— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Vladimir Fuckov
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 2/11/03
Af hrekkjalómum og ljótum köllum

Saklaus hrekkur eða vandamál ?

Nú er nokkur tími liðinn frá látunum hér í gær, föstudag. Hér er stutt yfirlit yfir atburðarásina fyrir þá er misstu af einhverju: Þetta hófst allt með því að eftir hádegi á fimmtudag (2.12.2004) var stofnaður þráður ('Helvítis truntur og FÍFL!') í Almenna spjallinu þar sem látið var líta út fyrir að sendur hefði verið inn óþverri er ritskoðaður hefði verið burt. Efsta innleggið í þræðinum innihélt hinsvegar frá upphafi textann '[Þetta innlegg var sótthreinsað sökum viðbjóðs - Ritstjórn]'. Sama gildir um hliðstæð innlegg neðar í þræðinum. Hinsvegar hefði eigi þurft að koma á óvart að um óþverra hefði verið að ræða þar eð stutt er síðan afar ósmekklegur 'brandari' birtist þarna - brandari er oss finnst að hefði alveg mátt þýða brottrekstur fyrir þann er sendi hann inn. Á föstudagsmorgun birti Frelsishetjan síðan pistling þar sem því var logið á nokkuð sannfærandi hátt að hann hefði fengið skeyti frá ritstjórn þess efnis að til stæði að loka Gestapó sökum kærumála út af sóðalegum skrifum hér. Ýmsa fór þó brátt að gruna að um e.k. gabb væri líklega að ræða.

Mjög þörf umræða fylgdi í kjölfarið á þessum atburðum þó óskandi hefði verið að sú umræða hefði farið af stað á allt annan hátt. Ljóst er í huga vorum að hnignun hefur átt sér stað á sumum svæðum hér frá því sem var fyrir nokkrum mánuðum. Ástandið í t.d. Miðgarði er þó gott. Hnignunina sáum vér vel er vér hreinsuðum til í Almenna spjallinu um daginn og skoðuðum ýmsa gamla þræði. Hver ástæða hnignunarinnar er vitum vér eigi en hægt er að láta sér detta ýmislegt í hug. Þeir gestir er þar voru virkastir eru eigi jafn virkir og áður, a.m.k. eigi í þessari tegund af umræðum. Og svo er hugmyndaflugið er þarf til að halda uppi jafn skemmtilega 'geggjuðu' andrúmslofti og hér ríkti um tíma e.t.v. takmarkað. Hér sjást þó enn oft skemmtilegir þræðir. Allskyns sóðaleg skrif eru hinsvegar orðin of áberandi. Hafa má í huga að það getur gerst að einhver kvarti yfir einhverju eða jafnvel kæri eitthvað hér ef of langt er gengið - eigi er Gestapó einangrað eyland. Slíkt gerðist sem betur fer ekki núna en ýmsir hér mættu líta í eigin barm og hafa vonandi gert það. Líklega mætti hreinsa eitthvað til í undirheimunum þó meirihluti efnis þar sé í lagi. Og í leiðinni leggjum vér til að undirheimarnir verði ósýnilegir öðrum en þeim er vel þekkja til hér því margt þar lítur eflaust afar einkennilega út í augum ókunnugra. Það mætti t.d. hafa þá ósýnilega öðrum en þeim er eiga að baki a.m.k. 100 innlegg og hafa verið hér í minnst mánuð.

Eftir þessa atburði höfum vér hinsvegar horn í síðu sk. Ljótukallafjelags en það er lokaður hópur með 'ósýnilegt' umræðusvæði hér. Vér erum ekki vissir um að þeir sem þar eru séu stærsta vandamálið heldur er vandamálið frekar að óeðlilegt er að ákveðnir aðilar hér séu verðlaunaðir fyrir eitthvað sem svo er ekki einu sinni opinbert hvað er. Þetta getur leitt til þess að einhverjir reyni með sóðaskrifum að komast þarna inn - sú kenning kom m.a. fram í umræðunum í gær. Hvort rétt er vitum vér eigi en hættan er fyrir hendi. Vér leggjum því til að að Ljótukallafjelagið verði lagt niður. Undirheimarnir nægja sem vettvangur fyrir þá sem þar eru. Og sé ekki vilji fyrir hendi til að leggja það niður viljum vér að birtur verði listi yfir hverjir eru í þessu félagi og hver inntökuskilyrðin eru. Sjálfir höfum vér engan áhuga á að komast þarna inn en verði þetta félag áfram til mætti e.t.v. stofna annað félag til mótvægis, e.k. 'öðlingafjelag' er innihéldi meirihluta friðargæsluliða auk nokkurra valinna gesta (hvað ætti að ræða í því félagi er oss eigi ljóst en það er í raun aukaatriði á þessu stigi). Nú hugsa e.t.v. einhverjir sem svo að það sé snobb hjá oss að leggja þetta til og kann það að vera rétt en vér sjáum engan mun á þessu og að til sé Ljótukallafjelag. En best væri að hvorugt félagið 'þyrfti' að vera til.

