— GESTAPÓ —
Fíflagangur
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/07
Veiðisaga úr raunheimum - fyrsti hluti.

Gerfisjálf mitt í svokölluðum raunheimum brá sér á rjúpu um síðustu helgi. Segir hér af því.

Í upphafi rjúpnaveiðitímbilsins hef ég haft það fyrir sið undanfarinn áratug að ganga einn dag til rjúpna í landi föðurfjölskyldu minnar í Hnappadal. Þetta er ægifagurt svæði, en nokkuð erfitt yfirferðar og því afskaplega endurnærandi og gefandi að hafa þessa ástæðu til að blekkja sig í fjallgöngu. Þarna smala ég líka árlega, en það er önnur upplifun að þeyta þarna um á hestbaki og garga á rollur, en að eiga dag með sjálfum sér á fjöllum og ráða algerlega ferð og tíma.
Það leit reyndar ekki út fyrir að ég kæmist til fjalla um síðustu helgi. Ég átti víst að dekka helgarvaktina í kompaníinu mínu, en þar sem ég á afar yndislega konu tók hún laugardaginn að sér og ég skellti mér vestur, upp á von og óvon um veður.
Þegar vestur var komið undir átta fékk ég mér hefðbundinn kaffibolla hjá frændfólkinu, ræddi helstu fréttir og afgreiddi öll helstu pólitísku álitaefni á korteri. Það er létt verk á þeim bænum. Ég komst líka að því að karlarnir sem árlega eru með mér í fjallinu myndu ekki mæta þennan daginn, svo ég yrði einn í fjallinu. Það hljómaði svo sem fínt, þar sem það einfaldaði mjög leiðarval á fjallið. Lét ég því vita hvert ég ætlaði og hélt af stað inn að eyðybýli í dalbotninum. Þangað var nokkuð torfært, en Fordinn hafði það nú allt með þolinmæði og þrautsegju. Þegar þangað var komið þurfti að smala tryppastóði úr túninu, sem var reyndar afar skemmtilegt þar sem það var eins og andskotinn hefði hlaupið í þau og þa ðstóð sko alls ekki til að fara út um hliðið. Það endaði á því að Fordinn var tekinn til kostanna og túnið smalað á honum. Hann mæddist ekki jafnmikið og ég svo tryppin gáfu sig á endanum og röltu lúpuleg úr túninu fyrir rest. Þá var hægt að leggja bílnum án þess að eiga það á hættu að hrossin nýttu sér fæðubótaefni þau sem hross telja víst að finna megi í lakki bifreiða.
Þá var kominn tími til að gera sig kláran og halda á fjallið. Rjúpnavestinu góða var komið fyrir á herðunum og fyllt á með eftirfarandi nauðsynjum:
20 rjúpnaskot (temmilegti til að skjóta 10 rjúpur og hitta illa)
2 Snickers og 3 ótilgreind stykki af e.k. próteinstöngum óætum með öllu.
1 brúsi af Powerade, aðallega sem verðandi hentugur vatnsbrúsi.
Aukaflíspeysa og húfa.
Að auki voru í vösum:
Fullhlaðinn GSM sími.
Aukarafhlöður í GPS.
Fullur pakki af sígó, til að hindra ferskloftseitrun.
Tveir mjög alvarlegir feilar voru gerðir. Annarsvegar urðu mannbroddar sem ég hef notað undanfarin ár eftir heima í bílskúr. Þessir mannbroddar eru fyrirferðarlitlir og spennast neðan á gönguskó án þess að finnist að ráði fyrir þeim á gangi, nema á flötu grjóti. Hins vegar var stóri feillinn þegar ég lagði GPSinn á húddið á bílnum eftir að hafa læst staðsetninguna á honum í tækið. Hann varð sumsé eftir á húddinu. Þetta uppgötvaðist þegar ég var kominn upp i fjall, en þar sem skyggni var afar gott og ég vel staðkunnugur taldi ég það ekki koma að sök. Og hófust því ævintýri hin mestu.
Við Klængur gengum af stað sem leið lá á inn með Skál, inn að og upp með Illagili. Téður Klængur hefur aldrei komið á rjúpnaveiðar fyrr, enda ræktunin á Cavalier King Charles Spaniel síðast miðuð við fuglaveiðar eitthvað um aldamótin 1500. Hann var samt afar áhugasamur um ferðina og skottaðist út um allt eins og hann leitaði rjúpna af miklum móð. Þetta átti eftir að koma honum verulega í koll þar sem hann hljóp talsvert lengri leið en ég. Við gengum fram og aftur brúnirnar upp á Skálarfjallið, allt frá skál að gili. Þetta eru helvíti margir bekkir og ómögulegt að hafa neina yfirsýn, það þarf einfaldlega að ganga allt svæðið til að vita hvort það er fugl eður ei.
