— GESTAPÓ —
Huxi
Heiðursgestur.
Pistlingur - 5/12/07
Af rottum.

Margur maðurinn setur sig á stall og fullyrðir að allar aðrar dýrategundir séu skynlausar skepnur. Þessi sanna frásögn frá árinu 1973 ætti að fá þá til að skipta um skoðuna .<br /> A.m.k. sum dýr vita lengra trýni sínu.<br />

Eins og flestir vita hófst gos í Heimaey aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar, árið 1973. Gosið kom eyjamönnum í opna skjöldu, enda höfðu jarðfræðingar lýst því yfir að Helgafell væri útkulnuð eldstöð sem ekki hefðiu gosið s.l. 5000 ár og færi vart að taka upp á því nú, þegar svona stutt var síðan að Surtsey hafði myndast.

Þegar starfsmaður vélaverkstæðis, sem staðsett var í bragga vestarlega í bænum, kom til vinnu að morgni föstudagsins fyrir gos var aðkoman ófögur. Kaffistofan sem var uppi á millilofti í bragganum, var þakin í rottuskít. Gólf, borð, og stólar voru útskitin og m.a.s. var rottukúkur í kaffimálunum hjá þeim. Þegar starfsmennirnir skoðuðu málið betur var hægt að sjá að rottuhjörðin hafði komið upp um óvarið niðurfall og stormað upp í kaffistofuna í leit að mat.
Í fiskimjölsverksmiðunni hjá FES, þessa sömu nótt, varð vaktmaðurinn vitni að undarlegum viðburði. Upp úr niðurföllum og innan úr mjölskemmu, utan úr þrónum og úr öllum skúmaskotum, streymdu rottur. Hundruðum saman tipluðu þær eftir rörum og leiðslum út í myrkrið. Þær fóru sér í engu óðslega heldur var eins og um skipulagðan flótta að ræða og áfangastaðurinn væri fyrirfram ákveðinn. Þessu fór fram í nokkrar mínútur og það var ekki fyrr en að síðasta rottan hvarf út um gat á veggnum, að vaktmaðurinn hafði rænu á því að athuga hvert þær væru að fara. Hann rétt náði að sjá hersinguna hverfa eftir götunni eitthvað suður eftir.
Viðburðir þessir voru vissulega ræddir manna á milli en voru þó vart komnir í hámæli þegar aðrir atburðir og stórkostlegri urðu til að leiða athygli manna frá undrum þessum . Gosið skall á.
Suður á Heimaey var hænsnabú. Þegar hægðist um eftir fyrstu daga gossins þá var gengið í það að fjarlæga hænurnar, og voru þær sem lífvænlegastar þóttu sendar upp á land en hinum slátrað. Fóður var allt skilið eftir og búið skilið eftir eftirlitslaust. Nokkrum vikum seinna þá áttu menn leið þarna um og urðu þá varir við að það var eitthvað líf í hænsnabúinu. Reyndist það vera smekkfullt af rottum sem höfðu étið hænsnabygg og annað tilfallandi sér til viðurværis. Þótti nú bera vel í veiði að finna þarna allan rottustofn Vestmannaeyja á einum stað. Slökkviliðið kom með tvo slökkvibíla og var pústið úr þeim leitt inn í húsið og freistað með því að drepa þennan óvænta bústofn hænsnabúsins. Og vissulega drápust rotturnar sem inni voru en eitthvað vafðist fyrir vígamönnunum að þrífa húsið og eyða hræjunum. E.t.v. hafa þeir sem þarna véluðu um fengið slæma samvisku yfir þessum ódugnaði, því ekki var farinn annar drápsleiðangur í hænsnabúið og því ekki vitað hvað þar fór fram. En síðar þegar búið var athugað var þar nokkuð snyrtilegt um að litast og engin rotthræ að sjá.
Gosinu lauk í sumarbyrjun og lífið þokaðist smá saman í sína gömlu vana skorður. Fólkið flutti aftur heim og það var m.a.s. haldin Þjóðhátið, þó ekki væri hægt að halda hana í Herjólfsdal. Og það var unnið í fiskimjölsverksmiðju FES eins og áður. En nú bar svo undarlega við að það sást þar ekki rotta, og hafði ekki sést síðan verksmiðjan hafði verið ræst aftur eftir gos. Ekki að þeirra væri sárt saknað, því að vissulega var mörgum nóg um fjöldann og stærðina á þeim. Samkvæmt mælingu sem staðfest var af Náttúrufræðistofnun Vestmannaeyja, var stærsta rottan sem hafði veiðst fyrir gos 45 cm. löng, frá trýni aftur á skottenda. Og fjöldinn sem veiddust í gildrur hafði skipti tugum hverja nótt.
Það var svo um miðjan ágúst, þegar nóttin er alveg orðin niðdimm, að vaktmaðurinn í FES heyrði fyrirgang fyrir utan gúanóið. Hann leit út og sá þá holskeflu af rottum koma sreymandi að verksmiðjunni. Hann áætlaði að fjöldinn hefði skipt þúsundum og nú fóru þær hvorki hljóðlega né skipulega. Þær hlupu tístandi og skrækjandi, og ruddust hver um aðra þvera inn um öll göt og op sem hægt var að finna. Á ótrúlega skammri stund hvarf sú síðasata niður í niðurfall rétt fyrir framan furðu lostinn vaktmanninn.
Rotturnar voru komnar heim.

