— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tigra
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 1/11/07
Í ljósi atburða...

Ég hef ákveðið að skrifa félagsrit. Félagsritið hans Jarma fékk mig til að hugsa örlítið og ákvað ég því að koma þessu í rit.
Þetta félagsrit er ekki um raunheimapólitík eða efnahagsástandið - en þetta félagsrit tengist hinsvegar afleiðingunum af þessu fyrrnefnda.

Nú vita kannski einhverjir hérna að ég er sálfræðinemi sem stefni á að klára grunnámið í vor. Ég hef því ef til vill ýmsa þekkingu á því sviði sem meðalmaðurinn hefur ekki, en ætti að hafa.

Það þarf engar rannsóknir til að segja ykkur að þegar svona ástand kemur upp á fólk það til að sökkva sér ofan í þunglyndi, eða eitthvað vægt form af því.
Það er erfitt að missa vinnuna, standa í efnahagskreppu og enn verra vita ekki hvað kemur næst.
Rannsóknir hafa hinsvegar sýnt að fólk tekur á svona vanda á afar mismunandi hátt. Til eru tvær aðal gerðir og er önnur þeirra mun líklegri til að valda þunglyndi heldur en hin gerðin.
Ein gerðin, sem er heldur algengari hjá karlmönnum, er að vísa öllu á bug og leita sér að öðru til að gera og dreifa huganum.
Hin gerðin, sem er heldur algengari hjá konum (þótt að báðar gerðirnar séu auðvitað til hjá báðum kynjum) er að hugsa mikið um hlutina og spekúlera. Hugsa "hvað ef X og hvað geri ég þá?" og jafnvel búa sig undir ýmsar aðstæður.

Raunin er að það er til muna verra að velta sér upp úr áhyggjum sínum og erfiðleikum með því að hugsa mikið um þá.
Þá er ég ekki að segja að það eigi ekki að takast á vandann, heldur þvert á móti. Það er mjög gott að tala um vandamál eða skrifa þau niður - en það er mjög slæmt að hugsa mikið um þau án þess að koma þeim "frá sér" með skrifum eða tali.
Það getur líka verið slæmt að nota hina aðferðina, leiða hlutina bara hjá sér og finna sér e-ð annað að gera - ef áfallið hefur verið stórt og óhjákvæmilegt. Hinsvegar við lítilvægara vesen og erfiðar aðstæður getur þetta dugað ágætlega.

Ég vil því hvetja alla sem finnast þeir eiga erfitt í núverandi ástandi - og jafnvel alla hina líka, að tala við vini og/eða vandamenn og ef þið eigið enga slíka sem þið treystið ykkur til að tala við - að skrifa hlutina niður.
Bæði er hægt að skrifa hlutina niður og birta á Gestapó eða annarstaðar, -því mörgum finnst gott að fá viðbrögð, en það er þó alls ekki nauðsyn.
Það er í sjálfu sér nóg að skrifa bara niður á blað og þessvegna henda því síðan eða brenna það.

Með von um að þessi heilræði hafi gagnast einhverjum.
Knús.

   (3 af 83)  
1/11/07 07:01

GerviSlembir

Það er nefninlega það.

1/11/07 07:01

Þarfagreinir

Þörf áminning.

Einnig má nota tækifærið til að minna á að það fer nokkuð eftir aðstæðum fólks hvað það er að glíma við núna. Þeir sem eru í námi, barnlausir, og hafa aldrei átt neina peninga geta til dæmis verið nokkuð áhyggjulausir. Fólk sem á eignir og skuldir og krakka, og sem sér jafnvel fram á að missa hugsanlega vinnuna, er í ögn annarri stöðu, eðli málsins samkvæmt. Þannig að þó að þeir í fyrri hópnum séu álíka settir og áður má hann ekki gleyma því að þeir í síðari hópnum hafa í raun orðið fyrir gríðarlegu tilfinningalegu áfalli.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þetta gildir reyndar almennt, en þá sérstaklega núna. Margir eiga erfitt þessa dagana - það er einfaldlega staðreynd.

Tökum til dæmis mig bara. Ég er kelling núorðið, miðað við týpulýsingu Tigru.

1/11/07 07:01

Ívar Sívertsen

Gott hjá þér Tígra! Þetta er eitthvað sem allir þurfa að skoða!

1/11/07 07:01

Billi bilaði

Verður ekki fjöldafaðmshorn á árshátíðinni?

1/11/07 07:01

Ívar Sívertsen

Heyrðu, jú. Kannski ég fái The Shrike til að sjá um það.

1/11/07 07:01

Þarfagreinir

Ekki mig?

[Strunsar út af sviðinu og skellir á eftir sér eins og argasta dramadrottning]

1/11/07 07:01

Ívar Sívertsen

Nei, þú verður í gruppeknushorninu.

1/11/07 07:01

Þarfagreinir

Já, auðvitað.

[Lagar hárið og arkar pent inn á sviðið aftur, brosandi í gegnum tárin]

1/11/07 07:01

Lopi

Á maður að gera svona?: Ég er búinn að tapa 500.000 kr í peningabréfunum. Svo á ég 300.000 kr í Blönduðum safnbréfum kannski sé ég þau aldrei aftur. Nýi bankinn er að skoða það eitthvað. Draumurinn um að byggja húsið mitt verður að bíða allavega í eitt ár, jafnvel tvö. Sem betur fer skulda ég lítið.