Eftir þessa atburði kann að vera að vér förum í löngu tímabæra Gestapóafvötunun einhverntíma á næstu 8 vikum. Það er þó óákveðið en ef af verður stæði slíkt líklega yfir í fáeina daga. Líki oss afvötnunin vel verður hún hinsvegar miklu lengri - ólíklegt er þó að það gerist.

Góðar stundir.

   (55 af 102)  
2/11/03 04:01

Vamban

Vel mælt. Ég skal sitja þér á hægri hönd í öðlingafjelaginu.

2/11/03 04:01

Haraldur Austmann

Ég kem með þér í afvötnun.

2/11/03 04:01

Heiðglyrnir

Þetta voru bestu tímar, og þetta voru verstu tímar.
Framtíðinni felum hvort við komum til með að muna betur.

2/11/03 04:01

Rauðbjörn

Ljótukallafélagið ætti jú, bara að vera til í Andrésblöðum.

2/11/03 04:01

Þarfagreinir

Mér finnst Ljótukallafélagið ágætis hugmynd í sjálfu sér ... en það er augljólega orðinn vettvangur hryðjuverkastarfsemi, og slíkt líðst víst ekki nú til dags. Það þarf að gera eitthvað í þessu, held ég.

2/11/03 04:01

Skabbi skrumari

Ég er sammála Vladimir, Gestapó afvötnun til lengri eða skemmri tíma er líklegur kostur, ef þessir menn taka sig ekki á... sem væri miður...

2/11/03 04:01

Lágkon hamstur

Ég hef fylgst með mörgum umræðuvefum gegnum tíðina, aðallega engilsaxneskum. baggalútur stendur uppúr hvað varðar innihald, kímni og gott málfar. Einnig hef ég séð svona vefi morkna og jafnvel deyja og svo eru aðrir sem aldrei virðast breytast. slashdot.org hefur verið svipaður að gæðum (ekki miklum þó) í mörg ár en t.d. hafa malefnin.com dalað mikið vegna sífellds skítkasts nokkura notenda sín á milli (á stjórnmálaumræðunni). Ekki kann ég neina töfrauppskrift við því að forðast morknun en gæta skal þess þegar nýjum notendum fjölgar fljótt þá getur kúltúrinn breyst (t.d. lokaði vefurinn kuro5hin.org í langan tíma fyrir nýskráningu útaf þessu). Það þyrfti að hafa eitthvað sem gerir nýjum notendum fljótt grein fyrir því hvaða kröfur eru gerðar hér, þetta verður krítískt þegar nýjum notendum óðafjölgar. Eitthvað eins og þessi pistill og umræða um þessa hluti, því ritskoðun ein og sér er ekki nóg, ef kúltúrinn á að haldast þyrfti viljinn til að halda honum að vera hluti af kúltúrnum.
Þetta eru mín tvo sent.
(Er til graf sem sýnir fjölda nýskráninga vs. tíma? það gæti nýst til að sjá hvenær fyribyggjandi átaks er þörf.)

2/11/03 04:01

Skabbi skrumari

Góður punktur Lágkon...

2/11/03 04:02

Limbri

Svo góður að hann hefði eiginlega átt að vera sérstakt Félagsrit.

En varðandi orð Vladimirs.
Þá finnst mér að öðlingafélag ætti að vera alveg óþarft þar sem Baggalútur (Gestapó) var upphaflega Öðlingafélag út af fyrir sig. Hér mátti ávalt treysta á séntilinn, já gott ef manni fannst maður ekki bara vera í heldri manna klúbb þegar maður þvældist um þræðina hér í gleðivímu yfir að hafa fundið sér athvarf í geðveiki internetsins. Nú er aftur á móti of mikil vinna að láta þvæluna framhjá sér fara og hafa heimsóknum mínum hingað fækkað í hlutfalli við það.