Undir hádegi þótti mér orðið ljóst að annaðhvort væri andskotann enginn fugl í fjallinu í ár, eða ég væri staurblindur með öllu. Ég fékk mér því sæti á kletti, þar sem ég hafði nokkra yfirsýn, fékk mér smá snarl að éta og langþráðan smók. Þar sem ég sat þarna og klóraði hundinum og reykti rak ég augun í kúlu í skafli framundan sem gæti allt eins verið rjúpa. Það er reyndar algengt á rjúpnaveiðum að allt virðist vera rjúpa sem maður sér, sérstaklega í birtu sem þessari. Ég var staddur norðanmegin í fjallinu, í skugga fyrir glampandi sólskini. Það var því ekkert annað að gera en að klára smókinn í rólegheitunum, standa upp og rannsaka málið nánar. Ég gekk að blettinum og þegar ég átti um tuttugu metra eftir var enn ekki orðið ljóst hvort þetta var rjúpa eða snjóbolti. Hún virtist kúra sig þarna greyið í bælinu sínu í miðjum snjóskafli með hausinn langt ofan í herðum.
"Þetta var fjandakornið ekki rjúpa, svona steinsofandi ennþá um hádegisbil um frostmarkið. Jæja, ég hlunka bara á kvikindið frekar en að fara nær og fæla hana upp."
BAMM! Jújú, þetta var rjúpa.
Það rann upp fyrir mér að hundkvikindið hafði aldrei heyrt byssuhvell fyrr, enda var hann lagstur milli lappanna á mér með skottið milli lappanna á sér. (og mér ef út í það er farið) "Jæja, æfingin skapar meistarann. Komdu hundur og finndu rjúpuna."
Þar sem ég gekk að rjúpunni reyndi hundurinn að koma mér í skilning um að hann væri í raun kjölturakki og mér bæri að taka hann umsvifalaust í fangið og veita honum áfallahjálp. Hann tók ekki eftir rjúpunni fyrr en ég dró hana undan framlöppinni á honum þar sem hann mændi á mig augum sem létu hvítu selkópana hennar Brigitte líta út eins og mannæturottvæler.
"Jæja, hann fattar þetta fyrir rest, það hafa allir hundarnir mínir gert hingað til."
Við héldum áfram ganginum þar til maður og hundur voru orðnir verulega þreyttir. Þegar við settumst niður áttaði ég mig á því að það var ekkert með í för sem gat gefið hundinum orku af viti.
"Andskotans meðferð er þetta á þér greyið mitt"
Ég reif innar úr rjúpunni hjarta, fóarn og lifur og gaf hundinum. Þegar ég skoðaði fóarnið kom í ljós að rjúpan hafði eingöngu verið að gæða sér á berjum, sem ég hef ekki fyrr séð í rjúpu á veiðitíma. Það er ekki furða að greyið hafi hrotið fram að hádegi, öll ber eru vel gerjuð um þessar mundir. Hundurinn var afar ánægður með hjarta og lifur, en fóarnið vildi hann ekki sjá, enda trúlega bindindishundur.
Hálftíma seinna komum við að tveimur rjúpum sem kroppuðu í lyngið við í skaflkanti. Þegar við vorum komnir í tuttugu metra fjarlægð flugu þær upp.
BAMM!
"Önnur niður, yesss!"
BAMM!
"Hin niður ... eða hvað? Hún settist bara enn nær mér."
BAMM!
"Andskotinn, hvernig í fjandanum er hægt að hitta ekki sitjandi rjúpu á tíu metra færi?"
Ég fylgdist með kvikindinu fljúga niður hliðina um hundrað metra, taka síðan strikið tíu metra beint upp í loftið og detta síðan niður steindauða. Ég brosti í kampinn.
"Hauslausar hænur, auðvitað hitti ég."
Enn tókst ekki að virkja áhugann hjá hundinum á dauðum rjúpunum. Hann hafði mun meiri áhyggjur af þessu apparati sem virtist sannfæra þær um að detta dauðar niður með hvelli, og virtist jafnvel hugleiða möguleikann á því að hann sjálfur myndi sannfærast um slíkt.
"Svona kallinn, þú lærir þetta"
Fljótlega gengum við fram á tvær rjúpur enn. Önnur flaug í burt án þess að skoti væri komið á hana svo byssunni var beint að hinni sem var farin að gera sig líklega til að fylgja hinni. Þá var klængur farinn að kveikja á orsakasamhenginu.
"OK. Þarna er rjúpa. Sprelllifandi. Hann lyftir þessu apparati - ergó það er að koma hvellur."
Þegar ég er að ná hlaupinu upp og á rjúpuna finn ég mjúkar loppur læsa sig utan um hnéð á mér og hund reyna sitt ítrasta til að klifra upp legginn á mér. Statementið var greinilegt.
"Ég er kjölturakki. Passaðu mig mannfjandi ef þú ætlar að vera með þennan andskotans hávaða"
Rjúpan leit á mig þar sem ég reyndi að hrista hundkvikindið af fætinum og ég er ekki frá því að hún hafi hlegið ofurlítið þegar hún flaug úr augsýn.
"Jæja Klængur litli. Þú ert nú ljóti asninn. Það er ekki gáfulegt að ergja mann með hlaðna haglabyssu."
Allt var nú samt fyrirgefið, enda komnar þrjár í pokann og ekkert stress í gangi svosem. Við gengum því klukkutíma í viðbót og bættum einni í pokann áður en við ákváðum að halda heim á leið. Það var svosem enn hreindýr í frystinum og fjórar rjúpur fínar í forrétt. Sex væri samt betra.
"Við sjáum til hvað við dettum um á niðurleiðinni, kallinn minn."

