— GESTAPÓ —
krossgata
Heiðursgestur.
Dagbók - 31/10/07
Ég telst víst óttalegur drullusokkur.

Er það nokkur hemja að venjulegur íslendingur sem að sjálfsögðu getur ekki náð þeirri merku stöðu að teljast venjuleg manneskja standi upp þegar hún hefur fallið?

Einu sinni lenti ég kreppu. Þannig var mál með vexti að ég þekkti manneskju sem var að reyna að berjast við að lifa eins og við öll. Hún lenti í fjármagnsskorti og þurfti lán til að hafa í sig og á. Ég þekkti þessa manneskju að góðu einu og gekkst í ábyrgð fyrir hana. Hún hafði sig upp úr forinni með láninu, en missti sjónar á skynseminni einhvers staðar og fór á fullri ferð skör hærra en skynsamlegt var og hélt áfram þaðan.

Á hraðferð sinni varð henni það á að gleyma að borga lánið sem hún fékk. Það varð að feitri skuld sem fitnaði stöðugt. Það var nú samt svo merkilegt að ekki gleymdist að friða rukkarana reglulega svo skilaboð um að skuldin safnaði spiki komu aldrei til mín... fyrr en allt var komið í óefni og manneskjan stungin af til svíþjóðar.

Ég mátti af vanefnum borga skuldina, sem var fyrir löngu orðin meiri en það sem ég gekk í ábyrgð fyrir. Nú er það svo að það voru fleiri í ábyrgð fyrir láninu og af því að ég dirfðist að hafa snefil af sjálfsvirðingu og ögn af skynsemi á þessum krepputímum þá krafðist ég þess að hinn ábyrgðaraðilinn borgaði helminginn. Ég fékk því framgengt illmennið sem ég er að láta fátækan fjölskylduföður í fjármálakreppu, sem manneskjan hafði skapað honum, borga sinn hluta.

Ég sé það núna þegar þrengir að hjá okkur illmennunum að auðvitað hefði ég, heimska illmennið á horriminni, átt að taka því þegjandi og hljóðalaust að borga bæði mitt og hinna. Ætli það réttasta í stöðunni sé ekki að ég fari skríðandi til nefnds fjölskylduföðurs og skammist mín og borgi hans skuldir líka? Það virðist vera það eina sem svona óþjóðalýð sæmir.

   (4 af 26)  
31/10/07 11:02

Billi bilaði

<Sækir um lán hjá krossu>

31/10/07 11:02

Offari

Ég satt að segja verð að segja að þú sért heppin að lenda ekki ein í tjóninu. Fátæki fjölskyldufaðirinn var líka heppinn að þú skyldir taka þátt í þessu.

31/10/07 11:02

Kargur

Náðirðu einhvurn tíman í skottið á ófétinu sem þú gekkst í ábyrgð fyrir?

31/10/07 12:00

Upprifinn

Ertu til í að skrifa nafnið þitt á þessi fimm blöð?

31/10/07 12:00

krossgata

Nei Kargur, ekki þannig lagað... það er ekkert að sækja þar. Ég hafði mig hægt og bítandi upp úr kreppunni.

Offari þetta er einstaklega góður punktur hjá þér. Ég vildi óska að þjóðir þessa heims litu svo á í kreppunni að það væri kostur að hver tæki á sínu í stað þess að leita að einhverjum logandi ljósið til að taka allt.

31/10/07 12:00

krossgata

Já Uppi minn ertu ekki óskaplega skynsamur maður?

31/10/07 12:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Þettað huggar sjálfsagt ekki þá hundruði þúsunda
sem hafa tapað aleigunni í Íslenskum þikjustunnibönkum . Asnalegast er þó að fólk upp til fjalla þikji þettað bæði findið og altíllagi . Á bak við hverja tölu er einhver lítil kona eða maður. Ég er handviss um að ef enskur banki hefði platað skóna af íslenskri fjölskyldu skyldi sá hinn sami réttdræpur vera í augum
hvers og eins okkar .

