— GESTAPÓ —
Grýta
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/12/09
Steggurinn stælti og Benni Bengal.

Saga tveggja steggja sem eiga að eiga sama heimilið.

Kötturinn er einn. Gamall og stór og heitir Benni Bengal. Hann hefur sína hentisemi og fer út og inn eftir eigin hentugleika, veðri og vindum. Hann sefur stundum inni dögum saman eða er úti dögum saman án þess að angra nokkurn.
Hann á fullt af læðu vinum og þó nokkur afkvæmi, sem hann býður inn í mat og gistingu öðru hvoru.
B.Bengal er einstaklega ljúfur, nærgætinn og hugulsamur við læður sínar og afkvæmi. Hann er upprunalega villtur. Mamma hans var villiköttur sem þýddist ekki nokkurn mann. Benni álpaðist inná heimili mitt og lét sér líða vel og hefur verið hjá mér í næstum 10 ár.

Nú um áramótin tók ég að mér stegg í fóstur, sá er ungur og léttur á fæti, fjörugur og mjög kelinn og kær mönnum.
Sambúð B.B. og S.S. er alls ekki uppá það besta. Ég þarf að vakta þá báða þegar þeir eru heima saman. Loka annan inní herbergi á meðan ég klappa hinum
Steggurinn nýji hvæsir og urrar á Benna minn, sem lætur sér fátt um finnast. Þó gerðist það í kvöld þegar ég var að klappa nýja steggnum að B.B. beit mig harkalega í fótinn og stuttu síðar í handlegginninn þegar ég ætlaði að klappa honum og klóra. Þessi bit hans eru þau fyrstu, sem ég þekki, á hans löngu ævi og farsælli sambúð okkar.
Núna í kvöld voru þeir tveir saman í stofunni. Þeir lágu í sitthvorum sófanum í alveg eins stellingu, með höfuðið framá framlappirnar. Þeir fylgdust hvor með öðrum og lyngdu aftur augunum. Báðir varir um sig.
Ég lét sem ekkert væri, en fylgdist með þeim báðum á meðan ég var að koma jólaskrautinu fyrir á sinn geymslustað. Ryksugaði og opnaði út. Áður en ég gat rönd við reist hurfu þeir báðir útum gættina.

   (4 af 7)  
1/12/09 10:00

Billi bilaði

Framhald síðar?

1/12/09 10:00

Andþór

Skemmtilegt.
Það er oft ansi erfitt að vera með dýragarð heima hjá sér en ákaflega gefandi finnst mér.

1/12/09 10:00

Regína

Afbrýðisemi er heilbrigð tilfinniing, þó hún þyki ekki smart hjá okkur mannfólkinu.

1/12/09 10:00

Heimskautafroskur

Afbragðs rit. Takk.

1/12/09 10:01

Huxi

Þetta er skenntileg saga. Það er farið að hvarfla að mér að þeir sem mest hafa sig frammi hérna á Gestapó séu allir kattavinir. Sem er alveg ljómndi gott.

1/12/09 10:01

Kiddi Finni

Skemmtileg saga. Við áttum læðu en ég varð svo ofnæmur að hún átti að fara. Læðan hét Gríma, átti hún tvo kettlinga sem hétu Þóra og Össur. Og þetta í Finnlandi.

1/12/09 10:01

Kargur

Kettir eru handbendi djöfulsins.

1/12/09 10:01

Madam Escoffier

Skemmtileg lesning og endirinn býður upp á framhald, vonandi.

1/12/09 10:02

Huxi

Kagur er hæddur við ketti. Hí á hann. [Eineltir Karg um allt félaxritið]

1/12/09 11:01

krossgata

Kettir eru skemmtilegir. Ég hélt samt að nýja fressið væri fugl þar til í framhaldinu að talað er um kisurnar. Reyndi mikið að sjá fyrir mér fugl og kött liggja í sömu stellingu.

Ég hef trú á að þeir muni til framtíðar umbera hvorn annan fyrir náð og miskunn.

1/12/09 11:01

Grýta

Já, krossgata, ég átta mig á þessum misskilningi þínum. Ég þekki orðin fress og högni en mér er tamast að nota orðið steggur um karlkyns ketti.

1/12/09 13:02

Jarmi

Hér eftir verða karlkyns fílar kallaðir folar, karlkyns geitur verða fress, karlkyns selir verða naut, karlkyns maurar verða geltir, kalkyns hænsn verða hrútar og karlkyns menn verða asnar. Eða nei bíðum nú við, það væri BULL!

1/12/09 14:01

Ísdrottningin

Ég ólst líka upp við að karlkyns kettir væru kallaðir steggir og þekkti ekki annað fyrr en maður kom suður í sollinn.

1/12/09 17:00

Bölverkur

Magnað.

1/11/09 06:00

núrgis

Skemmtilegt rit.
Ég hef einmitt verið að glíma við aðskotaketti undanfarið en til mikillar lukku þá á ég varðkjesu sem er af rússnesku bergi brotin og kallar ekki allt ömmu sína. Hún rekur þá alla út fyrir mig með hávaða og látum, mér til mikils ama oft á tíðum. Þó þykir mér alltaf lúmskt gaman af þessum gestum svo lengi sem þeir spræni ekki í hornin hjá mér.

1/12/13 10:01

ullarhaus

þetta endar allt i jólakettinum...eða er jólakötturinn læða?????hummmm hugs

8/12/14 00:02

krossgata

Upprifjunarferðalag. Stundum er nauðsynlegt að ferðast um gamlar slóðir. Kettir eru dásemd.
[Malar]

Grýta:
  • Fæðing hér: 17/5/05 22:21
  • Síðast á ferli: 13/6/23 22:25
  • Innlegg: 12526