Einnig er sífellt erfiðara að finna sér þræði sem maður vill tjá sig á, því ef maður er ekki einn af þeim fyrstu til að bæta við innleggi þá eru lang flestir þræðir búnir að tapa sér niður í eitthvað "baggalútíu-leikrit" eins og skot. Þetta leikrit er svosem gott og blessað fyrir þá sem gaman hafa af því. En að þetta sé á nánast öllum þráðum og yfirleitt meiri hluti innleggja er oft á tíðum voða erfitt. Ég hef tildæmis grun um að margir af skáldasvæðinu myndu tjá sig meira á almennu spjalli ef þeir þyrftu ekki að berjast við "leikritið" til að geta lagt inn sína skoðun.
En þetta er náttúrulega bara væl í mér sem fólk rétt ræður hvernig það tekur.

Lifið heil.

-

2/11/03 04:02

Vladimir Fuckov

Sammála því að punktar Lágkons eru svo góðir og raunar mikilvægir líka að þeir ættu heima í sjálfstæðu félagsriti. Varðandi orð Limbra virðist oss sem farið sé að örla á meiri mun en var á Almennu spjalli og Efst á baugi þannig að 'leikritið' er hann nefnir sé kannski í Almenna spjallinu en að sama skapi minna áberandi en áður í Efst á baugi.

2/11/03 04:02

Ívar Sívertsen

Lágkon og Limbri hefðu báðir mátt leggja sín orð í sér félaxrit. En ég er hins vegar á því að gaman sé að lesa leikritið því ef maður hefur fjörugt og myndrænt ímyndunarafl þá getur þetta verið lífshættulega fyndið.

2/11/03 05:00

hlewagastiR

Þú ert bara öfundsjúkur. Hættu nú að væla.

2/11/03 05:00

hlewagastiR

Þetta átti við Vlad.

2/11/03 05:01

Lómagnúpur

Piltar, svona punktar eiga ekki heima í félagsritum, heldur í Innleggjum á gestapó. Félagsritin eru ætluð fyrir andans listaverk, en ekki umræðu um hverfula dutlunga dagsins annar.

2/11/03 05:01

Skabbi skrumari

Segjum að einhver þráður sé að hleypast upp í vitleysu, farinn að vera um allt annað en þráðarstofnandi ætlaðist til, þörf umræða er farin að fara yfir í einhverskonar kelerí eða fyllerí nokkurra einstaklinga eins og stundum gerist, þá er eitt ráð... það er að friðargæsluliðinn splitti þráðnum upp frá og með þar sem vitleysan byrjaði, það hef ég gert nokkrum sinnum og má í því sambandi nefna buxna umræðuna á Efst á baugi... en hún er klofin út úr öðrum alvarlegri þræði...

Vladimir Fuckov:
  • Fæðing hér: 20/8/03 21:21
  • Síðast á ferli: 23/8/23 21:21
  • Innlegg: 19773
Eðli:
Forseti Baggalútíu. Kóbalt- og hergagnaframleiðsluráðherra og viðskiptaráðherra Baggalútíu. Æðstiklerkur Skipulagsstofnunar Hreintrúarflokksins. Eigandi sálar Ég sjálfs (eða hvernig sem það nafn fallbeygist). Rocket scientist. Stofnandi Nátthrafnasamtaka Baggalútíu (NHS-B). Erkilaumupúki.Flöt jörð, slétt föt, hrein trú !
Fræðasvið:
Rocket science, life, the universe and everything
Æviágrip:
Vjer fæddumst í Rússlandi, að líkindum seint á 19.öld eða snemma á síðustu öld en munum eigi hvenær, vorum of ungir er það gerðist til að muna eftir því. Snemma hófum vjer tilraunakenndar eldflaugasmíðar og vorum óvart næstum búnir að þurrka megnið af Síberíu út við tilraunageimskot í Tunguska. Þar vorum vjer þó heppnir þvi eigi komst hitinn og eldurinn í kóbalt vort. Síðar lukum vjer doktorsnámi í eldflaugaverkfræði og efna- og eðlisfræði kóbalts svo og í notkun tölva til stjórnunar á gjöreyðingarvopnum og flúðum að því loknu land til að stunda tilraunir á eigin vegum víðsvegar um heim. Seint á árinu 2003 urðu tímamót í rannsóknum vorum er vjer skruppum í svaðilför mikla til Rússlands og stálum þar gjöreyðingarvopni því er elipton nefnist. Er vopn þetta núna mikilvægur liður í því að tryggja stöðu Baggalútíu sem stórveldis og hefur því stöku sinnum verið beitt gegn óvinum ríkisins. Nýlega hófum vjer síðan umfangsmiklar rannsóknir á hagnýtingu plútóníums, einkum til hálkuvarna og götulýsingar, t.d. á Hellisheiði.