— GESTAPÓ —
Furðuvera
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/11/06
Te

Eins og mörg ykkar kannski vita, þá er ég mikið fyrir te af flestum gerðum. Undanfarið, þar sem skólinn er svo stutt frá, þá hef ég farið á hverjum skóladegi í Te og Kaffi búðina í Suðurveri og fengið mér bolla af tei. Veggurinn fyrir aftan afgreiðsluborðið er þakinn hillum, og á hillunum sitja fjölmargir silfraðir dunkar af alls konar tei. Það sést strax af hverju Te er á undan Kaffi hjá þessu fyrirtæki, það er miklu miklu meira af tei heldur en kaffibaunum í boði. Hvet öll ykkar sem drekkið te til að fara stundum í þessa búð og fá að þefa af mismunandi teum, hvort sem þið hafið heyrt um þau áður eða finnst nafnið áhugavert. Sem dæmi langar mig að nefna nokkur af þeim teum sem ég hef smakkað þarna.

1. Ceylon Kenilworth. Það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég fann lyktina var brúnn sykur og hunang, en þetta nefnist víst "malt" lykt hjá smökkurum. Mjög sæt og sterk lykt. Teið var bragðmikið og litsterkt, man samt ekki nákvæmlega litinn, og ekki mjög súrt. Ég hef það fyrir vana að geyma svart te í litlum sérstökum kassa uppi í skáp og þegar hann tæmist næst kaupi ég örugglega þetta te til að fylla hann.
2. Mate. Þetta er í rauninni ekki te heldur jurtin Yerba Mate, sem vex í Suður Ameríku og er mikið drukkin þar. Þjóðardrykkurinn í Argentínu og Uruguay, mér skilst að þar megi oft sjá fólk á götunni að drekka þetta. Á hefðbundinn hátt er teið búið til í egglaga íláti og drukkið gegnum málmrör. Persónulega held ég að bragðið sé aquired taste, minnir helst á grænt te, grasbragð og jafnvel tóbaksbragð. En þar sem jurtin er mjög koffínrík auk þess að innihalda andoxunarefni þá reyni ég að drekka þetta þegar mig skortir nennu til að gera mínar skyldur. Þá er MJÖG gott að blanda þessu út í grænt te með einhverju bragði, t.d. prófaði ég að blanda þessu við Sencha Wild Grey og það var yndislegt. Þetta te er líklega mjög gott fyrir þá sem vilja minnka kaffidrykkjuna án þess að fara í of slæmt fráhvarf.
3. Rauðrunna Paradise. Rauðrunnate er tiltölulega nýkomið inn í vestræna menningu, enda vex plantan villt í Suður Afríku og er mest drukkin þar. Nýlegar rannsóknir sýna að teið er járnríkt, stútfullt af andoxunarefnum og gott í maga auk þess að vera mjög róandi fyrir svefninn. Teið minnir um margt á venjulegt svart te hvað bragð varðar, en það er sterk rautt á litinn og sætt. Rauðrunna Paradise er blandað sólblómum og kornblómum, sem gefa mjög sæta lykt. Mér finnst vera sítrus bragð af því. Ég hef verið að reyna að fá hana mömmu til að drekka þetta í staðinn fyrir kaffi á kvöldin(!!!).
4. Lapsang Souchong. Fyrst þegar ég las um þetta te þá varð ég hissa, því áður en telaufin eru gerjuð og þurrkuð eru þau reykt yfir furu eða sedarviði, sem gefur rosalega reykjarlykt. Ég þorði ekki að smakka fyrst þegar ég fann lyktina af því, en hún tók rosalega í öndunarfærin og mér fannst ég vera stödd í sumarbústað sem stóð í ljósum logum. Ég smakkaði þetta þó um daginn. Þrátt fyrir að vera svart te þá fann ég ekkert bragð, líklega af því að lyktin var svo yfirgnæfandi. Ég gat tekið tvo sopa áður en mér varð óglatt. En, fólk er mismunandi, og sumum finnst þetta víst mjög gott te.
5. Vetrarblanda og Vetrardraumur. EKKI draga djúpt andann þegar þið þefið af þessum tveimur, lyktin er mjög kraftmikil og þið finnið vel fyrir ennisholunum. Þessi tvö eru svört te blönduð með ýmsum ávöxtum og kryddum, helst er möndlulyktin áberandi. Yljandi og gott í köldu veðri.

   (5 af 37)  
1/11/06 10:01

albin

Þú hefur aldeilis fengið að finna til tevatnsins.

1/11/06 10:01

Skabbi skrumari

Mig langar í kaffi.... [slefar óhugnalega mikið]

1/11/06 10:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Varst þú ekki öll í maltinu ?

1/11/06 10:01

Grágrímur

Mig langar í malt.

1/11/06 10:01

Garbo

Flott rit. Það er fátt betra en góður tebolli.

1/11/06 10:01

krossgata

Mikil tefræði. Mér finnst te vont, en ætla að benda mömmu á þetta. Hún er tefíkill.

1/11/06 11:00

Jóakim Aðalönd

Mikið er ég ánægður með þennan pisling hjá þér Furða. [Hoppar af kæti]

Te er göfugmannadrykkur og miklu fjölbreyttari og stundvísari en kaffi. Ætli megi fá kókate í verzlun þessari? Ég á enn nokkra poka af því, en það er óðum að hverfa, þannig að ég tími því varla ofan í mig lengur...

1/11/06 11:00

Jóakim Aðalönd

Ég man líka eftir því á götum Montevideo að ofsalega margir voru með svona furðulegan bolla og málmrör, auk hitabrúsa undir hendinni, drekkandi Yerba Mate. Það reykir nánast enginn í Uruguay af þessum sökum; þeir þurfa þess ekki...

1/11/06 11:00

Regína

Te er gott... . nema Earl Grey.

1/11/06 11:01

Furðuvera

[Skálar í Assam Panitola]

1/11/06 12:01

Þarfagreinir

Ég þarf að drekka te; það eru hreinar línur. Það er fátt sjentilmannslegra en að súpa á tebolla.

1/11/06 14:01

Heiðglyrnir

Jamm afar fróðlegt furða mín. ..Riddarakveðja

Furðuvera:
  • Fæðing hér: 17/4/05 11:40
  • Síðast á ferli: 28/7/10 16:45
  • Innlegg: 1416
Eðli:
21% fáviti, 48% kjáni, 31% snillingur.
Fræðasvið:
Bólfarir og tedrykkja. Einnig ágætlega vel að sér í lífeðlisfræði, prjónaskap og ensku.
Æviágrip:
Á meðan hún var getin í petrískál, var pabbi hennar að spila pool. Á unglingsaldri uppgötvaði hún Gestapó, og hefur átt heima þar síðan. Gekk í lið með djöflum þeim sem byggja Undirheima Baggalútíu og eyðir nú dögum sínum í hvers kyns afbrot, nýliðaskelfingar og djöflaskap, en er nú líka vænsta skinn inn við beinið. Er í essinu sínu við eldamennsku, uppi í rúmi eða við prjónaskap.