— GESTAPÓ —
Krókur
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 9/12/04
Englendingar vinna Ástrali í æsispennandi leik

Edgbaston, Birmingham

Ég var að enda við að horfa á mest spennandi krikket leik sem ég hef séð og hef ég séð þá marga. Englendingar unnu Ástrali með tveimur stigum eftir tveggja klukkustunda spil á fjórða degi. Það var enginn annar en ofurhetjan Andrew "Freddie" Flintoff sem var maður leiksins með 68 og 73 stig og 7 wickets í leiknum.

England byrjaði leikinn mjög vel með að skora 407 stig á fyrsta degi og svo náðu þeir að kasta Ástrali út fyrir 308 stig á öðrum degi. Útlitið var því mjög gott í byrjun annarar lotu þangað til Ástralir náðu að kasta 9 mönnum út fyrir einungis 131 stig. Ensku kylfingarnir voru þá Simon Jones og Freddie Flintoff og settu þeir af stað flugeldasýningu með nóg af sexum og fjörkum og komu stigunum uppí 182 áður en ástralski snúðurinn Shane Warne náði að kasta Freddie út.

Takmarkið fyrir Ástralíu var þá orðið 281 og erfiðara fyrir vikið. En Ástralir komust á strik og opnuðu lotuna með 47-0. Inn kemur sóknina, enginn annar en Freddie Flintoff, og kastar Justin Langer út af sínum öðrum bolta og svo stuttu seinna fór Ástralski fyrirliðinn Rickie Ponting á önd. Hayden og Martyn náðu að setja nokkur stig á töfluna áður en þeir féllu og enski snúðurinn Giles náði tveimur út og í gærkvöldi leit út fyrir að England myndi vinna með 107 stiga forystu og þurftu einungis að ná tveimur út. En aðstæður í dag voru kylfinum í vil. Völlurinn var ennnþá nokkuð sléttur og ekki sami raki í loftinu og í gær þegar boltinn snérist meira. Shane Warne fór út mjög óheppilega eftir að þeir höfðu skorað 55 stig en Kasprowicz lifði af fyrstu boltana og stigin héldu áfram að leka inn frá honum en þó sérstaklega Brett Lee. Með sigurinn í 3 stiga augnsýn kom svo glæsilegt kast frá Stephen Harmison sem strauk hanska Kasprowicz sem var gripinn út af Geraint Jones wicket-verðinum.

Englendingar jafna því keppnina um Öskubikarinn en Ástralir tóku fyrsta leikinn á Lords í Lundúnum. Það er því allt opið í keppninni og þeir þrír leikir sem eftir eru lofa því góðu. Næsti leikur verður á Old Trafford í Manchester og byrjar næsta fimmtudag.

NB. Ef einhver veit um gott íslenskt orð yfir enska orðið wicket eða vill stinga upp á nýju orði, látið mig endilega vita.

   (8 af 10)  
8/12/04 07:01

bauv

Marksúla!

8/12/04 07:01

dordingull

Krikket er leikur sem engin leikur nema dreggjar bresks snobbaðals. Aðals sem verður að leggjast svo lágt að leika þennan vesæla picnic-leik, sem fundinn var upp til að halda börnunum uppteknum meðan úrkynjunar elítan lék sína leiki, við gamla fanganýlendu og greiða þeim og fámennum hópum frá öðrum nýlendusvæðum fyrir að æfa þetta krokkettspil til þess eins að leika einhverntíman við aðra en sjálfa sig.
Að vera að lýsa slíku hér lík og um alvöru íþróttakeppni sé að ræða er ídótískt.
Þó eru allar tegundir gríns leyfðar hér á Baggalút eftir því sem ég best veit,og sem slíkt er þetta vel skrifað og fínnt.
En hvernig heldur þú að hér verði umhorfs ef allir taka upp á svonalöguðu?
Á ég t.d. að fara að lýsa öllum Bláberjahlaupum haustsins í beinni með félagritum eða dagbók.
Wicket? Er það ekki ef einhverjum tekst að gera það sem hann á að gera í þessum leik. Köllum það: BINGÓ.

8/12/04 07:01

Krókur

Aha, mark og súla, tvö orð yfir ensku orðin wicket og stumps. Markið er því samansett úr þremur súlum og tveimur kubbum (bails).

