— GESTAPÓ —
Fíflagangur
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/07
Veiðisaga úr raunheimum - fjórði hluti.

Biðst forláts á ritstíflunni. Líka því að hafa ekki mætt á árshátíð. Vantaði sárlega sjúkraflutning.

Þetta var trúlega svipað því að lenda í þeytivindunni. Það eina sem ég vissi að ökklinn hafði brotnað í urðinni og ég hafði flogið einhverja metra áður en ég lenti næst. Ég get ekki sagt að ég muni neitt eftir fallinu eftir flugið þar til ég stöðvaðist loks, nema hvað ég rúllaði svakalega hratt og hvað það kom mér á óvart við hverja viðkomu við móður jörð að ég væri ekki dauður.
Ég rankaði við mér liggjandi á hægri hlið, með lappir undan brekkunni og klett við andlitið. Þakklætinu fyrir þá hundaheppni að vera á lífi verður ekki lýst með orðum. Ég er nokkuð viss um að ég rotaðist ekki, en það tók nokkur andartök að ná áttum, var var ótrúlega ringlaður og mjög flökurt. Það fyrsta sem ég gerði var að teygja mig í símann. Ég ætlaði sannarlega að vera búinn að hringja í neyðarlínuna áður en ég liði út af. Þegar ég stakk höndinni í vasann vakti undarlegt hljóð og nístandi sársauki athygli mína á því að hægra viðbeinið var brotið. Ég ákvað því að hreyfa mig sem minnst, hringja bara og láta ekki reyna á það hvort fleira væri mögulega brotið.
Það var gott að heyra rödd konunnar hjá neyðalínunni.
" Góðan daginn. Ég heiti fíflagangur og var að detta og meiða mig. Ég er ökkla- og viðbeinsbrotinn og var á rjúpnaveiðum." Ég gerði henni síðan grein fyrir því hvar ég væri, eins nákvæmlega og hægt er í gegn um síma ef maður hefur skilið GPSinn eftir í bílnum eins og asni. Sem betur fer er ég mjög vel staðkunnugur og auðvelt að lýsa staðháttum þannig að hægt væri að staðsetja mann á korti í hvelli. Þegar hún var búin að athuga frekar með ástandið á mér, bað hún mig að bíða eftir hringingu. Ég geri ráð fyrir að útkallsferli hafi þá farið í gang. Reyndar hleraði ég síðar að ákveðin mistök hefðu orðið í upphafi útkalls, en það var fljótlega leiðrétt af heimamönnum.
Á meðan ég beið eftir símtalinu fór ég að líta í kring um mig og þreifa á mér. Ég hafði þegar gengið úr skugga um að haus og háls væru í lagi, ásamt því að ökklinn var þurr. ég gat ekki fundið að nokkuð annað væri brotið, en var helvíti illt í vinstra læri og rasskinn. Annars var ég bara helvíti fínn. Ég reyndi að mjaka mér í þægilegri stöðu en öxlin leyfði engin átök, aukþess sem hver hreyfing færði mig nær brúninni á syllunni sem ég lá á. Af henni var ekki nema um metra fall niður á skafl sem var trúlega um hundrað metra langur niður eftir fjallinu. Eftir nýfengna reynslu var ekkert sérstaklega freistandi að renna niður þann skafl líka. Þannig að ég reyndi bara að vera kyrr.
Kletturinn sem ég lá við skýldi mér fyrir golunni auk þess sem í honum var egghvöss lárétt sylla sem rúmaði einmitt síma og sígarettupakka.
Ég fékk mér smók og reysti mig upp á olnbogann. Við mér blasti það sem ég tel fallegasta útsýni á Íslandi. Neðan við mig um kílómeter til vesturs voru rústirnar i túninu að Hafurstöðum rammaðar inn af Djúpadalsá og Fossá sem kysstust neðan túnsins glampandi í sólinni. Sandurinn á eyrunum þar neðan teygði sig kolsvartur niður að Hlíðarvatni sem var eins og klippt í tvennt þar sem ísinn mætti opnu vatni. Sunnan megin teygði Sandfell sig upp frá vatninu með svörtum sandi og hvössum hraunstrýtum og Djúpidalurinn opnaði sig handan Nautaskarða með Rögnumúla í baksýn þar sem Paradísin breyddi úr sér á móti mér. Norðan vatnsins sá ég alla leið heim að Hlíð fram hjá Stekkjaborginni. Þar hangir Hlíðarmúlinn yfir með sínum snarbröttu klettabeltum sem voru óvenju ljós í sólinni nema þar sem Þríhellurnar vörpuðu svörtum skugga þar sem þær skaga út úr klettunum. Handan vatnsins horfði ég yfir tangana teygja sig út í vatnið eins og fyrirbrigði úr Alien mynd, sem skaparinn teiknaði þegar hann lokaði dalnum með hrauni. Þessi teikning skaparans er þeim mun merkilegri og fegurri fyrir þær sakir að hraunið hleypir vatninu að nokkru leiti í gegn um sig svo vatnshæðin hleypur á átta metrum. Hrauntangarnir eru því síbreytilegir, málverkið er aldrei eins.
Það var eins og útsýnið fyllti mig krafti og ég var algerlega áhyggjulaus um stöðu mína lengst uppí fjalli, mölbrotinn og lemstraður. Ég vissi að hjálp var á leiðinni, ég var á lífi og var á fallegasta stað á jarðríki. Ég gat ekki annað en hugsað: "Ef maður ætlar að drepast á annað borð, hefði ekki verið ónýtt að gera það hér. Verst að maður hefði misst af því."

   (3 af 24)  
1/11/07 20:02

Regína

Skemmtileg frásögn. Svo er gaman að reyna að átta sig á hvar í jarðríki þú ert þarna síðast.

1/11/07 20:02

Günther Zimmermann

Þetta hlýtur að vera á Arnarfelli hinu mikla.

1/11/07 21:00

Billi bilaði

Var hundurinn stunginn af?

1/11/07 21:01

Fíflagangur

Hundurinn bíður næsta kafla. Held mönnum ætti að reynast létt að finna Hlíðarvatn á korti.

1/11/07 21:01

Skabbi skrumari

Skemmtileg frásögn... Skál

Fíflagangur:
  • Fæðing hér: 22/8/03 13:35
  • Síðast á ferli: 24/9/11 11:06
  • Innlegg: 82
Eðli:
alltaf fullur
Fræðasvið:
lög
Æviágrip:
ætíð fullur