— GESTAPÓ —
Krókur
Óbreyttur gestur.
Gagnrýni - 10/12/04
Heyðgarður

Ég á því láni að fagna að ganga til og úr vinnu í gegnum garð einn mikinn og stóran hér í miðri stórborginni er Heyðgarður nefnist. Göngutúrinn tekur um 25 mínútur og teljast þá með í reikninginn fáeinar mínútur sem tekur að ganga um nokkrar háværar umferðagötur hvorumegin við garðinn.

Heyðgarður er ekki bara stór og mikill heldur afar fallegur, með vel skipulögðum göngustígum, grænum vel snyrtum túnum og stórum og litlum trjám, sem mörg hver eru afar gömul. Eitt ílangt og mjótt vatn er Snákavatn nefnist prýðir garðinn með miklu fuglalífi og á góðviðridögum taka herramenn borgarinnar dömur sínar í bátsferð um vatnið og drekka te og borða skonnskur á kaffipalli við suðvesturendan, en við norðurendann eru ítösku gosbrunnarnir tignarlegir og vel hirtir. Vestar í garðinum fyrir framan er líka Hringtjörnin sem á sigla svanir og gæsir bíta gras við bakkana.

Við vesturendann stendur Kensingtonhöllin þar sem lafði Díana átti eitt sinn heima. Þó svo að höllin sjálf sé ósköp venjuleg þá situr Viktoría drotting steinsteypt eins og hún var í lifanda lífi, ströng á að líta á og starir hljóðum augum á þegnana. Maðurinn hennar Albert er ekki langt frá en gullsteyptur og glæsilegur en undir honum prýða margir merkis menn hans tíma steypuna, þar á meðal er enginn annar en Íslendingurinn Bertel Thorvaldsen.

Eins og andstæðan við þennan konunglega hluta garðsins þá á lýðræðið heima í norðaustur horninu en nefnist það Ræðumannahornið. Þar getur almenningur staðið á stokk og komið skoðunum sínum á framfæri að vild, en nú á dögum eru það aðallega innflytjendur og gestir frá miðausturlöndum sem láta í ljós óánægju sína með sín málefni. Það getur verið gaman að fara og hlusta á fólkið tala en upp á síðkastið hef ég forðast að koma þarna við og þá sérstaklega þegar ég er að skokka um garðinn mér til heilsubótar.

Það eru margir staðir í Heyðgarði sem ég læt vera að minnast á sumir merkilegri en aðrir. Ég vil samt meina að Heyðgarður eigi góðan þátt í að halda góðri sálarró borgarbúa með því að gefa þeim tækifæri á að forða sér frá sínu daglega ysi og þysi sem óhjákvæmilega spilar stóran þátt í lífi fólks sem býr í borg.

   (4 af 10)  
10/12/04 01:02

Prins Arutha

Svona garð vil ég hafa í garðinum mínum.
Skemmtilegt rit Krókur.

10/12/04 01:02

Doofus Fogh Andersen

Spurt er um garð? Er svarið Hædpark?
Annars fræðandi og skemmtileg lesning.

10/12/04 01:02

Krókur

Jú félagi, það ku vera Hædpark. Nafnið (ég var að skoða þetta) er dregið að enska orðinu hide sem er sem er flatarmálseining sem notuð var á miðöldum yfir það land sem gat framfleytt einni fjölskyldu. Tvö hide áttu svo að standa undir einum hermanni á stríðstímum.

10/12/04 01:02

Hakuchi

Ljómandi pistill. Ég á ekkert nema góðar minningar úr þessum sælureit.

Krókur:
  • Fæðing hér: 8/6/05 14:20
  • Síðast á ferli: 15/11/15 19:21
  • Innlegg: 37
Eðli:
Afar friðsamur og helst til feiminn. Á erfitt með að skilja af hverju fólk er alltaf að rífast en hefur samt gaman af að rífast sjálfur.
Fræðasvið:
Er þeirrar skoðunnar að "Hve mörg köst þarf til að ná 6 sexum?" sé í rauninni dulbúinn krikketleikur hér á Baggalúti.
Æviágrip:
Heyrst hefur að foreldrar mínir hafa verið sannir Sálin hans Jóns míns aðdáendur, en það eru getgátur einar. Eftir langt og strangt uppeldi í Windows höllinni, hef ég um alllangt skeið verið fyrirliði Sörrei krikketliðsins ásamt þess að vera konuglengur pólóþjálfari og rúðuþurrka.