hér: 25/2/11 15:50
  • Síðast á ferli: 24/6/15 14:55
  • Innlegg: 320