8/12/04 07:01

Enter

Þakka þér fyrir þessi skrif Krókur, þau eru mikilvæg og þörf - og krikket er sannarlega íþrótt sannra karlmanna.
En hvurnig er það anars, má ekki bjóða herranum einkennismynd?

8/12/04 07:01

Hakuchi

Fróðlegur pistill í alla staði. Ég hvet þig til að halda áfram reglulegum skrifum um þessa forvitnilegu íþrótt.

Hún er alla vegana forvitnilegri en fjandans fótboltinn.

8/12/04 07:01

Krókur

Hvernig kemstu að þeirri niðurstöðu dordingull, að krikket sé ekki leikur, út frá því að hann var mikið spilaður í nýlendum Bretaveldis hérna í den tid? Nú var t.d. tennis, golf, hokkí, rugby og fótbolti líka mikið spilaður af Bretum víða um heim hér á árum áður. Eru það þá ekki íþróttir?
Annars myndi mér finnast það bara alveg ágætt ef fólk lýsti íþróttaleikjum meira hér á Baggalút, Bláberjahlaupi eða öðrum leikjum.
Ég held mark sé betra en bingó en þakka þér samt fyrir tillöguna og fallega umsögn um mínar skriftir.

8/12/04 08:00

Hóras

Hvar getur maður séð þessa fyrirmyndar íþrótt í sjónvarpi? Bjóða íþróttabarirnir upp á þetta?

8/12/04 08:00

Krókur

Ég horfi á krikket á Channel 4 sem er send út hér í bæ en ég held að svo sé raunin ekki í Reykjavík. Það mætti þó eflaust ná þessu á einhverjum kapalstöðvum eins og ESPN eða Sky.

8/12/04 08:01

dordingull

Hafði lítilsháttar samskipti við hóp af krikket sjúklingum fyrir nokkrum árum. Neyddist til að horfa með þeim á sama leikinn marga daga í röð og veit ekki hvort hann er búin enn. Þegar ég laumaðist frá til að horfa á fjandans uppáhaldsleik Hakuchi, vinsælustu íþrótt í heimi, kölluðu þessir hálvitar mig Coworkers gibe. Ég náði þessum brandara aldrei alveg enda trilltust þeir svo úr hlátri að ég heyrði þetta aldrei alminnilega.
Man svo ekki betur en þeir hafi rifist um hvort leyfa ætti keppendum að nota leysigeisla og stýriflaugar á næsta ári eða ekki.
Síðan er mér illa við þennan leik.

8/12/04 08:01

Krókur

Uss, þú átt ekki að láta einhverja illkvitna samstarfsmenn þína spilla fyrir þér í krikketfræðslunni. Ég held það séu allir sammála um það að þetta er ekki einfaldasti leikur í heimi til að skilja, en það er einmitt það sem er svo skemmtilegt við hann. Sjálfur var ég svo heppinn að spila leikinn þegar ég var táningur og svo þegar ég fluttist aftur hingað í bæ eignaðist ég vini bæði enska og frá Sri Lanka og Indlandi sem fræddu mig meira um leikinn.
Það getur hvaða idíót sem er skilið fótbolta og ég verð að viðurkenna að ég get alveg haft gaman af því að horfa á einn og einn leik (svona kannski vegna þess hve mikill idíót ég er) en mér finnst sú íþrótt á tíðum tröllríða allt og öllu í umræðum og áhuga manna.
Ég skora á þig dordingull að gefa krikket íþróttinni annan séns, sérstaklega ef þú hefur gaman af því að fylgjast allmennt með íþróttum.

8/12/04 08:01

Hakuchi

Já heyrðu Krókur, þú getur kannski frætt mig um eitt sem hefur angrað mig að undanförnu. Ég sé nú bara glefsur úr þessari virðulegu íþrótt ef ég rekst á íþróttafréttir á Sky eða CNN.

Eitt það flottasta við íþróttina var það að allir voru í afar fínum hvítlegum séntilmannsíþróttafötum. Alltaf vel til hafðir. Ég hef nýlega orðið var við þá skelfilegu þróun að sjá menn af og til vera að spila fáránlegum jogginggöllum í alls kyns litum.

Hvernig stendur á þessu? Eru hvítu fötin á leiðinni út? Hvenær hófst þessi þróun? Mér finnst þessi þróun trívíalísera íþróttina til muna og draga hana niður á lágt plan sauðsvarts almúgans.

