— GESTAPÓ —
J.Maltus
Óbreyttur gestur með  ritstíflu.
Sálmur - 5/12/08
Eftirmæli um búsáhaldabyltinguna

Þetta er frumraun mín í bundnu máli svo þið megið virða viljan fyrir verkið. Allar ábendingar um ambögur og það sem betur mætti fara eru vel þengar Þetta á bæði við um innsláttarvillur (stafsetningu) og ekki síður atriðum sem lúta að kveðskap.<br />

Með potta og pönnur og sleifar sem tæki
Þau púuðu á ráðamenn og slógu sinn takt
Og vonuðu að með því þau ráðherra ræki
Róttæk nú alþýðan sýndi sitt magt

Af látunum miklu þau uppskáru mikið
Máttlítil ríkisstjórn hröklaðist frá
Við tóku nýir menn sem settu strikið
Á stólana góðu með löngun og þrá

Byrja átti stórt og skjaldborgir byggja
Býli og heimili verja gegn vá
Þegar að hagsmunum fóru að hyggja
Heppnaðist lítið og úrræðin fá

Örskömmu síðar var þing aftur kosið
Aldeilis ljómandi kosningu fékk
stjórnin, hún sáttmála fram gat nú tosið
samtstaðan lítil, hvorki rak eða gekk

Langþreyttur lýðurinn mátti því bíða
Lengi hann beið og bíður víst enn
Stjórnin hún situr að staga og sníða
Skera burt annmarka málefni og menn

Eitt er þó víst þeir ætla að sitja
Þótt enn séu að deila um málefni flest
þeir eru þó sáttir það víst máttu vita
að vera ósáttir það þykir þeim best

Og skjaldborg um heimilin því máttu trúa
Tókst þeim að reisa og stendur um sinn
En enginn veit þó hvernig skildirnir snúa
Sýnist mér þó ekki út, heldur inn.

   (1 af 2)  
5/12/08 10:02

B. Ewing

Þetta þykir mér vera alveg ljómandi góð frumraun. [Ljómar upp] Skýr myndbirting og orðanotkun til fyrirmyndar.

p.s. Einu villurnar sem ég sé eru innsláttarvillur hér og þar sem auðvelt er að laga.

5/12/08 11:00

hvurslags

Reyndar eru ótal bragfræðivillur hér og þar, stuðlar í lágkveðum eða áherslulausir, vantar stuðul í þriðja braglið, ekki passað upp á gnýstuðla, aukastuðlapar í línum (sem má en þykir ekki fínt) os.frv. Þar að auki er makt kvenkynsorð.

Samt sem áður er margt prýðilegt í þessu, sérstaklega efnistök kvæðisins. Ég mæli með því að þú lesir þér til um bragfræði á rimur.is eða á þræðinum Skólastofan hér í kveðskaparstofunni og þá gæti þér fleygt fram.

5/12/08 11:00

Texi Everto

Eins og hvurslags segir, þá er margt gott í þessu, og endirinn sérlega smellinn. Okkur bragfræði"nördunum" þætti þó betra ef ljóðstafareglum væri betur fylgt, og málfræði. Hrynjandi virðist þú hafa þokkaleg völd á, þó eru einstaka staðir sem ég myndi hafa öðruvísi.
Ef þú vilt konkreta gagnrýni á bragfræðina, þá ferðu með þetta í "Skólastofuna", og þar verður þér örugglega vel tekið.

Sem sagt. Ágætis frumraun.

5/12/08 11:01

Sundlaugur Vatne

Þetta er nú ljóti leirburðurinn. Þú verður aldrei skáld og ættir að leggja fyrir þig eitthvað annað tómstundagaman.

5/12/08 11:01

Blöndungur

Neinei, þetta er afar góð frumraun. Og mér fyndist þetta jafnvel sæmilega frambærilegt, þó að það væri ekki frumraun, heldur ávöxtur þrotlausrar vinnu og æfinga í langan tíma.
Vissulega er ekki alltaf rétt farið með stuðlana í þessum Eftirmælum, og á að minnsta kosti tveimur stöðum er farið mjög á svig við rétt mál (eftir minni vitund). En jafnvel Símon Dalaskáld gerðist sekur um slíkt.
Og endirinn er nú alveg ágætlega hnyttinn.

