— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Billi bilaði
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Sálmur - 9/12/06
Eftirmæli

Kjarnyrtur strákur á kraftmiklum bæ,
við kindur þú lærðir til verka.
Í Skjaldfannardalnum við dranganna blæ
þú drakkst í þig lífsviljann sterka.

Lítill varð skólinn og lítið var sest,
við lestur þú stundum þó undir.
Laxness og Steinarr þér líkaði best
og ljóðmæli oftast þú mundir.

Um tvítugt að heiman þú heldur af stað,
til höfuðstaðs Vestfjarða kemur,
og kratarnir eru þar komnir á blað,
af körlum þeim eitthvað þú nemur.

Reykjavík sogar þig síðan á brott,
þú sinnir þar margskonar störfum.
En ekki þér líkar við auðvaldsins glott,
þú upp ríst með verkmönnum djörfum.

Í verkalýðsbaráttu beittir þú þér
sem beinskeyttur Dagsbrúnarmaður,
og sögur af átökum sagðir þú mér,
sigrum þú fagnaðir glaður.

Og frjálslyndir vinstrimenn fengu þitt lið,
þið frelsi og jafnrétti studduð.
Gegn órétti börðust, það aldrei fékk grið,
þið ótrauðir brautina rudduð.

Þú fjölskyldu eignast, þá farnast þér vel,
í flestu þið samstiga eruð,
í blíðu og stríðu, ef bar þar að él
þá bökunum saman þið snéruð.

Í fríum til Vestfjarða fóruð þið æ,
og flestum þið hjálparhönd réttuð.
Og sveitanna stemmning var sísprottið fræ
og sálin varð andlega mettuð.

Í góðvinahópi var gáski við völd
og gamanmál vöktu oft hlátur.
Sögur þú þuldir oft seint fram á kvöld
og sannlega varstu þá kátur.

Er Djúpmenn svo byggðu sér Djúpmannabúð
drjúgt var þitt framlag í vinnu.
Að öllum þeim verkum af alúð var hlúð
sem öðru er veittir þú sinnu.

Þið sumarhús byggðuð í sólbjörtum reit,
af samvisku ræktið þið garðinn.
Gróðrinum íslenska gáfuð þið heit,
í gleði þið tókuð út arðinn.

Og landsamband eigenda lóða í sveit
þú leiðir uns barnsskór þess slitna.
Ef stórt varð í sjóinn þú sigldir í beit,
samferðamenn um það vitna.

Nú sagan er búin, og sorgin er sterk,
ég sakna míns réttsýna pabba.
Er hugsa ég til þín ég kökk fæ í kverk;
þú kenndir mér fleir’ en að labba.

   (78 af 101)  
9/12/06 05:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Mikill er sómi að svona myndarlegu kvæði, jafnt þeim sem kveðið er um, sem og höfundinum.
[Lyftir glasi í minningu allra frækinna feðra]

9/12/06 05:01

Anna Panna

[Tárast. Aftur]

9/12/06 05:01

Grýta

Vá! Magnað kvæði. Svo auðlesið og lifandi lýsing á ævi manns.
Innilega samúð Billi.
Föðurarfurinn og minningarnar sem þú átt eru góðar.

9/12/06 05:01

Galdrameistarinn

Tekur ofan hatt og haus.
Svona á að gera þetta.
[Strýkur rykkorn úr auganu]

9/12/06 05:01

Vímus

Ja þetta er hreint ekkert slor Vel ort og segir margt.
Synd að pabbi fái ekki að njóta þess, hvað veit ég nema hann geri það?

9/12/06 05:01

Heiðglyrnir

Samhryggist þér og samgleðst þér líka að eiga svona góðar minningar um hann föður þinn. Megi okkar vegferð verða afkomendum okkar slík uppspretta andríkis. Skál minn kæri.

9/12/06 05:01

Þarfagreinir

Gullfallegt. Ég samhryggist innilega.

9/12/06 05:01

Ívar Sívertsen

Gullfallegt og afskaplega lifandi. Ég samhryggist.

9/12/06 05:02

Offari

Gullfallegt hjá þér. ég samhryggist.

9/12/06 05:02

Útvarpsstjóri

Ég samhryggist og gleðst með þér um leið, það er gott að eiga svona góðar minningar.

9/12/06 05:02

krossgata

Samhryggist Billi. Fallegt ljóð.

9/12/06 06:00

hvurslags

Ja thetta er svo sannarlega vel ort, og thad hefur verid fodur thinum dyrmaett ad fa svona kvaedi eftir sig.

9/12/06 06:00

Golíat

Tek undir með öðrum; samhryggist en samgleðst þó að eiga þó slíkar minningar. Vissulega falleg eftirmæli.

9/12/06 06:01

Billi bilaði

Þakka ykkur fyrir.

9/12/06 06:01

Isak Dinesen

Fallegt. Ég samhryggist þér.

9/12/06 08:00

Jóakim Aðalönd

Ég tek í sömu strengi og aðrir hér. Skál fyrir minningunni!

9/12/06 08:01

krumpa

Ákaflega fallegt og vel ort.

Billi bilaði:
  • Fæðing hér: 19/9/06 13:06
  • Síðast á ferli: 7/3/24 12:25
  • Innlegg: 27978
Eðli:
Ég er Billi bilaði,
í bragfræði var slyngur.
En skáldgáfunni skilaði
og skipti fyrir glingur.
Fræðasvið:
Harmleikir.
Æviágrip:
Fæddur 10.12.2003 úr grjóni.
Eigandi og aðalleikari í Leikhúsi Billa bilaði (sem nú er komið úr Skrumgleypinum).