— GESTAPÓ —
Madam Escoffier
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/11/08
Verum viðbúin

Fyrir 10 árum síðan skalf heimsbyggðin öll. Áramótin 1999 - 2000 nálguðust óðfluga og sú hræðsla að allt tölvutækt tækist ekki að tileinka sér hið nýja ártal var almenn. Úr áttu að stöðvast, bílar, rafveitur og allt það sem mögulega hafði einhvern vott að tölvutæku innvolsi.<br /> Þar sem ég var stödd nærri daglínu í því landi sem fyrst myndi skipta yfir í hið örlaga ríka '00, einkendust gamlárspartý af fullum baðkörum af vatni sem átti að endast í 3 sólahringa, vasajósum á vísum stað og auka rafhlöðum. <br /> Ekki reyndist þörfin fyrir drykkjarvatn úr baðkörum né heldur óeðlilega mikil þörf á vasaljósum en þó reyndist vatnsslagurinn vera skemmtilegur í morgunsárið þegar allar fötur og skjólur voru notaðar til hella vatninu yfir þá sem höfðu sofnað í gleðivímu. <br /> En þetta kenndi mér eitt: Það borgar sig að vera viðbúin sama hversu ótrúverðug váin er. <br /> Þvi er spurt, hvað gera Baggalýtingar ef það verður slökkt á alnetinu, líkt og fjölmargir tölvupóstar fjalla um sem ég fæ á hverjum degi?

Eftir ýtarlega yfirferð á lendum Baggalútíu finn ég hvergi viðbragðsáætlun hvernig samskiptum muni fara fram komi að því að alnetið verði óvirkt. Reyndar er talað um bréfdúfur og lamadýr í póstskjóðunni, ég hef reynt um skeið að fá lamadýr flutt til landsins en yfirdýralæknir sér ekki þörfina fyrir meiri fjölbreytni spendýra á eyjunni. Dúfur þoli ég ekki og myndi frekar brúka vængjaðar rottur til samskipta en þær eru heldur ekki í boði.
Hvað er því til ráða? Jú ævaforn samskiptaleið eru reykmerki, það mætti leita til páfagarðs til að fá uppskrift af mismunandi lit í reykmerkin. Galdurinn við skilvirk samskipti með reykmerkjum er að þau séu skýr og skilmerkileg. T.d. 2 litlir svartir reykbólstrar og einn stór svartur merkja að Ívar ætli ekki að koma á árshátíðna, 2 litlir svartir og einn hvítur merkja að Villimey dæsir mæðulega og horfir útum gluggann.
Landfræðilega getur þetta reynst dullítð torvelt, margir Póar og Píur hafa dreift sér um heiminn og því ekki um beina sjónlínu að ræða. Þá væri gráupplagt að nýta sér boðskipt sem marka tímamót í mörgum góðum bókum t.d. Kóraninum og Biblíunni, þ.e. brennandi runnar sem tala. Ég hef ekki gefið mér tíma til að uppfræðast um tæknilega útfærslu á þessu en tel víst að hér sé nægilega stór hópur hugsandi manna og kvenna sem óð og uppvæg vilja taka að sér nánari útfærslur.

   (5 af 5)  
1/11/08 14:00

Grýta

Góð ertu Madam!
Þetta félagsrit uppfyllir, að mínu mati allt það sem segja þarf um baggalútísk samskipti.

Auk þess er madam samhverfa.

1/11/08 14:00

Garbo

Já þú ert alveg ágæt. Og sömuleiðis þetta fyrsta félagsrit þitt.

1/11/08 14:00

Jóakim Aðalönd

Það er með ólíkindum að ekki hafi verið samin viðbragðsáætlun. Vlad! Er ekki rjett að stofna nefnd um málið?

E.S.
Stórfínt félaxrit...

1/11/08 14:01

Jarmi

Ég hafði hugsað mér að pissa í Atlantshafið og þið getið svo útfrá bragðbreytingunni áttað ykkur á hvernig mér líður.

Uppáhalds leiknum mínum "Hefur þú" get ég svo hreinlega svarað í eitt skipti fyrir öll: já, ég hef gert það.

Ég mun svo prumpa í átt að Íslandi einu sinni á ári, þegar vindátt er rétt, til að láta ykkur vita að ég mæti ekki á árshátíð.

1/11/08 14:01

Regína

Já, þetta er athyglisvert.
Eftir því sem ég best veit þarf símalínur fyrir alnetið, allavega er það þannig hjá mér. Símakerfið getur auðvitað hrunið til grunna hvenær sem er, enda fremur ungt í sögunni, yngra en ritmálið. Þannig að við þyrftum að koma upp einhverju samskiptakerfi sem byggir á varanlegri tækni, og þá meina ég gerfitungl. Það eina sem við þurfum þá að gera er að fara út á nóttinni þegar stjörnubjart er og bíða eftir Gestapótunglinu, og getum þá bæði sent og móttekið skilaboð.
Meðal annarra orða: Spendýr er skrifað með einu n en ekki tveimur, þú getur hvergi fundið tvö n í orðinu speni, hvernig sem þú beygir það. Nema málvísindamenn vilji láta frammburð ráða stafsetningu ...

