— GESTAPÓ —
Heiðursgestur.
Sálmur - 7/12/10
Til hamingju

Til allra afmælis- og rafmælisbarna fyrr og nú og síðar.

Til hamingju óska ég yður
og óskin er skínandi tær.
Með yður sé farsæld og friður,
og framtíðin gullin og skær.

En sár kunna að sýnast, því miður,
þau sannindi, er breytt enginn fær.
Það stefnir allt norður - og niður;
þér nú eruð eldri en í gær.

En samt er það venja og siður
að sjá hvernig veröldin kær
biðlar til Drottins og biður
um betri "í dag" en "í gær".

Og blási nú kærleikans hviður
frá hvirfli og ofan í tær!
Til hamingju óska ég yður
og óskin er tindrandi skær.

   (3 af 25)  
7/12/10 04:01

Regína

Þetta er svo flott að það er erfitt að svara með einfaldri þökk, en ég ætla bara að gera það samt. Takk.

7/12/10 05:00

Billi bilaði

"En syndin er lævís og lipur..." Þetta minnir mig á kvæðið um Jón Kristófer eftir Stein. Salút!

7/12/10 06:00

Álfelgur

Ég varð að skrá mig hér inn til að hrósa þér fyrir þetta - þetta er alger snilld!

7/12/10 06:01

Heimskautafroskur

Hreinasta afbragð – til hamingju!

7/12/10 08:02

hlewagastiR

Ég á rafmæli í nóvember. Skyldi ég gleyma að þakka þér fyrirframkveðju þessa þegar þar að kemur þá færi ég þér fyrirframþökk nú þegar.

7/12/10 17:00

Huxi

Takk skinnið mitt. Þú ert ágætur.

8/12/10 06:02

Skabbi skrumari

Þakkir kærar hafðu hér
heillavinur...

8/12/10 17:02

Kiddi Finni

Flott... en satt er það hjá Billa, hér er einhvern Steinsteinrskeim að finna,

9/12/10 22:01

Billi bilaði

Til hammó með rammó.

10/12/10 00:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Fallegt & snjallt - skál félagi !

Vonandi hefurðu ekki sótt um einkaleyfi á þessum titli, þarsem það hefur lengi staðið til hjá mér að yrkja kvæði með sama titli...

1/11/10 00:02

Nú hálfskammast ég mín fyrir þennan titil, Znati, því vitaskuld á hann miklu fremur heima í þínu ljóðasafni.

Ég hlakka til að lesa þitt ljóð undir titlinum - ég geri ráð fyrir að hástafir verði til aðgreiningar.

Pó:
  • Fæðing hér: 22/9/08 01:50
  • Síðast á ferli: 22/5/22 23:24
  • Innlegg: 2331
Eðli:
Áhugamaður um hitt og þetta.
Fræðasvið:
Hitt og þetta.
Æviágrip:
Borinn í Rvk og verið þar síðan með undantekningum.