— GESTAPÓ —
Blöndungur
Heiðursgestur.
Pistlingur - 4/12/09
Hvers lómurinn geldur - Gömul samtímaádeila

Nú þegar vorládeyðan sækir að manni, getur verið gott að rýna í gamlar skrár og lesa aftur snilldina sem maður bullaði útúr sér fyrir nokkrum misserum, þegar maður var ungur og æstur. Hér á eftir fer óslípuð samtímaádeila, sem hefur líklega verið skrifuð um og eftir árið 2007, sællrar minningar. (Fuss!) - - - Kunnugir sjá hér vísanir í atburði og fyrirbæri sem voru uppi þá: sveitarstjórnarkosningarnar 2002 og 2006, áramótaskaupið 2007, vegamála- og skipulagsumræðu, nýjar byggðir í lágsveitum Árnessýslu, og Hagkaupsbæklinginn. Einnig má finna vísanir í orðræðu sr. Eggerts á Vogsósum. En það er nú annað mál. - - - Ég vona að pistlingur þessi verði engum sem hann les til ama, og birti hann hér. Einhversstaðar verður maður nú að kunngera stykkin sín.

Það var einhverntíman að ég heyrði í fréttum að kartöflur, ræktaðar á umferðareyjum í Reykjavík, væru ekki hæfar til manneldis. Má þá vera, að einhverjir hafi orðið hissa. En vei þeim, er fatta ekki að Ísland er í raun land skítugt. Það er mengað, óhreint, og ógeðfellt einsog illa húðflúrað kvenmannsbrjóst.

Kæru lesendur.
Samtíminn er ömurlegur. Launaseðlar koma í tölvupósti. Stjórnmál eru heilsársatvinna. Kaupfélög snúast um fasteignir. Helztu dagblöð landsins eru setin óskrifandi fréttamönnum. Góð og gild orð þykja þar fyndin og hlægileg; uppi vaða hráar þýðingar sem bera vott um menntunarstig 9.-dabekkings.
Fólki finnst í lagi að syngja Ísland er land þitt í áramótaskaupinu, ef til vill sem dulbúna ósk um að það verði tekið upp sem nýr þjóðsöngur. – Ég óx upp úr því í leikskóla að geta hlustað á textann án þess að fá kjánahroll.
Stjórnmálaframboð sem ættu frekar að nota krafta sína í að skipuleggja kúadellukeppnir, mynda sér skoðanir á skipulagsmálum. Einsog það sé í lagi að kjósa hvaða flokk sem er, bara ef maður er sammála honum um hvorum megin við kaupstaðinn þjóðvegurinn eigi að liggja. – Samkák sem verðfellir hvort tveggja; stjórnmálin og skipulagsmálin.
Nú á að leggja fjórbreiðan veg eftir norðurhliðinni á Ölfusinu. Þeir sem sjá veginn bara þegar þeir aka eftir honum, hafa varla hugsað út í hvað það verður lítið pláss eftir. Fyrir alla barina sem hin þyrsta 68-kynslóð þarf að hafa í kringum sig þegar hún verður öll flutt í sveitasæluna.
Í einum og sama manninum rúmast hugmyndir um að ekki eigi að rækta skóg á ósnortinni náttúru, og að í Flóanum sé nóg pláss, það sé bezt að vera ekkert að spara það við húsbyggingar á Selfossi. Gott og vel, látum Selfoss ná niður á rasskinnar. En hvers á lómurinn að gjalda þegar skúmarnir drulla yfir hann?

Sú var tíð, að Norðmenn settust að á Íslandi. Og sú var tíð að sveitamenn settust að í Reykjavík. Þá fluttu þeir oft með sér örnefnin. Nú eru þeir tímar að fólk flytur austur fyrir fjall. Og nú síður það upp á byggðirnar ónefni.
Hinn norski Magnús Olsen skrifaði um það, hvernig áætla má aldur bæjar útfrá nafninu. Þannig skiptist sagan í tímabil eftir því hvað var helzta endingin; -setur, -heimur, -akur, -ruð.
Hinn íslenzki Magnús Olsen 31. aldarinnar svarar spurningum á fyrirlestri: „Ha? Fjallaskjól, Tjarnabyggð – það hlýtur að vera frá byrjun 21. aldar. Það eru bara svo sjálfhverf nöfn; eitthvað svo útúr samhengi.”
Enda er ónaniseringin yfirþyrmandi. Og fólk á eftir að búa í henni. Börn munu ganga í skóla úr henni, gamalt fólk mun bera þar elli sína. Illa máli farin frjálshyggjusjálfsfróun gengur ljósum logum; úthverfakynslóðin er að rúnka sér yfir landið.
Best væri að plasta Árnessýslu einsog hún leggur sig, áður en komið er í óefni.

   (1 af 3)  
4/12/09 06:02

Regína

Og ertu ennþá sömu skoðunar?

4/12/09 07:01

Blöndungur

Kreppan breytti öllum mínum viðhörfum til alls þessa.

4/12/09 08:00

Bakaradrengur

Já, plast er orðið of dýrt.
Pökkum henni inn í notaðan dagblaðapappír.
(Eða mogga-pappír - hann er ólesnari.)

Blöndungur:
  • Fæðing hér: 28/11/08 17:49
  • Síðast á ferli: 3/9/11 17:58
  • Innlegg: 1065