1/11/08 14:01

Bleiki ostaskerinn

Hvernig væri samt að nota slúður. Ég gæti til dæmig sagt einhverjum að ég hafi hrökklast aftur og hrasað við. Viðkomandi ræðir það við næsta mann sem ræðir það við næsta mann sem leyfir frænda sínum sem þekkir hugsanlega einhvern eða einhverja gestapóa að frétta af þessu atviki. Þegar sagan er loksins komin á leiðarenda, þekki ég ýkju-áhrif slúðurs rétt, þá ættu gestapóar og píur annarsstaðar á landinu að frétta að ég hafi hrökklast að heiman og orðið fyrir bíl.

1/11/08 14:01

Fallegust

omg þið verðið að redda þessu, gera ráðstafanir....þetta er rosalegt ég meina sko.....hjálp,og ég sem er nýbúi hér í Baggalút, ég er ekki tíl í að hætta strax......

1/11/08 14:01

Bleiki ostaskerinn

Við skulum hjálpa þér, en bara með því skilyrði að þú notir ekki skammstafanir á borð við "omg" nema þegar enginn sér til.

1/11/08 14:01

Madam Escoffier

Takk fyrir ábendinguna Regína, líkleg finnast mér þessi dýr of spennandi. Ánægjulegt að sjá að það eru fleiri leiðir í boði sbr. innleg Jarma, Ostaskera og Regínu.

1/11/08 14:01

Dexxa

Flott félagsrit hjá þér, afskaplega skemmtileg lestning.. sem og innleggin hér að ofan [ljómar upp]

1/11/08 14:01

Billi bilaði

Glæsilegt félagsrit. Einnig góð ábending að Jarmi sé með innleg. Það útskýrir margt.

<Glottir út í bæði af síðustu setningu Regínu>

1/11/08 14:01

Er ekki bara mæting á Áslák kl. 20 annan laugardaginn í nóvember ár hvert, ef svo skemmtilega vildi til að hið svokallaða internet geispaði golunni?

1/11/08 14:01

Bleiki ostaskerinn

Eigum við ekki bara að vera dugleg að detta í það á líklegum stöðum og vonast til að við rekumst á hvert annað þess á milli?

1/11/08 15:00

Texi Everto

Er kominn nýr spurðu eftir spurninguna þráður? <Ljómar upp>

1/11/08 15:00

Jóakim Aðalönd

Ein hugmyndin væri að nota fugla til boðskipta. Eina vandamálið er að þá þarf að skilja fuglamálið. Ég get t.d. upplýst að ég er 200 krúnkum, 500 göggum, 800 tvíttum, 2000 pípum og milljón alls konar kurrum, bíbíum, spívíum, flauti og tísti suð-austur.

1/11/08 15:00

Heimskautafroskur

Þetta er skemmtilegt rit og vel stílað. Takk fyrir ábendinguna.

Fyrir nokkrum áratugum síðan þróaði froskur þessi nýtt samskiptaform (letur) sem byggðist á því að planta trjám. Þegar svo trén næðu fimm metra hæð, gróðursett eftir ákveðnu kerfi (sem byggðist á landslagi, trjátegundum, kvæmum og klónum) í frjóa jörð á skjólsælum stað, mætti lesa skilaboðin. Þættinum hefur enn ekki borist bréf...

1/11/08 15:01

Þarfagreinir

Ein leið væri að herma eftir tilraun nokkurri sem kallaðist Bók í mannhafið, en hún byggðist á því að fólk átti að skilja viðkomandi bók einhvers staðar eftir þegar það væri búið að lesa hana. Með því að beita þessari aðferð á auða bók, þar sem fólk getur ritað 'innlegg', mætti koma upp Gestapói í raunheimum.

1/11/08 15:01

Jóakim Aðalönd

Vá Þarfi! Þá þarf sko aldeilis að fara að skrifa...

Þetta hljóta að vera fleiri þúsund blaðsíður bara af rituðum texta...

1/11/08 15:01

Jóakim Aðalönd

Hafið þið annars tekið eftir því hve Madam Escoffier lítur vel út? Af nafninu að dæma hlýtur hún líka að kunna að elda...

1/11/08 15:01

Jóakim Aðalönd

[Skvettir rakspíra á andlitsfjaðrirnar]

1/11/08 15:02

Dularfulli Limurinn

[glottir einsog fífill] Stórfínt rit og orð í tíma töluð. [ljómar upp og sendir reykmerki, bleikt að lit beint frá höllinni]

1/11/08 16:00

Vladimir Fuckov

Hjer mættu sannarlega sjást fleiri fjelagsrit um aðkallandi baggalútísk vandamál á borð við þetta [Ljómar upp].

