— GESTAPÓ —
Furðuvera
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 2/11/04
Útgáfuhátíðin

3. desember klukkan 20:00 í Borgarleikhúsinu.

Eins og fróðir menn vita, þá var í kvöld haldin Útgáfuhátíð Geimsteins í Borgarleikhúsinu. Fjórar hljómsveitir spiluðu á einu kvöldi undir einu þaki, nánar til tekið Rokksveit Rúnars Júlíussonar, Köntrísveit Baggalúts, Hjálmar, og Deep Jimi and the Zep Creams.

Ég og faðir minn mættum nógu snemma, settumst í okkar sæti og biðum. Eftir u.þ.b. 20 mínútur voru allir mættir og sjálfur Rúnar Júl steig á svið með fríðu föruneyti hljóðfæraleikara. Tvö eldri hjón við hliðina á mér urðu aftur ung þegar Rúnar tók sér stöðu á miðju sviði fyrir framan míkrófóninn íklæddur jakkafötum með hatt og staf.
Ég verð því miður að viðurkenna að ég þekki Rokksveitina ekki nógu vel til að þekkja lögin sem hún tók, en öll voru þau bráðskemmtileg og komu fólki í gott stuð fyrir það sem koma skyldi.

Þegar sveitin hafði lokið sínu prógrammi, var komið að aðalnúmerinu(að mínu mati). Köntrísveit Baggalúts gekk inn á sviðið við mikið lófatak áhorfenda og byrjaði auðvitað á því að fá Rúnar til að taka með þeim lagið Pabbi þarf að vinna í nótt. Eftir það söng afar djúpraddaður maður lagið Kallinn.
Köntrísveitin spilaði og söng með mikilli snilld öll sín bestu lög af plötunni Pabbi Þarf að Vinna. Ég vil óska þeim til hamingju með einstaklega vel heppnaða tónleika, og afar flotta hatta.

Næst á svið var reggíhljómsveitin Hjálmar. Þeir tóku lög af sinni nýjustu plötu, Hjálmar, m.a. Til Þín, Geislinn í Vatninu og auðvitað Ég Vil Fá Mér Kærustu.
Magnað. Svo einfalt er nú það. Ótrúleg hljómsveit, ótrúleg sviðsframkoma, ótrúleg tónlist. Ekkert meira er hægt að segja.

Síðasta sveitin til að stíga á svið var Deep Jimi and the Zep Creams, hljómsveit sem ég verð að viðurkenna að hafa aldrei heyrt um áður. Engu að síður var hún í einu orði: töff.
Söngvarinn var í jakkafötum með hatt. Hann var töff.
Gítarleikarinn var ósköp venjulegur. Hann var töff.
Bassaleikarinn var stór gaur í jakkafötum. Hann var töff.
Trommarinn var óður með teygju í hárinu. Hann var einstaklega töff.
Deep Jimi and the Zep Creams spilaði hratt og orkumikið nútímalegt rokk. Laglínurnar voru skemmtilegar og rafmagnaðar. Söngvarinn vældi með eins og ég veit ekki hvað, sem var í sjálfu sér einstakt og bara flott. Eftir nokkur lög var hann farinn að taka undarleg dansspor.
Deep Jimi and the Zep Creams er æðisleg hljómsveit. Hún er full af rafmögnuðu stuði, orkumikil á sviði og fær mann til að langa að hoppa upp á svið með þeim.

950 íslenskar krónur er alls ekki neitt fyrir svona skemmtun. Eftir þessa tónleika finnst manni eins og maður gæti í alvörunni farið heim á handahlaupum.

   (16 af 37)  
2/11/04 03:02

Ívar Sívertsen

Mikið andskoti hefði ég viljað vera þarna. Fín gagnrýni annars.

2/11/04 04:00

Heiðglyrnir

Bið Furðuveru fyrirfram velvirðingar á þeim skömmum sem hér á eftir koma.
.
Hvar í forskölluðum fjandans fjölmiðafjósum var þessi stór atburður auglýstur. Ekki á Baggalút svo mikið er víst. Hvaða maðksmognu magnsölu markaðsetningu er verið að brúka hér og í hvaða nánasar skóla í Skotlands er hún kennd. Maður er bara svo yfir sig ofstuðlaður í orkulausum pirringi, yfir þessu öllu saman.
.
Riddarinn fordæmir svona vinnubrögð, sem voru þess valdandi að hann missti af þessum stórviðburði ARGGGGGGGG..!..
.
Frábær fimmstjörnu Furðuveru gagnrýni..!..
.
0 stjörnur til Ritstjórnar fyrir markaðssetningu..!..

2/11/04 04:00

Hermundur Frotté

Ef Heiðglyrnir hefði svolítið lagt sig eftir því að hlusta á Poppland á Rás 2 undanfarið þá hefði þetta alls ekki farið fram hjá honum. Þar voru gefnir tæplega 100 miðar og einhverjir söngálfar á vegum Baggalúts mættu í spjall til Björns Jörundar á téðri rás í dag. Væri ekki ráð að hlusta á útvarp allra landsmanna?

2/11/04 04:00

Heiðglyrnir

.
.
Hæstvirtur Hermundur Handklæði, þér eruð að misskilja ofstuðlaða reiði ráðríka Riddarans..Hér á Baggalút..Hér á Gestapó..Höfuðvígi sannleikans..Heimavelli hæstvirtrar Ritstjórnar.. Ekki eitt einasta aukatekið aukaorð ekki svo mikið sem máttleysilegt múkk..Um það snýst formáli, fororð, meginmál, miðja og eftirmáli í málflutningi málmþreytunar, það er mergurinn málsins.. Stálsins..!..

2/11/04 04:00

Nornin

Fyrirtaks gagnrýni hjá þér Furða mín. Ég hefði mætt ef ég væri ekki í frosthörkunum fyrir norðan [tárfellir]

2/11/04 04:00

Litli Múi

Skál fyrir köntrísvet Baggalúts.
[skálar í alvöru koníak]

2/11/04 04:01

Offari

Yngist upp um átján ár á nóinu
Takk fyrir.

2/11/04 04:01

Tigra

[Skálar í platkoníak og drepst samstundis]

Furðuvera:
  • Fæðing hér: 17/4/05 11:40
  • Síðast á ferli: 28/7/10 16:45
  • Innlegg: 1416
Eðli:
21% fáviti, 48% kjáni, 31% snillingur.
Fræðasvið:
Bólfarir og tedrykkja. Einnig ágætlega vel að sér í lífeðlisfræði, prjónaskap og ensku.
Æviágrip:
Á meðan hún var getin í petrískál, var pabbi hennar að spila pool. Á unglingsaldri uppgötvaði hún Gestapó, og hefur átt heima þar síðan. Gekk í lið með djöflum þeim sem byggja Undirheima Baggalútíu og eyðir nú dögum sínum í hvers kyns afbrot, nýliðaskelfingar og djöflaskap, en er nú líka vænsta skinn inn við beinið. Er í essinu sínu við eldamennsku, uppi í rúmi eða við prjónaskap.