5/12/08 12:01

Sundlaugur Vatne

Verið ekki með þessi undanbrögð. Þessi "kveðskapur", ef svo skyldi kalla er langt undir öllum gæðamörkum. Það er ekki nokkur ástæða til þess að verja svona vinnubrögð.
Ég get tekið fyllilega undir með gagnrýni hvurslags. Hins vegar skil ég ekkert í hvað hann er svo að draga í land í seinni hluta athugasemdar sinnar. Það er akkúrat ekkert prýðilegt við svona "ljóðagerð" ef slíkt mætti kalla.
Ég held Bjúing hafi fengið slæmt höfuðhögg, Texi veit ekki hvað "ágæt frumraun" er og Blöndungur er gersamlega úti að aka... ég veit ekki hvar þið eruð aldir upp.
Ef Maltus ætlar sér einhver afrek á ljóðasviðinu þá er honum hollast að taka sig taki og ég hvet hann til gefa lítið fyrir hrós ykkar.
Svei mér þá. Það er eins gott að fólk sé ekki að taka mikið mark á gagnrýni ykkar. það gæti þýtt endalok vandaðrar ljóðagerðar á íslenzku máli.

5/12/08 12:01

Texi Everto

Sko, ég má alveg vera góða löggan þegar þú ert vonda löggan Sundi. <Pússar handjárnin og mátar>

5/12/08 12:01

hvurslags

Mikið væri gaman ef fleiri væru jafn jákvæðir og kurteisir og Sundlaugur Vatne. Ef ég man rétt sagði hann mér að éta skít við félagsrit mitt um búsáhaldabyltinguna.

5/12/08 12:02

Blöndungur

Jæja jæja, látum ekki skapið bera oss af leið.
Vissulega er þetta ekki besti kveðskapur sem ég hef séð. En hnyttnin í endinum, og einhver svona Símons Dalaskáldslegur keimur yfir þessu, þóttu mér gera vísurnar þess virði að lesa þær. Að gera gæðakröfur er alltaf gott, við verðum jú alltaf að stefna að því besta, en endalaus gæði eru mér ekki að skapi. Mér fannst þessi vers skemmtilegri aflestrar en margt sem Jónas Hallgrímsson orti. Án gríns.
Jónas gróf á sínum tíma gröf rímnakveðskaparins. Rímur voru oft merkilega illa ortar. Og það hefur verið sagt að á 20. öld hafi verið til muna betur ort en á þeirri 19-du. Og hvað? Erum við einhverju bætt?
Yrkjum meira. Yrkjum skemmtilegar. Ljóð eru líka texti, alveg einsog laust mál, og það verður að vera eitthvað í honum annað en rétt bragmeðferð, myndmál og þessháttar.

5/12/08 12:02

J.Maltus

Ég þakka ykkur öllum fyrir þá gagnrýni sem þessi "kveðskapur" fær. Við lesturinn fæ ég best skilið að efnislega sé þetta frambærilegur texti, sem rétt skriður upp fyrir falleinkunn. Bragfræðin er í algerum molum, og á skilið einknina mínus þrír eða lægri, á skalanum frá einn og upp í tíu.
Ég verð að fara að læra bragfræðina betur, ég vona að svo geti ég einhverntima komið saman skammlausri vísu, ég geri mér alveg grein fyrir að ég verð aldrei skáld.

J.Maltus:
  • Fæðing hér: 8/10/08 21:35
  • Síðast á ferli: 12/9/23 16:03
  • Innlegg: 48
Eðli:
Öldungur sem þjáist af ungæðishætti.
Fræðasvið:
Hagfræði alheimsins. Samskipti milli sólkerfa. Varnir alheimsins
Æviágrip:
Fæddur og uppalinn á ofsetinni plánetunni Maltus fyrir ævalöngu síðan. Á tvær kynslóðir afkomenda og á því sem slíkur að teljast til öldunga.
Var sendur til Baggalútíu til að reyna að fá ríkið í alheimsyfiriráðið, en komst að því að alheimsyfirráðinu væri nær að ganga í Baggalútíu.