— GESTAPÓ —
Kargur
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 1/11/06
Í nýju ljósi

Röfl í nýbúa.

Síðan ég flutti heim sé ég hluti í allt öðru ljósi en áður. Fjöllin sem ég hafði fyrir augunum upp á hvurn einasta dag meðan ég var að alast upp eru nú mikið tilkomumeiri en ég hef nokkurn tíman tekið eftir. Jökullinn er hvítari, jafnvel áin er einhvurn vegin allt öðru vísi en ég mundi hana.
Hlutir sem mér leiddust frekar hér í den eru alls ekkert leiðinlegir núna. Hvunndaxmatur er hálfgerður veizlukostur. Það sem eitt sinn þótti skítaveður er nú fyrirtaksveður.
Um daginn reið ég latri og feitri meri þrjár bæjarleiðir í suddaveðri. Áður fyrr hefði ég aldrei gert þetta ótilneyddur. En nú fannst mér þessi útreiðatúr hin bezta skemmtun. Það að vera illa ríðandi er mun skárra en að vera alls ekkert ríðandi.
Það er svo margt sem ég vissi ekki að ég saknaði. Annars saknaði ég verulega. Á hverju hausti óskaði ég þess að ég væri að fara í leitir. Ég saknaði þess að geta ekki farið í fótbolta. Það var gott að komast í fótbolta. Það var frábært að komast í leitir. En hvurjum hefði dottið í hug að mér þætti gaman að mjólka? Eða djöflast í heyskap eins og þræll?
Ég vona að hlutirnir eigi eftir að vera í þessu ljósi um ókomna tíð.

   (14 af 54)  
1/11/06 09:00

blóðugt

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það er nú gott að þú komst heim.

1/11/06 09:00

Anna Panna

Æ hvað ég vona það líka, það er svo gott að kunna að meta það sem maður hefur í kringum sig.

1/11/06 09:00

Jarmi

Ástfanginn af sveitinni.
Falleg rómantík í því.

1/11/06 09:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ég sé ljósið.

1/11/06 09:00

Lopi

Ertu í nýju fjósi?

1/11/06 09:00

krossgata

Já, vonandi breytist þetta ekki. Það má draga af þessu þá ályktun að bandaríkjahreppur standist ekki samanburð við þann íslenska.
[Ljómar upp]

1/11/06 09:01

Útvarpsstjóri

Þú gleymdir alveg að nefna hversu gríðarlega þú hefur saknað mín.

1/11/06 09:01

Billi bilaði

Hvaða andstaða er þetta hjá bræðrunum að vera ekki með yfirvararskegg? Eru þetta samantekin ráð? Veit ritstjórn af þessu?

1/11/06 09:01

Garbo

Já, það er alveg nauðsynlegt að fara burt annað slagið þó ekki væri nema til þess að geta komið heim aftur., í sveitasæluna.

1/11/06 09:01

Nornin

Hvernig líkar konunni og krökkunum vistin á klakanum?

1/11/06 09:01

Skabbi skrumari

Velkominn heim kallinn minn...

1/11/06 09:02

Kargur

Nei ég gleymdi ekki að nefna hvursu gríðarlega ég saknaði þín Útvarpsstjóri.
Börnunum líkar vistin með eindæmum vel. Konunni aðeins síður. Eins og það skipti máli...
Krossgata; ég reyni ekki einu sinni að bera bandaríkjahrepp við sveitina mína. Ég sakna einskis þaðan, nema kannski wal-mart.

1/11/06 09:02

albin

"Um daginn reið ég latri og feitri meri þrjár bæjarleiðir í suddaveðri."

Ég átt líka svona kærustu einu sinni.

1/11/06 10:00

Jarmi

albin: Dömpaði hún þér greyinu?

1/11/06 10:01

Upprifinn

Hugsið ykkur bara, ef hægt er að verða svona glaður við að hitta Borgarfjörð aftur hvernig ætli maður yrði af að koma heim í Þingeyjarsýslu eftir áralanga fjarveru.
ég sem fer að sakna heimahagana strax og ég sé oní Eyjafjörð.

1/11/06 10:02

Útvarpsstjóri

Ég saknaði nú Borgarfjarðar gríðarlega meðan ég dvaldi í Þingeyjarsýslu.

1/11/06 11:00

Upprifinn

meira hlýtur þú að sakna Þingeyjarsýslu núna.

1/11/06 11:00

Jóakim Aðalönd

Gott að þér líkar lífið á Klakanum Kargur. Hins vegar vildi ég gjarna hverfa héðan yfir vetrarmánuðina, enda farfugl að upplagi...

1/11/06 11:02

Útvarpsstjóri

Vissulega sakna ég Þingeyjarsýslu núna, Upprifinn. Þó sakna ég sérstaklega þess að spila Lomber allar nætur. Meira sakna ég þess þó að búa í Borgarfirði.

1/11/06 11:02

Kargur

Ég aftek með öllu að félaxritið mitt sé notað sem vettvangur fyrir umræðu um þingeyjarsýslu; allra síst umræðu sem hælir nefndri sýslu.

1/11/06 12:00

Útvarpsstjóri

[syngur "vel er mætt til vinafunda" hástöfum]

Kargur:
  • Fæðing hér: 8/5/05 19:39
  • Síðast á ferli: 15/10/23 21:26
  • Innlegg: 10540
Eðli:
Kargur bóndadurgur.
Fræðasvið:
Ekkert sérstaklega fróður um nokkurn skapaðan hlut.
Æviágrip:
Hefur unnið að fullkomnun sérvizkunnar frá unga aldri. Tilnefndur til nóbelsverðlauna í þrjósku árlega. Gafst upp á hefðbundnum búskap fljótlega upp úr fermingu og vann um stund að kynbótum á könum. Lauk þeim farsællega og býr nú heima í heiðardalnum.