   (22 af 35)  
5/12/07 04:02

hlewagastiR

Þetta er eitthvert best heppnaða félagsrit sem hér hefur birst lengi. Málfar er til fyrirmyndar, frásögnin lifandi og vissulega afar fróðleg. Þetta afsannar líka að skjátexti lengri en 200 nái ekki athygli lesenda. Ef hann er nógu góður gerir hann það.

5/12/07 04:02

Upprifinn

Þetta er skemmtileg lýsing á leiðindafyrirbæri.

5/12/07 04:02

Andþór

Takk fyrir þetta.

5/12/07 04:02

Kargur

Merkilegt rit. Fyrr í kveld var bróðir minn, þó eigi Útvarpsstjóri, að tala um að engin skepna hefði farist í flóðbylgjunni sem skall á asíu um jólin 2004.

5/12/07 04:02

krossgata

Það eru til margar sögur af dýrum sem virðast hafa einhverja tilfinningu fyrir náttúruhamförum og bjargast. Einhver merki virðast þau því geta greint, stundum.

5/12/07 04:02

Regína

Af hverju ertu að segja þetta fyrst núna? Það eru áratugir síðan þetta gerðist.

5/12/07 04:02

Útvarpsstjóri

Mýs snúa opunum á vetraholum sínum víst alltaf undan þeirri vindátt sem mun ríkja þann veturinn.

5/12/07 04:02

Apríl

Afsakið að ég skuli reka hér inn nefið Huxi.
Ljómandi góð frásögn, dýr hafa svo sannarlega sjötta skilningarvitið.

5/12/07 04:02

Golíat

Takk fyrir þessa skemmtilegu frásögn Huxi. Og bið að heilsa Fesurunum, sérstaklega Jónasi straumfræðingi.

5/12/07 05:00

Herbjörn Hafralóns

Athyglisverð frásögn.

5/12/07 05:00

Jóakim Aðalönd

Magnað. Ég hef alltaf borið óttablandina virðingu fyrir rottum.

5/12/07 05:00

Garbo

Skemmtileg frásögn.

5/12/07 05:01

Tigra

Ég var einu sinni að keyra þegar skyndilega skall á mikill vindur og risa regndropar hrundu niður.
Þá tók ég eftir því að ég sá hvergi neinar kindur. Ég sá hóp af hestum hlaupa úr þeirri átt sem ég var að keyra í, og ég sá kýr klöngrast yfir girðingar og ofan í skurð.
Mér varð hreint ekki um sel - en keyrði þó áfram. Örstuttu síðar laust eldingu niður á veginn beint fyrir framan bílinn.
Dýrin höfðu vit á því að flýja eða leita á lægri grund (ofan í skurð).

