— GESTAPÓ —
Regína
Heiðursgestur.
Saga - 2/11/07
Gemmér.

Ég heyrði ömmu koma upp stigann. Göngulagið hennar var auðþekkt, hún var þungstíg, farin að stirðna og gekk hægt. Það brakaði í handriðinu því hún notaði það að fullu til stuðnings. Hún kom svo inn í herbergið mitt þar sem ég lá uppi í rúmi og las í bók. Hún opnaði litla makkintosdós og otaði að mér, í henni voru brjóstsykursmolar og suðusúkkulaði.

„Fáðu þér mola“, sagði hún. „Það er svo gaman að gefa þér, þú biður aldrei um neitt“.
Ég fékk mér mola. „Fáðu þér annan“, sagði hún, og ég fékk mér annan. Svo gekk hún yfir til systur minnar og gaf henni líka tvo mola, með sömu orðum, það væri svo gaman að gefa henni, því hún bæði aldrei um neitt.

Ég var svosem ekkert að velta þessu fyrir mér, hún gerði þetta stundum, og ég sá ekki ástæðu til að sníkja neitt úr dósinni sem var alltaf falin hvort sem er, og mér var alveg sama hvar.

Löngu seinna áttaði ég mig á að hin barnabörnin höfðu verið í heimsókn og suðað: „Amma, gemmér nammi“. Amma gaf þeim nammi, og þegar þau voru farin fór hún stundum í leiðangur til að gefa okkur systrunum líka. En ekki alltaf.

Enn síðar áttaði ég mig á því að þau af barnabörnunum sem voru alltaf að heimta nammi þegar þau komu til ömmu fengu miklu meira nammi en við systurnar.

Ætli það sé svona með allt?

   (13 af 23)  
2/11/07 20:01

Jarmi

Skemmtilegt félagsrit.

Og já, þeir sem heimta hæst fá mest... oftast.

2/11/07 20:01

Herbjörn Hafralóns

Sjálfsagt er það þannig að þeir, sem heimta mest og eru frekastir fá meira en við, sem alltaf erum stillt og prúð.
[Setur upp geislabauginn]

2/11/07 20:01

Regína

Ég er allavega afskaplega þakklát heimtufrekjunum í stéttarfélaginu mínu svona gegnum árin.

2/11/07 20:01

hvurslags

Brjóstsykur og suðusúkkulaði blandað saman í makkintosdós - vá hérna fékk ég sko þáþrá. Amma er með þetta nefnilega nákvæmlega eins.

2/11/07 20:01

Skreppur seiðkarl

[Komst að því að hvurslags er annaðhvort systir Regínu eða heimtufrekt kvikindi]

2/11/07 20:02

Garbo

Já, er það ekki?

2/11/07 20:02

Billi bilaði

Þeir freku fá kannski meira, en eru þeir ánægðari með það?
Þetta er annars flott rit. <Ljómar upp>

2/11/07 20:02

Upprifinn

Já og það voru örugglega þessi frændsystkyni þín sem settu allt á hausinn.

2/11/07 21:01

Regína

En þeir sem finna dósina og taka sér sjálfir? [Glottir] Fá þeir mest?

2/11/07 21:01

Hexia de Trix

Það má vel vera að heimtufrekjan geri það að verkum að heimtarinn fær meira en aðrir. Hins vegar er líklegt að þegar amman talaði um barnabörnin við aðra, hafið þið systurnar fengið meira hrós og gott umtal en hin barnabörnin hennar. Ég er viss um að það dugar lengur en súkkulaðimoli í munni...
[Langar samt í nammi]

2/11/07 21:01

Fergesji

Orðstír deyr aldregi
hveim sér góðan getur.

Eigið þér við það, Hexia?

2/11/07 21:01

Regína

Æ, ég varð stundum svolítið leið á mærðinni í henni ömmu.
Svo er ég oft að hugsa núna að ég mætti vera dálítið heimtufrekari, það finnst engum gaman að gefa mér eftir að amma dó.

2/11/07 21:01

Lopi

Eins og sjá má á atburðum síðustu vikna er best að finna dósina sjálfur og passa að enginn fatti það. Það má t.d. ekki taka of mikið í einu og best er að taka þegar aðrir eru að fá reglulega gefins úr henni. Svo má ekki játa að hann hafi tekið úr dósinni í leyfisleysi fyrr en mörgum mörgum árum seinna.

2/11/07 21:01

Billi bilaði

Hvað meinarðu Regína? Skabba finnst mjög gaman að gefa þér Ákavíti, og kargur er sko ekki nískur á neftóbakið!

2/11/07 21:02

krossgata

Mikið vill meira segir einhvers staðar. Skemmtilegt rit.

2/11/07 22:00

Regína

Billi, má ég gefa þér neftóbak og ákavíti?

Lopi: Svei mér þá, þú gætir verið annar af bræðrunum. Ömmu fannst ekkert gaman að gefa þeim minnir mig.

2/11/07 22:00

Bleiki ostaskerinn

Heimtufrekjurnar fá oftast mest.. En heimtufrekur einstaklingur getur átt það á hættu að einhver geri honum grikk í staðin, til dæmis að hrækja í kaffibollann hans.

2/11/07 22:01

Billi bilaði

Ef þú hefur gaman af því. <Skoppar út>

2/11/07 22:01

Hexia de Trix

Fergesji: Já, nokkurnveginn það sem ég var að reyna að segja. Maður getur náttúrlega ekki toppað sjálf Hávamál... [Starir þegjandi út í loftið]

Regína: Mér finnst gaman að gefa þér kakó! [Ljómar upp og gefur Regínu kakó. Áttar sig í tíma og býður öllum þræðinum kakó líka]

Krossgata: Meinarðu ekki MikiLL vill meira?

2/11/07 22:01

Dexxa

Kunna heimtufrekjurnar þá nokkuð að meta hugulsamar gjafir gefnar alveg uppúr þurru.. eða fá þeir nokkurn tíman þannig gjafir?

2/11/07 22:01

Regína

[Ljómar upp] Takk Hexía!

Jújú, heimtufrekjur kunna að meta gjafir, sérstaklega ef þau fá það sem þau langar í. Þau eru hins vegar ekki par ánægð ef þau fá eitthvað annað gefið af jafn góðum hug.

2/11/07 22:02

Þarfagreinir

Bleiki ostaskeri - Varstu að horfa á kvikmynd sem heitir Waiting... [Glottir eins og fífl]

Annars er alltaf einfaldast að biðja um það sem manni langar í. Mig langar reyndar sjaldan í nokkuð, þannig að ég er lítið að velta þessum hlutum fyrir mér.

2/11/07 23:00

Billi bilaði

<Dinglar Cray tölvu framan í Þarfa til að sjá hvort það sé satt að hann langi ekki í margt...>

2/11/07 23:01

Wayne Gretzky

"Annars er alltaf einfaldast að biðja um það sem manni langar í"

2/11/07 23:01

Wayne Gretzky

Þarfi þó!

2/11/07 23:01

Þarfagreinir

Nú langar mig til að vera betri í íslensku. [Brestur í óstöðvandi grát]

Regína:
  • Fæðing hér: 17/9/06 15:56
  • Síðast á ferli: 11/3/24 15:28
  • Innlegg: 25218
Eðli:
Hlédræg, hógvær, hlýleg og virðuleg. Elskuleg kona sem man tímana tvenna, eða þrenna.
Fræðasvið:
Hallarblæti, teningaþvætti, nýliðaþjálfun.
Æviágrip:
Þið getið lesið minningargreinarnar ef þið lifið lengur en ég.
Þangað til skuluð þið bara fylgjast með.