31/10/07 12:00

krossgata

Nei örugglega ekki GEH þú hefur opnað augu mín fyrir því að við verandi íslendingar eigum bara skilið að missa aleiguna verandi íslendingar og ég bið þig innilega afsökunar á að hafa staðið upp úr aumingjaskapnum aftur og á að hunskast ekki til að borga skuldir hinna líka.

31/10/07 12:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Ég fer gjarna á ballið hans Björgólfs enn harðneita að þrífa upp á eftir . Þó svo ég hafi ælt útí horni á Persísku mottuna

31/10/07 12:00

krossgata

Jæja, þér tókst þó að hrella þá aðeins með gubbinu. Ég fór ekki á ballið. Var alltof upptekin við að borga blútbrúsann.
[Glottir eins illmennið sem hún er]

31/10/07 12:00

Garbo

Ég veit alveg hvað það er að borga annarra manna skuldir. Vera svikinn. Það fer ekki vel með fólk.
Bankasukkið er bara allt annar kapítuli.

31/10/07 12:00

Jóakim Aðalönd

Ef brezkur banki hefði opnað útibú hér á landi og farið á hausinn, myndi brezka ríkisstjórnin endurgreiða þeim sem áttu innistæður í bankanum? Ég leyfi mér að efast um það...

31/10/07 12:00

krossgata

Eins og ég sé ástandið í augnablikinu þá er ég sömu skoðunar og Kimi. Fór ekki illa fyrir slatta af bretum þegar fjármálastofnanir tóku að hrynja í bandaríkjahreppi? Af hverju svíður bretum ekki með hljóðum undan því?

31/10/07 12:00

Hugsanlegur arftaki

Ég þakka Guði fyrir það að vera góður maður og ekki eins og öll þessi illmenni

31/10/07 12:00

Villimey Kalebsdóttir

Hvað er fólk að stinga af til Svíþjóðar.. geturu ekki haft uppá viðkomandi ?

31/10/07 12:00

Grágrímur

+ég fékk einusinni manneskju til að vera ábyrgðarmann og ég svaf ílla þangað til lánið var greitt...

31/10/07 12:00

Texi Everto

Lán eru fyrir óreiðumenn og brennuvarga.

31/10/07 12:01

Jarmi

Jarmi er óreiðumaður og brennuvargur, hryðjuverkamaður og illmenni.

31/10/07 12:01

Lokka Lokbrá

Ég skil ekki hvað er kjánalegt eða drullusokkaklegt við það að standa við ábyrgð sína.

31/10/07 12:01

Skreppur seiðkarl

Það er drullusokkalegt að gjaldfella lánið á ábyrgðarmenn sína og svo kjánalegt er maður mætir viðkomandi úti á götu.

31/10/07 13:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ég telst víst óttalegur bullustrokkur.

31/10/07 13:00

Jóakim Aðalönd

Það var enginn að spyrja þig álits Lokbrá. Farðu fjandans til!

31/10/07 13:01

Nermal

Ég hefði geðveikann móral ef ég myndi klúðra svona lánagreiðslum. Annars hef ég heyrt að þetta sé eitt af ráðunum sem gefin eru hjá Ráðgjafastöð heimilana.... Láta allt draslið bara falla á ábyrgðamenn!!

krossgata:
  • Fæðing hér: 20/11/06 10:54
  • Síðast á ferli: 1/2/22 11:03
  • Innlegg: 8534
Eðli:
Stend á krossgötum ráðandi krossgátur.
Fræðasvið:
Orðhengilsháttur og útúrsnúningar.
Æviágrip:
Mætti í heiminn fyrir þó nokkru með töluverðum flumbrugangi, það er töluverðu fyrir tímann og hef síðan velt því fyrir mér hvert halda skuli. Fór að tala fyrir tímann líka og varð læs fyrir tímann. Þetta fyrirtímabrölt hefur allt leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég er greinilega á undan minni samtíð.Safnaði um tíma ambögum, en hef látið það vera um nokkurt skeið.

Örlögin höguðu því svo til að krossgata er vel kunnug staðháttum við Faxaflóa, þó undanskilið sé stór-Reykjavíkursvæðið. Hefur það aukið víðsýni hennar töluvert.