Varðandi logandi runna þá er það mjög áhugaverð hugmynd, sjerstaklega því sje frásögn biblíunnar þó ekki væri nema lítillega nákvæm er hún að líkindum framkvæmanleg með fjarhrifum. Því gæti Gestapói í Ástralíu auðveldlega kveikt í runna í Danmörku (á Íslandi er bannað að brenna runna nema fá fyrst til þess opinbert leyfi vegna þess hve hjer eru fáir runnar og því er Danmörk betra dæmi því ekki er hægt að fá tilskilið runnabrunaleyfi með fjarhrifum). Þó er sá galli á gjöf Njarðar að ekki eru allsstaðar runnar (oss er t.d. ekki kunnugt um að á Antarktíku sje einn einasti runni; viti einhver betur förum vjer hjer með fram á leiðrjettingu).

Aðeins varðandi athugasemdir gesta hjer, þetta er nokkuð langt vegna þess sem Jóakim sagði 14/11/09 08:09.

Jóakim 14/11/09 08:09: Það er alltaf sama sagan með þetta embættismannakerfi, enginn einn ber ábyrgð á neinu, hver vísar á annan, enginn sjer um samhæfingu aðgerða, sami málaflokkur heyrir undir milljón embætti og allt gengur of hægt [Skipar 20 49 manna nefndir til að gera úttektir á 20 mismunandi ráðuneytum og/eða embættum, fær svo sænskan sjerfræðing til að sjá um eftirlit með starfsemi nefndanna og skipar svo 21. nefndina til að sjá um að gera tillögur um samhæfingu starfa sjerfræðingsins og hinna 20 nefndanna].

Regína 14/11/09 12:11: Gallinn við þetta er sá að Baggalútía er einn skýjaðasti staður í heimi. Þó gæti þetta virkað ef allir Gestapóar gerast radíóamatörar.

Bleiki ostaskerinn 14/11/09 12:14: Þetta gæti virkað en yrði nokkuð flókið í framkvæmd því með slúðursögunni yrðu að fylgja upplýsingar um hvað hún hefur farið gegnum marga milliliði. Ástæðan er sú að hafi sú slúðursaga að Bleiki ostaskerinn hafi hrökklast að heiman og orðið fyrir bíl farið gegnum (t.d.) 5 milliliði gæti hún þýtt að í raun og veru hafi Bleiki ostaskerinn hrökklast afturábak og hrasað við en hafi slúðursagan farið gegnum 10 milliliði myndi hún einungis þýða að Bleiki ostaskerinn hafi hrökkast afturábak (en eigi hrasað við).

Pó 14/11/09 18:15: Góð hugmynd í neyð en þó finnst oss ei nógu gott að komast bara einu sinni á ári á Gestapó eða ígildi þess. Innlegg Bleika ostaskerans næst á eftir er eiginlega endurbætt útgáfa af þessaru hugmynd og gæti komið til greina

Jóakim 15/11/09 04:25: Gæti gengið í neyð en yrði heldur hægvirkt, 2000 píp til að tákna eina ómerkilega fjarlægð í suðaustur er t.d. frekar óþægileg samskiptaaðferð.

Þarfagreinir 15/11/09 16:40: Mjög athyglisverð hugmynd og líkist mest Gestapó af þeim hugmyndum er fram hafa komið. Gallinn er þó sá að Gestapóar mættu ei vera mjög landfræðilega dreifðir. Núna eru hinsvegar í sumum tilvikum þúsundir km á milli þeirra. Hugsanlega mætti þó hafa bækurnar margar og láta þær auk þess ganga á milli í pósti.

Vjer biðjumst síðan afsökunar á ef vjer virðumst fram úr hófi neikvæðir gagnvart framkomnum hugmyndum. Þetta er hinsvegar vandamál sem afar áríðandi er að leysa og þá er eins gott að lausnin virki. Því töldum vjer nauðsynlegt að benda á hugsanlega veikleika í framkomnum hugmyndum.

Látum vjer svo þessum langhundi lokið.

1/11/08 23:01

Regína

Ef við gerumst radíóamatörar, þurfum við þá að læra morsstafrófið? Utanaðað?

1/11/08 23:01

Vladimir Fuckov

Að sjálfsögðu. En það er lítil fórn að færa ef það tryggir að unnt sje að vera á Gestapó þó Internetið hætti að virka.

2/11/08 01:00

Jóakim Aðalönd

Hvað ef við gerumst radíóatvinnumenn?

Madam Escoffier:
  • Fæðing hér: 19/10/09 12:42
  • Síðast á ferli: 23/6/20 22:08
  • Innlegg: 2541
Eðli:
Ætíð klædd í flöskugrænan síðkjól með krínólíni, blævæng og vel reyrt mitti.
Fræðasvið:
PMS í fáfræði frá Háskólanum í Bárðardal.