— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Pistlingur - 31/10/07
Um umræðu og ástand

Hér eru birtar tvær tilvitnanir sem vonandi varpa örlitlu ljósi hvor á aðra, og eitt og annað annað í leiðinni.

Úr Bréfi til Maríu eftir Einar Má Jónsson, bls. 50-52 (Ormstunga, 2007):

„Í lokin […] kom fréttamaðurinn aftur á skjáinn og sagði alvarlegur í bragði: „Leiðinlegt atvik gerðist þegar skrúðgangan var að leggja af stað. Óknyttakrakki veittist að Keisaranum með svívirðingum og aðdróttunum og æpti jafnvel upp, að hann væri ekki í neinu. Tryggum þegnum Keisarans sem voru nærstaddir blöskraði þessi ósvinna og þeim tókst að stöðva fúkyrðaflauminn. Þetta illa uppalda barn hefur nú verið fengið í hendur færustu uppeldissálfræðingum sem völ er á, og búast má við því að rannsókn verði gerð í máli foreldra sem svo mjög hafa brugðist skyldum sínum. En til að fá betri skýringu á þessu höfum við fengið hingað einn af okkar færustu hagfræðingum.“
Hann gaf síðan orðið manni sem sat við hliðina á honum.
„Það er óþarfi að gera mikið úr þessu“, sagði hagfræðingurinn alvarlegur í bragði. „Enginn getur tekið minnsta mark á orðbragði eins og því sem barnið hafði í frammi, það er svo augljós fjarstæða. Veit þessi krakki nákvæmlega hver eru rétt hlutföll af polyester og geitarull í híalíni? kann hann skil á þeim nýju og fullkomnu tölvum sem nú eru settar í vefstóla? Þekkir hann lögmál ljósfræðinnar, og skilur hann hvað felst í því frumspekilega hugtaki að vera „sýnilegur“? Hefur hann einhverja þekkingu á skipulagi textílframleiðslunnar í Tannú-Túva? Hefur hann kynnt sér þær samsteypur, fjármálafyrirtæki og grúppur sem ráða nú vefnaðarverslun í heiminum? Hefur hann yfirleitt heyrt getið um þá tækni sem gerir nú kleift að senda textíl með tölvupósti? Hefur hann nokkra minnstu nasasjón af sniðum og útskurðum og niðurskurðum í nútímafatahönnun? Nei, ekkert af þessu veit krakkinn, hann kann hvorki efnafræði, né tölvuvísindi, né heldur hagfræði. Því er ljóst að hann getur ekki sagt neitt af nokkru viti um nýju fötin Keisarans. Þeir sem hafa svo litla þekkingu, á hvaða aldri sem þeir eru, ættu að sýna sóma sinn í að borða karamellur og þegja.“
[…]
En um þetta er meira að segja, meira en þú kannske býst við. Keisarinn var þarna íklæddur sínum nýju fötum. En hann var líka íklæddur öðru, hann var íklæddur hagfræðinni, sem hann hefur nú lesið niður í kjölinn, hann var íklæddur stjórnunarfræðunum, efnahagsáætlununum, efnahagsumbótunum, öllu þessu, sem eru hin sönnu nýju föt.“
Gat nokkur maður haft nokkrar minnstu efasemdir eftir þessi snjöllu orð hagfræðingsins? Það hefur ekki enn komið í ljós.“

Úr stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 2008:

„Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu.“

   (11 af 25)  
31/10/07 09:00

Lopi

Það var allveg hægt að sjá fyrir sér að það gæti komið mikil niðursveifla en að hagkerfi heimsis gæti frosið svona eins og það stefnir í. Nei. Ég hélt að það væri svo risastórt að það mundi ekki vera hægt.

31/10/07 09:00

Andþór

Haha stórgott!

31/10/07 12:01

Lokka Lokbrá

Þú minnir mig á Cervates með samlíkingu þinni og hugarburði. Cervantes er einn af mínum uppáhalds höfundum.

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.