5/12/07 05:01

Huxi

Takk fyrir góðar móttökur á pistlingi þessum.
Kargur: Það fórust reyndar dýr í þúsundatali í Jólaflóðbylgunni í Asíu, en samt sem áður alveg ótrúlega fá villidýr. Sértaklega var þetta áberandi ásvæðum þar saem dýrin áttu greiðan aðgang að hærri stöðum.
Regína: Þó svo að þetta hafi gerst fyrir 35 árum síðan, frétti ég ekki af þessum búferlaflutningum nagdýranna fyrr en fyrir ári síðan. Það var svo núna fyrir örfáum dögum að ég fékk nákvæma frásögn af því sem gerðist.
Apríl: Þú þarft alls ekki að biðjast afsökunar á nærveru þinni apakrútt. Það eru allir ávallt velkomnir í heimsókn til Huxa.
Golíat: Það er nú ekki svo gott að ég þekki til í Fes og þú verður að fá einhvurn annan til að bera kveðjur þangað.

5/12/07 05:02

Apríl

Apríl: Þú þarft alls ekki að biðjast afsökunar á nærveru þinni apakrútt. Það eru allir ávallt velkomnir í heimsókn til Huxa.

Ég kem í heimsókn þegar þú hættir að hata mig.

5/12/07 05:02

Huxi

Apríl aparass: Hver hefur komið þeirri huxun inn í þinn loðna haus að ég hati þig? Það getur vel verið að ég hafi einhverntíma verið ósammála einhverju sem eitthvað af birtingarmyndum þínum hefur skrifað. En að ég hati einhvern er ljótt að segja um mig og algjörlega ósatt.

5/12/07 07:01

Günther Zimmermann

Regína: Hvernig getur tími sem liðinn er frá atburði verið skilgreinandi þáttur í því hvort hann eigi erindi við okkur eða ekki? Stjórnkerfið sem við búum við á Íslandi í dag er skilgetið afkvæmi frönsku stjórnarbyltingarinnar; kemur hún okkur ekki við af því að það eru rúm tvö hundruð ár síðan hún átti sér stað? Sama má segja um athuganir og miðlun þeirra á atferli dýra, hafna ég dæmi, hafi ég áhuga á atferlinu, vegna aldurs þess? Ef til væri vitnisburður um samsvarandi hegðun rotta í Pompeii 79 f. eða e. Kr. (man aldrei hvort) ættum við að hafna honum sökum aldurs?

5/12/07 08:01

Vladimir Fuckov

Þetta er stórmerkilegt [Klórar sjer í höfðinu].

5/12/07 09:00

Jóakim Aðalönd

Það var 79 eftir Sússa.

31/10/09 05:01

Sannleikurinn

tómt kjaftæði hr. Huksi

Huxi:
  • Fæðing hér: 20/9/07 20:16
  • Síðast á ferli: 19/5/20 12:12
  • Innlegg: 8180
Eðli:
Alltaf gapandi. Óáreiðanlegur tækifærissinni og pólitískur ójafnaðarmaður. Besti vinur þess sem er við völd eða á péning.
Fræðasvið:
Doktor í fáfræði. Ónytjafræðingur með sundrunarlíffræði sem sérgrein. Veit allt um ekki neitt...
Æviágrip:
***Top secret***
[Ritskoðað]
Huxi var fæddur að -----------------þann ------- og ólst upp að -------------------- Eftir nám -------------------------------------- sem -------------------------------------------------------- en þar var þá kennari --------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- Hann fór síðan til starfa að ------------------- en ---------------------------------------------- Ekkert varð úr frekari ------------------------------------------------------------------- ------------------------------ Hann kynntist fljótlega ------------------------------------------------------------------------------ en ekki varð það henni til framdráttar. Huxi flutti þá til ---------------------------------og þar skrifaði hann sín helstu verk um ---------------------------------------------------------------------. Eftir komu sína til ---------------------------------------------------- hefur hann ekki getað á sér setið að blanda sér í umræður ----------------------------- og ------------------------------ en yfirleitt með -----------------------. Huxi er nú í sambúð með Færeyingnum og hefur undanfarið helst skipt sér af því hvernig sá sakleysingi lifir lífinu ásmt með því að tjá sig á hinum ýmsustu vefsíðum s.s.-----------------------------------------------Þar er ekki tekið mark á honum þar ferkar en annarstaðar samkvæmt áætlun sem ---------------------------------------------------------------------