— GESTAPÓ —
Heiðursgestur.
Sálmur - 1/11/08
Skáldið, sem reyndi að yrkja

Ég held að ljóðið hafi orðið til á skemmri tíma en titill þess. Og þó er ég sáttari með ljóðið.

Ferskeytlu ég ber á blað
bara þegar nenni,
því mér finnst svo erfitt að
yrkja samkvæmt henni.

Oft hef leikið grátt mitt geð
og gráðugt tuggið neglur.
Fullt ég á í fangi með
flóknar bragarreglur.

Mér í vegi myndi fátt
mega fá að standa
ef ég hefði æðri mátt
einhvers hagorðs fjanda.

Kveða myndi keikur þá
kvæðið dýra og ríka.
Og ég myndi eflaust smá
yrkja hringhent líka.

Raun er önnur - geðið gramt
gerist vegna þessa.
Eðli mínu er ekki tamt
orð í brag að hvessa.

Eftir hætti er pínlegt puð
pælingar að virkja.
Eflaust væri stöðugt stuð
stuðlalaust að yrkja.

Semja alls kyns atómdrög,
orðum saman lötra,
yrkja fram í lengstu lög,
laus við stuðlafjötra.

---
En þó svo braglaus geti góð
gerst, mér þykir fegra
að ég stuðli öll mín ljóð.
Enda skemmtilegra.

   (7 af 25)  
1/11/08 13:00

Útvarpsstjóri

Mikið assgoti er þetta gott. <býður Pó í nefið>

1/11/08 13:01

Skabbi skrumari

Helvíti gott... þetta er orðið skemmtilegt þema með þetta skáld... maður er allavega orðinn spenntur að vita hvað kemur frá því næst ... Skál

1/11/08 13:01

hvurslags

"Eðli mínu er ekki tamt
orð í brag að hvessa."

Sjaldan hefurðu verið fjær sannleikanum. Næstsíðasta erindinu gæti síðan hver sem er verið stoltur af.

1/11/08 13:01

hlewagastiR

Geðveikt finnst mér gaman hvað
gaurinn stuðlar liðugt
og finnst jafnvel hann ætti að
yrkja fleira sniðugt!

1/11/08 13:01

Bleiki ostaskerinn

Stórglæsilegt. Og alveg satt, hafi þetta verið ort um mig.

1/11/08 13:01

Regína

Hvernig ferðu að þessu? Þetta tókst alveg ágætlega.

1/11/08 13:01

Garbo

Þú ert snillingur.

1/11/08 14:00

Grýta

Bragfræðin er þér greinilega jafn auðveld og að drekka vatn.
Nú skil ég öll þau atkvæði sem þú fékkst sem hagyrðingur ársins.
Til hamingju!

1/11/08 14:00

Isak Dinesen

Skemmtilegt. Takk.

1/11/08 14:00

Upprifinn

Skemmtilegra. það er akkúrat mergurinn málsins.

1/11/08 14:00

Álfelgur

Þetta er gott! Mjög gott!

1/11/08 15:01

Jóakim Aðalönd

Getur einhver sem reynir að yrkja kallað sig skáld?

1/11/08 16:00

Getur einhver sem reynir að kvaka kallað sig önd?

1/11/08 16:00

Jóakim Aðalönd

Já.

1/11/08 16:00

Reyndar geta fáir kallað sig skáld, enda skilgreiningin þröng:

Sá einn er skáld, sem skilur fuglamál
og skærast hljómar það í barnsins sál.
Hann saurgar aldrei söngsins helgu vé.
Hann syngur líf í smiðjumó og tré.

Sá einn er skáld, sem skilur það og fann
að skaparinn á leikföng eins og hann
og safnar þeim í gamalt gullaskrín
og gleður með þeim litlu börnin sín.

Sá einn er skáld, sem elskar jörð og sól,
þótt eigi hvorki björg né húsaskjól.
Hann veit að lífið sjálft er guðagjöf
og gæti búið einn við nyrztu höf.

Sá einn er skáld, sem þögull getur þráð
og þakkað guði augnabliksins náð.

1/11/08 16:01

Jóakim Aðalönd

Ef þú ert ekki skáld, þá held ég að það geti fáir kallað sig skáld...

Skál(d)!

1/11/08 16:01

Þakka hrósið, Kimi kær, sem og ykkur öllum að ofan. Þess skal getið að skáldaskilgreiningin hér að ofan er eftir meistarann frá Fagraskógi. Sem treysti sér, að ég tel, ekki til að kalla sjálfan sig skáld. Leiðrétti mig hver, sem betur veit.

1/11/08 19:02

spritti

vel ort

Pó:
  • Fæðing hér: 22/9/08 01:50
  • Síðast á ferli: 22/5/22 23:24
  • Innlegg: 2331
Eðli:
Áhugamaður um hitt og þetta.
Fræðasvið:
Hitt og þetta.
Æviágrip:
Borinn í Rvk og verið þar síðan með undantekningum.