8/12/04 08:01

Krókur

Hið svokallaða náttfatakrikket er annars almennilega kallað einsdagskrikket og þá fær hvert lið bara 50 hrinur en þeir þurfa ekki að taka 10 mörk, sem þeir annars þurfa að gera í alvöru fimm daga krikketi. Það eru allkonar aðrar sérreglur í þessari útgáfu eins og tildæmis fær hver kastari bara 10 hrinur. Ég hef ekki fylgst jafn vel með þessari útgáfu en mér skilst að hún geti verið mjög skemmtileg. Takmarkið hefur sjálfsagt verið að fá sauðsvartan almúgan til að horfa á (og borga fyrir) krikket en ég er sammála, þetta er ekki alvöru krikket.

8/12/04 08:01

Myglar

Dásamlegt félagsrit, dásamlegt alveg.
Ekki vænti ég að krókur geti einnig frætt okkur um muninn á Rugby league og Rugby union?

8/12/04 08:01

Krókur

Helsti munurinn á union og league er að eftir hverja tæklingu í league má maðurinn sem heldur á boltanum standa upp og hefja leikinn aftur en það má ekki í union. Það eru 13 leikmenn í hvoru liði í league en 15 í union. Þó ég hafi mest spilað league sem táningur þá veit ég minna um það en union því ég horfi mest á það á veturnar og spila stundum.

8/12/04 08:01

Hakuchi

Fróðlegt. Hvor útgáfan er vinsælli? Skil ég það rétt varðandi league, að eftir tæklingu, ef leikmaður er enn í heilu lagi og með boltan, þá megi hann halda áfram ef hann getur en í union er leikurinn stöðvaður?

Mig hefur alltaf langað að spila rúbbí og fáránlegt að þessi fallega íþrótt skuli ekki vera spiluð hér í stað déskotans fótboltans sem drepur niður andagift æskunnar.

Ég veit ekki af hverju en ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að ég gæti staðið mig ágætlega í rúbbí, kannski er það bæld ofbeldishneigðin sem bíður eftir tækifæri, veit ekki.

8/12/04 08:01

Hakuchi

Væri ekki mál að þú skrifaðir bara pistil um rúbbí og þennan blessaða mun?

8/12/04 08:01

Krókur

Öhh, ef maður er tæklaður í union verður maður að sleppa boltanum annars er s.k. víti. Í league heldur maður boltanum og allir verða að bakka frá. Það má reyndar bara gerast fimm sinnum en þá sparka menn yfirleitt knettinum fram á við (ef ég man rétt) ef þeir eru langt frá marklínunni.

Annars skal ég skrifa stutta grein um rúgbí við tækifæri, og ef ég geri það ekki bráðlega, minntu mig þá endilega á það. Núna þarf ég að drífa mig af stað því það á víst að halda upp á afmælið mitt eftir alltsaman!

8/12/04 08:02

Ég sjálfur

Úff. Ég hélt að þetta yrði einhver *** fótboltapistill.
Það ætti að spila meira krikket hér á Fróni.

8/12/04 09:01

dordingull

Til er ævaforn leikur ættaður frá þeim slóðum er vagga mannkyns er fyrst talin hafa ruggað. Leikurinn sem kallast, stokkið yfir mannætupottinn, byggist á því að sá tapar sem dettur í pottinn. Þekki einn sem er mjög góður í þessari fornu íþrótt. Og ef þið viljið þá get ég beðið hann um að kenna ykkur hana.

8/12/04 09:01

Krókur

Er ekki bara málið að smella einu félagsriti á þetta langstökk?

Krókur:
  • Fæðing hér: 8/6/05 14:20
  • Síðast á ferli: 15/11/15 19:21
  • Innlegg: 37
Eðli:
Afar friðsamur og helst til feiminn. Á erfitt með að skilja af hverju fólk er alltaf að rífast en hefur samt gaman af að rífast sjálfur.
Fræðasvið:
Er þeirrar skoðunnar að "Hve mörg köst þarf til að ná 6 sexum?" sé í rauninni dulbúinn krikketleikur hér á Baggalúti.
Æviágrip:
Heyrst hefur að foreldrar mínir hafa verið sannir Sálin hans Jóns míns aðdáendur, en það eru getgátur einar. Eftir langt og strangt uppeldi í Windows höllinni, hef ég um alllangt skeið verið fyrirliði Sörrei krikketliðsins ásamt þess að vera konuglengur pólóþjálfari og rúðuþurrka.