1/11/07 07:01

krossgata

Fín áminning. Nú hlýtur bloggárátta og netvæðing landans að koma sér vel sem áhyggjuruslafata.
[Ljómar upp]

1/11/07 07:01

Skabbi skrumari

Ég yrki vísur um ástandið, það er mjög góð leið... flott félagsrit Tigra...

1/11/07 07:01

Regína

Gat nú skeð að kvenlega aðferðin sé verri!

En það er gott að fá þetta sjónarhorn. Ég nota yfirleitt pappír og penna til að losa mig við svona flækjur. Ekki lyklaborð. Kannski er ég bata gamaldags ...

1/11/07 07:01

Villimey Kalebsdóttir

Mjög flott félagsrit.

1/11/07 07:01

Huxi

Það hef ég löngum vitað að þú værir bráðklár og þetta fína félaxrit er bara enn ein sönnun þeirrar skoðunar minnar. Því er það gráupplagt að skrifa í orðabelg við svona gott rit, skoðanir þær sem maður vill viðra við alþjóð.
Og það sem ég vildi sagt hafa, er að það er alveg sjálfsagt að skrifa sig hérna á Gestapó, frá vandamálum áhyggjum og leiðindum. En þess ber þó að gæta að það sé þannig gert að sómi sé að og skrifin valdi ekki særindum og leiðindum. Ég er ekki einn af þeim sem hef verið að bera mínar pólítísku skoðanir fyrir ykkur hérna en það þýðir ekki að ég hafi ekki skoðanir á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Því er það er lítið gaman að lesa að einhver stjórnmálamaður sé hálfbjáni og að allir þeir sem eru honum sammála séu hlandaular og viðrini. Því vil ég biðja fólk að gæta hófs og vera málefnaleg í skrifum sínum. Þá er líka aðveldara að rökræða málin af einhverju viti...

1/11/07 01:01

Skreppur seiðkarl

Ég leiði hlutina hjá mér þegar ég er heima hjá mér en málið er að ég sinni starfi sem rafsuðumaður í Grundartanga og það felst mest í því að standa/sitja kjurr og horfa vel á einn punkt sem myndast við slíka iðju. Þið munið sumhver eftir smásögunum mínum? Meðan á góðærinu stóð þá komu þessar sögur en núna fer tíminn í að hugsa um óærið.

Ég var einhverju sinni spurður: "Hvernig geturðu lifað með þessar áhyggjur á bakinu?"
-"Nú, sýnilegt dæmi þess að ég er ennþá gangandi uppréttur með atvinnu og húsnæði þótt lítið sé, gefur mér aðrar stórar ástæður til að láta ekki eftir ímynduninni sem fylgir þunglyndinu."

1/11/07 02:01

Álfelgur

Samkvæmt skilgreiningunni er ég karlmaður.

1/11/07 02:01

Skreppur seiðkarl

Nafn þitt beygist í kk. nema að sjálfsögðu sé það í fleirtölu.

Tigra:
  • Fæðing hér: 26/9/03 14:44
  • Síðast á ferli: 8/7/15 13:56
  • Innlegg: 11354
Eðli:
Ég er nú bara saklaus kisa... ekki mjög hættulegur tígur hér á ferð, nema þið reitið mig til reiði auðvitað.Ég hef enn minn kjaft og mínar klær.. þó svo að ég noti þær sjaldnar en flestir af mínum kynstofni. Á íslandi sjáiði til er erfitt að vera smyglað tígrisdýr og þessvegna þarf ég að láta lítið fyrir mér fara.
Fræðasvið:
Ormalífeðlisfræðingur og formaður Grasormafélags Íslands, talsmaður fyrir tígrisdýr á Íslandi, framúrskarandi í Færeyingarannsóknum.
Æviágrip:
Þið þurfið að ferðast alla leið til Rússlands ef þið viljið finna heimaslóðir mínar. Ég er nefnilega Síberíu tígur (nei síberíutígrar eru ekki hvítir, hvít tígrisdýr eru í einstaka tilfellum albínóar (þá án randa) en hvíti liturinn á hinum eiginlega hvíta tígri stafar af genaerfðum í Bengaltígrum)Ég ólst þar upp í 5 hvolpa hópi og móðir okkar mjög ástrík en jafnframt ströng.Ung að aldri tók ég upp á því að ferðast og var því miður fönguð í Indlandi og send í dýragarð í Frakklandi.Þar barðist ég fyrir frelsi mínu í 2 ár og slapp að lokum og gerði allt vitlaust í dýragarðinum. Ég flúði land og laumaðist til Bretlands og þaðan í skip sem var að flytja ýmsar kjötvörur til Bandaríkjanna (heppin ég). Ég lifði sældarlífi á leiðinni en það gekk mikið á þegar skipverjar uppgötvuðu mig. Þeir flúðu skipið af skelfingu en ég rak áfram og strandaði á Íslandi þar sem ég hef lifað góðu lífi síðan.Íslendingar eru gott fólk... ekki of saltir.