Af niðurleiðinni segir í annarri færslu. Hún verður talsvert meira djúsí.

   (7 af 24)  
1/11/07 07:01

Huxi

Jahá. Bara samviskulaus smáfuglamorðingi.
Nei, svona í alvöru talað, þá hef ég það álit á þeim sem fara til rjúpna, að þar fari menn sem séu að framkvæma algjörlega ónauðsynleg dráp á fuglum sem eru svo miklir kjánar að gáfnafar þeirra það jafnast aðeins við vit íslenskra stjórnmálamenn á krepputímum.
En nú er að koma kreppa og það verður meinalaust af minni hálfu að veiða sér rjúpur til matar, þegar það er orðin nauðsyn vegna matarskorts í landinu.
Vér biðjum bara til heilags Enters, ó blessað veri nafn hans um alla eilífð, að sá dagur komi aldrei.

1/11/07 07:01

Fíflagangur

Kæri Huxi.
Okkur er svosem ónauðsynslegt að éta nokkuð annað en hafragraut og gera nokkuð annað en éta, sofa, ríða og skíta, ef út í það er farið.
Það er bara svo ótal margt annað sem gefur lífinu gildi.

1/11/07 07:01

krossgata

Þetta er alónýtur hundur.

1/11/07 07:02

Fíflagangur

Þetta er fínn hundur. Hann verður sprækur þegar hann kemst til vits og ára.

1/11/07 07:02

Kargur

Skaustu hreindýrið sjálfur?

1/11/07 07:02

Fíflagangur

Auðvitað skaut ég það sjálfur. Ekki skaut hundurinn það.

1/11/07 08:00

Móri

"Ein er upp til fjalla,
yli húsa fjær" o.s.frv. ..............

Hlakka til að lesa framhaldið.

1/11/07 08:00

Huxi

Fíflagangur: Eini munurinn á því að fara til rjúpna og því að fara í góða fjallgöngu er að á rjúpnaveiðum drepur þú rjúpur. Ef það gefur lífi þínu aukið gildi að drepa fugla að nauðsynjalausu, þá þarft þú að enduskoða líf þitt frá grunni. Svo minntist ég hvergi á að ég væri á móti fjölbreyttu fæði, svo að athugasemd þín um hafragrautinn heggur hvergi nærri mér eða mínum skoðunum. Ef það er þörf að drepa sér til matar þá finnst mér það sjálfsagt mál, en sportveiðar, t.d. stangaveiði þer sem lax er veiddur píndur og svo sleppt, til þess eins að pína hann aftur seinna, er óþverralegur óþarfi.

1/11/07 08:00

Fíflagangur

Ok segjum þetta þá á mannamáli Huxi minn.
Óttaleg helvítis kelling geturðu verið.

1/11/07 08:00

Huxi

Þú bætir ekki málstað þinn með því að tala niðrandi um aðra. Með því afhjúparðu bara andlega fátækt þína.

1/11/07 08:00

Fíflagangur

Þetta átti ekkert að vera neitt sérstaklega niðrandi. Þetta lýsir einfaldlega skoðanamuninum í hnotskurn.

1/11/07 08:00

Skabbi skrumari

Skemmtileg saga... [hlakkar til að fara sjálfur]...

1/11/07 08:01

Lepja

Mér finnst rjúpa ekki góður matur. Og því myndi ég ekki skjóta hana. En gæs er góð, svoleiðis myndi ég alveg skjóta og borða.

Fíflagangur:
  • Fæðing hér: 22/8/03 13:35
  • Síðast á ferli: 24/9/11 11:06
  • Innlegg: 82
Eðli:
alltaf fullur
Fræðasvið:
lög
Æviágrip:
ætíð fullur